Tíðindi

fimmtudagurinn 18. júní 2015

100 ár frá fæðingu Jóakims Pálssonar

Laugardaginn 20. júní eru 100 ár liðin frá fæðingu Jóakims Pálssonar.  Í bókinni Með háfjöll á aðra hönd og ólgandi haf á hina, 70 ára sögu Hraðfrystihússins í Hnífsdal 1941-2011,  segir m.a.:

Jóakim er síðastur frumherjanna í Hnífsdal er fellur frá.  Hann var einn af  þeirri kynslóð er tók við arfi feðranna, sem börðu sjóinn með árinni við upphaf vélbátaútgerðar á Íslandi á árdögum þeirrar aldar, sem nú er senn til enda runnin.

Hann fékk ungur það veganesti, sem dugði honum til átaka í lífsbaráttunni, hann var “athafnaskáld” svo sem mælt hefur verið um marga hans líka.  (Morgunblaðið, 14. september 1996, bls. 34)

Jóakim Pálsson fæddist í Hnífsdal,  20. júní 1915.   Fjórtán ára gamall hóf hann að stunda sjó með föður sínum, en 24 ára gamall stofnar hann ásamt nokkrum félögum sínum, útgerðarfélagið Hauk hf. og festi það kaup á 15 tonn bát, sem smíðaður var hjá Marsellíusi Bernharðssyni á Ísafirði.     Jóakim var skipstjóri á fjórum bátum, sem báru nafn föður hans, Páll Pálsson, á árunum 1939 til 1964 en síðustu fjögur ár skipstjóraferils síns á Guðrúnu Guðleifsdóttur, sem bar nafn móður hans. 

Jóakim var í varastjórn Hraðfrystihússins hf. frá stofnun til ársins 1947, síðan í aðalstjórn og formaður stjórnar frá árinu 1951 til aðalfundar árið 1994.  Hann var um árabil framkvæmdastjóri Mjölvinnslunnar hf og Miðfells hf.

Um hann segir Guðmundur Guðmundsson útgerðarmaður í minningargrein:

Eiginkona Jóakims var Gabríella Jóhannesdóttir og eignuðust þau sex börn.   Sambýliskona Jóakims síðustu árin var Sigríður Sigurgeirsdóttir. 

föstudagurinn 5. júní 2015

Saga Rauða hússins

Hraðfrystihúsið Gunnvör stóð nýlega fyrir því að útbúa og setja upp upplýsingaskilti á Rauða húsið svokallaða við höfnina á Ísafirði þar sem tilurð og saga þess er tíunduð. Hús þetta er allmerkilegt, enda var það byggt á Hesteyri upp úr aldamótunum 1900 þar sem það var notað sem íbúðarhúsnæði í tengslum við veiðar og vinnslu á hval og síðar síld, allt fram til ársins 1940. Fiskiðjan flutti húsið svo í pörtum til Ísafjarðar árið 1956 þar sem það var endurreist og var lengi vinnsluhús.

Í dag er húsið nýtt sem geymsluhúsnæði fyrir útgerð Gunnvarar, en ítarlegra söguágrip hússins má finna á vef fyrirtækisins.

Nánari upplýsingar hér.

fimmtudagurinn 23. apríl 2015

Smíði á nýjum Páli Pálssyni ÍS-102 formlega hafin

Smíði á nýju skipi Hraðfrystihússins-Gunnvarar hófst formlega á dögunum, en hinn 18. apríl kl. 10:38 hófst stálskurðurinn í skipasmíðastöðinni í Kína. Tímasetningin er engin tilviljun því að Kínverjar telja að tölunni 8 fylgi gæfa. Við þetta tækifæri voru einnig sprengdir margir Kínverjar eins og alsiða er þar í landi.

Skipið mun hljóta nafnið Páll Pálsson ÍS-102, en undirbúningurinn að smíðinni hefur tekið um ár, sem er nokkru lengri tími en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Nú þegar hafa allir stærri hluti sem munu fara í skipið verið valdir, ss. vélar, framdrifsbúnaður og allur spilbúnaður.

Aðalvél skipsins var prufukeyrð á plani í samsetningarverksmiðjum MAN turbo & diesel í Aurangabad í Indlandi þann 6. apríl síðastliðinn. Prófanirnar aðalvélarinnar komu að öllu leyti vel út.

