Enn ein gæðaverðlaunin
miðvikudagurinn 4. janúar 2006

Á árlegum markaðsfundi Icelandic Group þann 28. desember síðastliðnum afhenti Magni Þór Geirsson framkvæmdastjóri Icelandic UK áhöfn Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 sérstakan viðurkenningarskjöld fyrir framúrskarandi vöruvöndun við framleiðsluna árið 2005. Áhöfn Júlíusar var sú eina sem fékk viðurkenningu þetta árið frá Icelandic UK, en valið var byggt á gæðaskoðunum SH-þjónustu á afurðum skipsins, auk þess er einnig tekið tillit til umsagnar kaupenda á markaðnum og hlutfall framleiðslu fyrir Bretland. Icelandic UK er sölu- og markaðsfyrirtæki SH í Bretlandi sem sér meðal annars um sölu sjófrystra afurða þar í landi. Bretland er einn mikilvægasti markaður fyrir sjófrystar þorsk- og ýsuafurðir frá Íslandi og því mikil hvatning fyrir áhöfn og útgerð Júlíusar sem byggir mikið á þeim tegundum. Með verðlaununum fylgdi ferð fyrir tvo áhafnarmeðlimi á leik í Ensku deildinni, en það eru margir frábærir tipparar í hópi áhafnarmeðlima. Þess má einnig geta að áhöfnin fékk samskonar verlaun árið 2003.

Til baka