Á vaktinni í 50 ár
fimmtudagurinn 22. október 2015

Sveinn Guðbjartsson rafvirkjameistari starfaði hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal í liðlega 49 ár eða frá 15. mars 1966 til 1. júní 2015, þegar hann var rétt að verða 76 ára. Lengst af var hann verkstjóri en gekk annars í störf af nánast öllu tagi eftir þörfum hverju sinni. „Þetta er búið að vera heilt ævintýri, þessa hálfu öld hefur orðið svo mikil bylting í öllu,“ segir hann, og bætir við, að vinnuaðstaða í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal hafi alltaf verið afskaplega góð og einstök snyrtimennska að sama skapi.

 

„Það sem hefur einkennt þetta fyrirtæki alla tíð og haldið því á floti er hvað það hafa verið einstaklega góðir menn við stjórnvölinn, reglusamir og traustir menn,“ segir hann. „Strax í upphafi litu forsvarsmenn þessa fyrirtækis svo á, að það væri byggðin hér sem ætti að njóta góðs af því og hafa þar atvinnu. En það er nú eins og gengur, það eru fáir eftir sem vilja orðið vinna við þetta.“

 

Sveinn Guðbjartsson (Sveinn Árni) fæddist á Ísafirði 15. september 1939. Foreldrar hans voru Guðbjartur Jónsson (1911-1991), sjómaður, verkstjóri og skipstjóri á Ísafirði, og Sigríður Ólöf Jónsdóttir (1911-1998), saumakona á Ísafirði. „Ég er alinn upp í fjörunni í þessu góða útgerðarplássi og fylgdist með mönnum eins og Ásgeiri Guðbjartssyni og öðrum þegar þeir voru að byrja. Pabbi var líka skipstjóri á þeim árum þegar ég er að alast upp,“ segir hann.

 

Lengst af starfstímanum hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal var Sveinn verkstjóri. „Mest var ég útiverkstjóri en svo leysti ég inniverkstjórann af þegar hann fór í frí eða var fjarverandi einhverra hluta vegna. Ég held að ég sé búinn að vera þar í nánast öllum störfum, fyrir utan að vera á skrifstofunni. Það má segja að ég hafi verið hingað og þangað og alls staðar.“

 

Eftirminnilegir samstarfsmenn

 

„Hverjir eru mér sérstaklega eftirminnilegir? Það eru náttúrlega þessir höfðingjar sem ég byrjaði að vinna með. Þar er fyrst að nefna Jóakim Pálsson stjórnarformann, sem bað mig að koma og gekk á eftir mér að koma. Þá var Einar Steindórsson vinur minn framkvæmdastjóri fyrirtækisins og var það lengi eftir það, mikill höfðingi og duglegur. Heiðarlegur fram í fingurgóma og góður náungi, einstaklega vinnusamur og gaman að vinna með honum.

 

Einar var heimagangur hjá mér. Hann var framkvæmdastjóri á mjög erfiðum tíma og með honum var Ingimar Finnbjörnsson. Hjörtur Guðmundsson var vélstjóri þegar ég kom til starfa. Ég vann ekki lengi með honum, hann lifði nú ekki árið eftir að ég kom, en það myndaðist líka hjá okkur mjög traust og góð vinátta. Hjörtur var afskaplega duglegur og ósérhlífinn, heiðarlegur og raungóður maður, að mér fannst.

 

Þegar ég kem er Halldór Pálsson verkstjóri í salnum, geysilega mikið snyrtimenni, og húsið hefur alla tíð búið að því, bæði hvað varðar hreinlæti og snyrtimennsku. Ekki dró úr því þegar Kristján G. Jóakimsson kom þarna inn, hann er afskaplega harður á allri umgengni og snyrtimennsku.

 

Síðan koma þeir í land af sjónum, Jóakimarnir. Ég þekkti þá nú fyrir. Þegar ég var í Neista, þá kynntist maður öllum sjómönnum, en þó aðallega skipstjórum og vélstjórum. Maður þurfti að vinna í bátunum og þá voru þeir yfirleitt með manni.

 

Enginn hefur unnið lengur hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal en Pétur Þorvaldsson. Hann byrjaði á bátunum og var mjög lengi á sjónum, og þegar hann kom í land vann hann í frystihúsinu á meðan hann hafði starfsorku til. Einstaklega traustur maður. Hann var fyrst hjá Jóakim Hjartarsyni og meðeigandi, og þegar hann hætti um tíma, þá fór Pétur yfir til Jóakims Pálssonar og var með honum þangað til hann hætti. Eftir það var hann áfram eitt ár á Guðrúnu Guðleifsdóttur og kom svo í land. Ætli við Pétur höfum ekki verið starfsfélagar í þrjátíu ár.

 

Það var svipað með Kristján Kristjánsson, son Kristjáns skólastjóra. Ætli hann hafi ekki verið hér nálægt fjörutíu árum. Reglumaður mikill í alla staði og áreiðanlegur.

 

Það var mikið slys þegar þeir misstu bát, Svaninn RE, á Þorláksmessu 1966. Um svipað leyti hætti Karl Sigurðsson skipstjóri með Mími og hann kom í land og gerðist vélstjóri í frystihúsinu. Þá voru alltaf tveir vélstjórar í húsinu. Hann var með mér í nokkuð mörg ár, traustur og góður kall. Það einkenndi þessa menn alla hvað þeir voru traustir.“

 

Skrifstofufólk og skipstjórar

 

„Það var alltaf einstaklega góð samvinna milli mín og skrifstofufólksins. Helga Jóakimsdóttir er búin að vera mjög lengi á skrifstofunni, geysilega traustur samstarfsmaður og óskaplega elskuleg og tilbúin að hjálpa mér og gera allt fyrir mig hvenær sem er. Ég var hlaupandi í allt og alls staðar og leysti menn af nánast hvar sem var, og þá var alltaf gott að hafa hana við hliðina á sér, og náttúrlega líka fleira fólk á skrifstofunni.