Finnur Kristinsson hefur verið ráðinn eftirlitsmaður með smíði Páls Pálssonar og Breka VE, sem er smíðaður í sömu skipasmíðastöð. Finnur, sem var yfirvélstjóri á Arnari HU frá Skagaströnd til fjölda ára, verður staðsettur í skipasmíðastöðinni, en honum til aðstoðar hefur verið ráðinn kínverskur tæknifræðingur.

Þegar lengra líður á verkið er gert ráð fyrir að vélstjórar frá útgerðunum verði einnig við eftirlit auk þess sem aðrir starfsmenn fyrirtækjanna koma að verkinu.

Hér er listi yfir helsta búnað skipanna:

 • Aðalvél: MAN Diesel & Turbo type 6L27/38 1790 Kw
 • Gír: Reintjes  gírhlutfall 9,2:1
 • Skrúfubúnaður: MAN ,skrúfa 3 blöð, þvermál 4,7 m.
 • Ásrafall: AEM 40 – 50 Hz 1500 KVA
 • Ljósavélar: Caterpillar C18 400 Kw og C9 142 Kw
 • Vindur: Naust Marine / Ibercisa, allar vindur rafdrifnar.
 • Stýrisvél: Scan Steering
 • Skilvindur: Alfa Laval
 • Loftþjöppur: Sperre
 • Léttabátur: Norsave
 • Dekkkrani: Palfinger
 • Löndunargálgi: Shanghai Goodway Marine Engineering Co.
 • Dælur: Ascue
 • Krapaísvél: North Star / Bitzer
 • Aðaltafla: SAM electronics
 • Siglingar og fiskileitartæki: Furuno, Simrad
 • Útihurðir: Libra

Fylgist með á Fésbókar síðu nýsmíðarinnar.

þriðjudagurinn 7. apríl 2015

Jákvætt álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati 7.000 tonna sjókvíaeldis HG í Ísafjarðardjúpi.

Skipulagsstofnun hefur birt álit sitt á „Matsskýrslu fyrir 6.800 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og 200 tonna framleiðslu á þorski í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi á vegum Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf.“ Niðurstaðan er jákvæð og telur stofnunin að við leyfisveitingar þurfi að setja skilyrði um að eldisbúnaður og vöktun á uppsöfnun lífræns úrgangs á sjávarbotni uppfylli kröfur sem gerðar eru í erlendum stöðlum (NS 9415:2009 og ISO 12878). Álitið má nálgast með því að smella hér

Næstu skref HG eru að fá afgreidd starfs- og rekstrarleyfi frá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun (MAST) sem væntanlega taka mið af áliti Skipulagsstofnunar við afgreiðslu leyfanna. Ekki liggur fyrir hve langan tíma afgreiðsla leyfanna muni taka en í áætlunum HG hingað til hefur verið miðað við að leyfiveitingum  yrði lokið á vormánuðum og að hægt yrði að setja fyrstu regnbogasilungsseiðin í sjókvíar í Álftafirði í júnímánuði n.k. 

mánudagurinn 5. janúar 2015

Afli og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. 2014

Á árinu 2014 lönduðu skip Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. 12.277 tonnum að verðmæti 3.248 milljónum króna samanborið við 13.270 tonnum að verðmæti 3.432 milljónir árið 2013.
7,5% samdráttur varð á aflamagni og aflaverðmæti dróst saman um 5,4% á milli ára.

Minni afla og lægra aflaverðmæti skipanna má aðallega rekja til minna úthalds þar sem allir þrír togarar fyrirtækisins fóru í slipp á árinu. Júlíus var frá veiðum í einn og hálfan mánuð vegna viðgerða á skrúfu og slipptöku. Stefnir stoppaði allan júní vegna slipptöku og sumarleyfa. Páll stoppaði í þrjár vikur og fór í slipp. Valur og Örn voru gerðir út á rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og gengu þær veiðar vel og voru aflabrögð afar góð.

Segja má að aflabrögð hafi almennt verið góð á árinu líkt og undarfarin ár sem hefur leitt til hagkvæmari sóknar.

Togararnir fóru allir til veiða á nýju ári  2. Janúar kl. 14.00.

Afli skipa
  2014 2014 2013
Júlíus Geirmundsson 3.960 tonn 1.435 mill. 1.667 mill.
Páll Pálsson 4.819 tonn 953 mill. 901 mill.
Stefnir 3.110 tonn 737 mill. 779 mill.
Valur og Örn 388 tonn 123 mill. 85 mill.
Samtals. 12.277 tonn 3.248 mill. 3.432 mill.