A A A
þriðjudagurinn 19. janúar 2016

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf 75 ára

Frétt í Vesturlandi 20. september 1941
Frétt í Vesturlandi 20. september 1941
« 1 af 2 »

Í dag 19. janúar 2016 eru 75 ár liðin frá stofnun Hraðfrystihússins hf. í Hnífdal.  Í bókinni Með háfjöll á aðra hönd og ólgandi haf á hina,  Sjötíu ára saga Hraðfrystihússins í Hnífsdal 1941-2011 segir m.a. svo:

 

Hraðfrystihúsið hf. stofnað

 

Hraðfrystihúsið hf. var stofnað 19. janúar árið 1941 og um þessar mundir eru því liðin sjötíu ár frá því að nokkrir Hnífsdælingar tóku sig saman um stofnun þess.  Fyrsti formlegi fundurinn, sem haldinn er um þetta mál var á skrifstofu Kaupfélags Hnífsdælinga þann 3. janúar 1941 og voru þar mættir 15 menn fyrir sjálfa sig og tvö útgerðarfélög.  Þremur mönnum, þeim Elíasi Ingimarssyni, Páli Pálssyni og Hirti Guðmundssyni var falið að semja uppkast að lögum fyrir félagið og boða til framhaldsstofnfundar.  Sá fundur var haldinn 19. janúar einnig á skrifstofu Kaupfélags Hnífsdælinga og voru þar mættir 17 menn fyrir 19 aðila og samþykkt voru lög í 20 greinum og kjörin stjórn félagsins.  Fyrstu stjórnina skipuðu  Páll Pálsson formaður, Elías Ingimarsson og Hjörtur Guðmundsson,  meðstjórnendur. Í varastjórn voru . Ingimar Finnbjörnsson, Jóakim Pálsson og Magnús Guðmundsson.   Þar með var Hraðfrystihúsið hf. Hnífsdal formlega stofnað og gat tekið til starfa. .

Um það leyti sem Hnífsdælingar byrja að huga að stofnun hraðfrystihúss birtist grein í Vesturlandi, blaði sjálfstæðismanna á Vestfjörðum, undir heitinu  Vestfjarða-annáll,  Frá Hnífsdælingum.   Þar segir að Hnífsdælingum hafi lengst af verið viðbrugðið fyrir sjósókn og aflasæld og það hafi haldist þrátt fyrir að útvegurinn hafi mikið dregist saman og Hnífsdalur megi nú fremur heita sveitaþorp en verstöð.  Einnig kemur fram að með

tilkomu  bryggjunnar í Skeljavík hafi útgerð Hnífsdælinga færst þangað inneftir og nú hafi Valdimar Þorvarðarson , stærsti fiskkaupmaður og atvinnurekandi í Hnífsdal, látið rífa tvö fiskhús og sótt um að fá þau sett upp á Ísafirði.  Síðan segir orðrétt:

 

Er því full ástæða til að ætla að vélbátaútgerð frá Ísafirði  fari enn vaxandi vegna aðflutnings báta úr nágrenninu, en Hnífsdalur verði að mestu leyti sveitaþorp.  Hefir þorpsbúum fækkað hægt en stöðugt undanfarin ár og flestir flutt sig til Ísafjarðar.  (Vesturland, 7. desember 1940)

Hnífsdælingar láta þessu ekki ósvarað og í Vesturlandi, sem kemur út sama dag og undirbúningsstofnfundurinn var haldinn birtist  grein eftir Elías Ingimarsson, einn af forvígismönnum stofnunar Hraðfrystihússins hf. og þar segir m.a.

 

Í greininni segir, að Hnífsdalur megi nú fremur heita sveitaþorp en verstöð.  Frá Hnífsdal eru nú gerðir út 5 landróðrabátar, 12 – 18 tonn, með 9 manna skipshöfn, auk þess hefir verið gerður út þaðan einn 50 tonna vélbátur tvö síðastl. sumur á síld. Þá eru ótaldir trillubátar og áraskektur.  Hygg ég að útgerð þessi standist samanburð við útgerð á Ísafirði, ef tekið er tillit til íbúatölu.  (Vesturland, 3. janúar 1941 bls. 3)

 

 

Byggingaframkvæmdir hefjast

Stjórn félagsins lét hendur standa fram úr ermum og á fyrsta stjórnarfundi, sem haldinn var sama dag og stofnfundurinn, er samþykkt að fela Jóni Jónssyni trésmið frá Flateyri að annast innkaup á vélum og öðru efni, sem þyrfti til fyrirhugaðrar frystihúsabyggingar,.

Einnig var samþykkt  að Elías Ingimarsson sæi um daglegar framkvæmdir. Nokkru síðar  er greint frá því að keypt hafi verið tvö fiskverkunarhús við bryggjuna í Skeljavík af Einari Steindórssyni og Elíasi Ingimarssyni á kr. 10.000.    Farið var í að tengja þessi tvö hús saman og stækka og úr þeim var byggt vélahús, frystigeymsla, sem einangruð var með torfi frá Grunnavík, fiskimóttaka og vinnsluaðstaða.  Frystipressa og tilheyrandi kom frá Vélsmiðjunni Héðni og í september var húsið tilbúið eins og kemur fram í eftirfarandi greinarkorni í Vesturlandi:

 

Frétt í Vesturlandi 20. september 1941

 

Fyrsti starfsmaðurinn var ráðinn um mitt ár 1941 og var það Magnús Guðmundsson , sem sinnti vélstjórn  og vann einnig með starfsmönnum Vélsmiðjunnar Héðins við niðursetningu véla í frystihúsið.  Við lok ársins 1941 var  byggingarkostnaður orðinn 149 þúsund krónur og hafði fengist lánafyrirgreiðsla frá  Fiskveiðasjóði, Útvegsbankanum og Fiskimálanefnd til að fjármagna þann hluta, sem umfram var eigið fé félagsins .

Starfsemin fór þó rólega af stað og fyrsta árið er ekki keyptur fiskur, en lítilsháttar af beitu um haustið.   Í ársbyrjun 1942 var gengið frá ráðningu þriggja manna til viðbótar,    Elías Ingimarsson var ráðinn framkvæmdastjóri,   Ingimar Finnbjörnsson vélstjóri og Sigurður Baldvinsson verkstjóri.    

Rúmu ári eftir stofnun félagsins, eða í  febrúar árið 1942, er byrjað að taka á móti fiski til vinnslu og í byrjun apríl er fyrsta sala á frosnum fiski,  871 kassi af fiski og hrognum til

Fiskimálanefndar að verðmæti kr. 72.550.-

 

 

 

Júlíus G. ÍS-270
Páll Pálsson ÍS-102
Stefnir ÍS-28
Örn ÍS-31
Vefumsjón