Tíðindi

föstudagurinn 21. desember 2012

Skötuveisla starfsfólks Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf.

Árleg skötuveisla fyrir starfsfólk Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. var haldin í hádeginu í dag og fjölsótt að vanda. Eins og vanalega hefur Sveinn Guðbjartsson verkstjóri veg og vanda að því að nóg sé af góðri skötu og segir að í ár sé hún mild, en samt ágætlega bragðsterk eins og vera ber. Hráefnið er tindabikkja af togurum fyrirtækisins.

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hefur í gegnum tíðina reynt eftir megni að styðja við samfélagsleg verkefni í heimabyggð. Að undanförnu hefur verið leitað leiða til að kaupa nýja stóla í mat- og samkomusal Hlífar, íbúða aldraðra á Ísafirði. Ákveðið var að styðja við verkefnið og í skötuveislunni í dag afhenti Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður H-G, fulltrúum Hlífar þeim Ingibjörgu Kjartansdóttur deildarstjóra og Brynhildi Halldórsdóttur myndarlegt framlag til kaupanna.

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. óskar starfsfólki, viðskiptavinum og öðrum velunnurum gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, með þakklæti fyrir samstarfið á árinu.
fimmtudagurinn 1. nóvember 2012

Styrkir til björgunarsveita og Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. afhenti nokkrum aðilum í heimabyggð styrki. Þeir sem hlutu styrkina eru: Björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal, Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík og Björgunarfélag Ísafjarðar, auk þess sem Björgunarfélagi Ísafjarðar var veittur sérstakur fjárstuðningur vegna sjálfboðavinnu félaga sveitarinnar í tengslum við þakskipti á fasteignum HG í Hnífsdal í sumar. Þá var Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði einnig afhent fullkomið sjúkrarúm með sérstakri loftdýnu til varnar legusárum og fjölnota hjólaborði.

„Það er okkur hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru mikill heiður að geta sutt við bakið á góðu starfi í heimabyggð. Það þarf ekkert að fjölyrða um mikilvægi björgunarsveitanna og heilbrigðisstofnunarinnar fyrir nærsamfélagið hér á Vestfjörðum. Því vildum við sýna hug okkar í verki", segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar.
Í tilefni dagsins var boðið til kaffiveitinga í kaffisal fyrirtækisins í Hnífsdal miðvikudagskvöldið 31. október.
mánudagurinn 16. júlí 2012

Enn mettúr hjá Júlíusi

Júlíus Geirmundsson ÍS 270, frystitogari Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. kom til heimahafnar í gærkvöldi með lang verðmætasta afla, sem hann hefur borið að landi í einni veiðiferð. Veiðiferðin stóð í 39 daga og aflinn upp úr sjó 830 tonn að verðmæti 360 milljónir króna, eða rúmar 9 milljónir að meðaltali á úthaldsdag. Uppistaða aflans er grálúða og ufsi. Við komu skipsins var efnt til grillveislu á hafnarbakkanum fyrir áhöfn skipsins og fjölskyldur þeirra og tókst hún með ágætum. Körfuknattleiksfélag Ísafjarðar (KFÍ) sá um veitingar með glæsibrag og tónlistarmaðurinn Baldur Geirmundsson hélt uppi fjörinu með harmonikkuleik.

Júlíus heldur til makrílveiða á sunnudag.
miðvikudagurinn 11. júlí 2012

Nýr veltitankur um borð í Stefni.

Stefnir ÍS 28, ísfisktogari Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. kom til hafnar á Ísafirði í dag með um 50 tonn. Uppistaða aflans er þorskur og ufsi, sem fer til vinnslu í frystihúsi félagsins í Hnífsdal. Undanfarnar vikur hefur Stefnir verið í slipp vegna reglubundins viðhalds. Meðal annars var settur veltitankur fyrir framan brú skipsins, sem á að draga úr veltingi og bæta þar með vinnuaðstöðu áhafnarinnar.

Algengt er að settir séu veltitankar á skip, en þessi er sérstakur að því leyti að hann er úr plasti og sá fyrsti sinnar tegundar í skipi hér á landi. Sævar Birgisson skipatæknifræðingur hjá Skipasýn ehf. hannaði tankann en Ausus ehf. í Þorlákshöfn smíðaði hann og í viðtali við Fiskifréttir sagði Ingimundur Árnason framkvæmdastjóri félagsins m.a.
"Hingað til hafa veltitankar verið smíðaðir úr stáli en plasttankurinn hefur það fram yfir stáltankinn að hann tærist ekki og er auk þess miklu léttari. Þá er hann einangraður og því frýs miklu síður í honum á veturna en hætt er við krapamyndun í stáltönkum þegar þeir eru ofan dekks."  (Fiskifréttir 21. júní 2012)

Blíðuveður var í fyrstu veiðiferðinni þannig að ekki reyndi mikið á hinn nýja búnað.
miðvikudagurinn 11. júlí 2012

Fyrsti makríltúr ársins

Páll Pálsson ÍS 102, ísfisktogari Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. landaði á Flateyri í morgun um 60 tonnum af makríl, sem hann fékk út af Breiðafirði.
Þetta er fyrsti makríltúr ársins og verður aflinn heilfrystur í Íshúsfélagshúsinu, fiskvinnslu H-G á Ísafirði. Til að framleiða hágæðavöru úr makríl þarf að vanda til verka bæði í veiðum og vinnslu. Veiðiferðirnar eru stuttar og landað á Flateyri til að koma aflanum sem fyrst í vinnslu. Unnið er sleitulaust við frystingu meðan hráefni er til staðar. Á síðastliðnu ári veiddu skip félagsins tæp tvö þúsund tonn af makríl og hefur hann því verið góð búbót.
Páll hélt aftur til makrílveiða að lokinni löndun.