 

Hansína Einarsdóttir var lengi á skrifstofunni. Það var undravert út af hennar veikindum hvað hún var lengi. Það var óskaplega gott að vinna með henni. Slíkt hefur reyndar alltaf fylgt þessu húsi og fram á þennan dag, alveg sama hvaða störf það voru sem fólk gegndi.

 

Þeir hafa líka verið heppnir með skipstjóra og sjómenn, afskaplega heppnir. Lengst af á þessu tímabili voru Addi Kitta Gau og Bernharð Överby skipstjórar, öðlingar báðir tveir. Það gat nú stundum heyrst í Adda, þó að hann væri ljúfmenni, en hann hafði þann stóra kost, að þó að fyki í hann eitt augnablik, þá var það undir eins úr honum og hann gat hlegið og tekið utan um þig eftir augnablik. En hann gat djöflast ef svo bar undir, og eins Bernharð. Óskaplega traustur maður, Bernharð Överby. Og sterkur. Þar meina ég sterkur á svo margan hátt. Menn þurfa ekki endilega að vera sterkir í puttunum til að vera sterkir. Menn geta verið andlega sterkir líka.“

 

Aldrei neinar afætur

 

„Á þeim tíma þegar Konráð Jakobsson var framkvæmdastjóri var Jóakim Pálsson stjórnarformaður og kominn í land og var toppurinn í fyrirtækinu með Jóakim Hjartarson með sér. Það var á þeim tíma eins og endranær hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, að það voru virkilega traustir og góðir menn við stjórnina.

 

Ég hef orðað það þannig, að það hefur alltaf frá upphafi verið einhvers konar þríeyki í þessu og er enn. Og það hefur líka fylgt þessu fyrirtæki, að það hafa ekki verið neinar afætur. Það hafa verið margar afætur á ansi mörgum fyrirtækjum hér og leikið þau illa, því miður. Þarna hefur aldrei verið neitt slíkt.“

 

Feit og mögur ár

 

„Þetta snerist nú svona áfram í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal. Þar komu bæði feit og mögur ár, eins og hjá öllum fyrirtækjum. Það voru erfið ár 1966 til 1968, bæði að missa skip og líka svo margt annað. Síldin var að hverfa, algert fiskleysi þar. Þá kynntist maður kannski annarri hlið á þessum mönnum. Einar Steindórsson, þessi samviskusami framkvæmdastjóri og oddviti hérna, hann var hér allt í öllu, hann átti þá örugglega erfið ár, mjög erfið. En hann var nú alltaf eins, alltaf hress og léttur í viðmóti.

 

Já, þeir komu í land, Jóakimarnir, og fóru að vera meira í þessu í frystihúsinu. Jóakim Hjartarson var reyndar stundum á sjónum eftir það. Til dæmis þegar Svanurinn fórst, þá voru þeir búnir að kaupa bát frá Eskifirði sem hét Guðrún Þorkelsdóttir. Honum var gefið nafnið Ásgeir Kristján eftir skipstjóranum á Svaninum og Jóakim Hjartarson fer skipstjóri á hann og var með hann um veturinn eftir áramótin og fram á vor.“

 

Aldrei byggt bara til að byggja

 

„Með tímanum þegar ný skip komu, þá var þetta hús ekki lengur með þeim flottustu á landinu. Þetta var lítið hús. Þegar ég kom var engin vél. Það var rétt eftir að ég byrjaði, eða í september 1966, sem fyrsta flökunarvélin kom í húsið. Það er mér dálítið minnisstætt, því að þá sprakk í mér botnlanginn. Það var afmælisgjöfin mín, og þá var fyrsta flökunarvélin að koma.

 

Frá þeim tíma hefur verið mjög hröð og skemmtileg uppbygging í húsinu og alveg fram á þennan dag. Ég hef trú á því að þetta sé með allra fullkomnustu húsum í dag. Árið 1966 byrja menn að byggja upp, og það hefur tekist afskaplega vel. Ég held að það sé ekki einn einasti fersentimetri í þessu húsi sem ekki er nýttur. Það hefur aldrei verið byggt bara til að byggja. Það hafa aldrei verið einhverjir steinsteypukofar einhvers staðar sem ekki hafa verið nýttir. Áður en ég kom byggðu þeir beinaverksmiðju og voru sjálfum sér nógir á flestöllum sviðum, enda voru samgöngur ekki eins öruggar og tíðar og góðar og þær eru í dag og vegirnir ekki eins góðir.

 

Það urðu geysileg umskipti hér þegar Páll Pálsson kom í febrúar 1973, í upphafi skuttogaraaldar. Maður er oft að hugsa um það núna hvernig hlutirnir voru áður. Ég veit ekki hvað það voru mörg ár sem var unnið hvern einasta laugardag. Þó nokkrir menn sem voru þarna í viðhaldi og öðru unnu líka alla sunnudaga. Ég vona að sú tilhögun sem þá var í þessu komi ekki aftur. Það var aldrei friður og ekki farið vel með hráefnið, alls ekki farið vel með hráefnið. Síðan hefur orðið bylting í því efni eins og öðru.“

 

– Hlynur Þór Magnússon færði í letur í október 2015 (útdráttur úr miklu ítarlegra viðtali).

 

Til baka