Ágrip af sögu

Hraðfrystihúsið hf. var stofnað þann 19. janúar 1941 af nokkrum útgerðarmönnum í Hnífsdal og fleiri athafnamönnum í byggðarlaginu.

Konráð Jakobsson
Konráð Jakobsson

Fyrstu stjórn félagsins skipuðu þeir Páll Pálsson (formaður), Hjörtur Guðmundsson og Elías Ingimarsson sem jafnframt var fyrsti framkvæmdastjóri félagsins. Einar Steindórsson gegndi framkvæmdastjórastöðunni frá 1946 til 1977 en þá tók Konráð Jakobsson við framkvæmdastjórn og gengdi því starfi til 2. október 1999. Núverandi framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar er Einar Valur Kristjánsson. 

Tilgangur félagsins var í upphafi að byggja hraðfrystihús í Hnífsdal til frystingar og sölu á alls kyns fiski og beitusíld, eins og segir í stofnsamningi félagsins. Strax við stofnun félagsins hófst undirbúningur vegna fyrirhugaðrar byggingar hraðfrystihússins og kaupa á vélum og tækjum til starfseminnar.

Miðfell hf. var stofnað árið 1964, en fyrirtækið var dótturfélag Hraðfrystihússins hf. Miðfell lét smíða 264 tonna stálskip í A-Þýskalandi sem fékk nafnið Guðrún Guðleifsdóttir ÍS-102. Þar með var Hraðfrystihúsið hf. farið að afla sjávarfangs fyrir eigin vinnslu og þurfti þ.a.l. ekki að byggja eins mikið á aðkeyptu hráefni.

Árið 1971 urðu straumhvörf í starfseminni þegar stjórn Miðfells samþykkti að láta byggja skuttogara í Japan. Togarinn fékk nafnið Páll Pálsson ÍS-102. Togarinn kom til landsins í ársbyrjun 1973 en við það jókst hráefnisöflun félagsins og varð tryggari en áður. Samhliða komu togarans var frystihús félagsins nánast endurbyggt frá grunni á árunum 1972-1974. 

Seinnihluta ársins 1995 urðu miklar umræður um rekstur og eignarhald félagsins. Félagið hafði verið lokað hlutafélag (fjölskyldufyrirtæki) þar sem hömlur voru á meðferð hlutabréfa. Á stjórnarfundi þann 20. desember 1996 var samþykkt að opna þyrfti félagið, aflétta hömlum á meðferð hlutabréfa í félaginu og auka fjölbreytni þess á sviði sjávarútvegs. Á hluthafafundi þann 19. janúar 1997 kynnti stjórn félagsins hluthöfum hugmyndir sínar. Í framhaldi af hluthafafundinum var stjórn Hraðfrystihússins hf. sammála um að óska eftir viðræðum við stjórn Frosta hf. í Súðavík um sameiningu félaganna. Niðurstaða þeirra viðræðna var sú að félögin voru sameinuð í eitt öflugt félag þann 30. apríl 1997 undir nafni Hraðfrystihússins hf. Að þessari sameiningu kom einnig dótturfélag Hraðfrystihússins hf., útgerðarfélagið Miðfell hf. en 1. janúar 1997 hafði Frosti hf. sameinast dótturfélagi sínu Álftfirðingi hf. undir nafni Frosta hf. 

Frystihús Frosta hf í Súðavík
Frystihús Frosta hf í Súðavík
 

Þann 1. janúar 1998 sameinuðust Hraðfrystihúsið hf. og Króknes ehf. sem gerði út bátinn Örn ÍS-18 til veiða á innfjarðarrækju á Ísafjarðardjúpi. Félagið hafði yfir að ráða um 200 þorksígildistonna kvóta. Þann 30. júní 1998 sameinuðust Hraðfrystihúsið hf. og Útgerðarfélagið Oddur ehf. sem gerði út bátinn Gunnar Sigurðsson ÍS-13 til veiða á innfjarðarrækju á Ísafjarardjúpi. Félagið hafði yfir að ráða um 65 þorskígildistonna kvóta. 

Þann 1. janúar 1999 sameinaðist Þorgrímur ehf. Hraðfrystihúsinu hf. en Þorgrímur stundaði útgerð báta frá Súðavík.

Árið 1997 eignaðist dótturfélag Gunnvarar hf., Tog ehf., um 20% hlut í Hraðfrystihúsinu hf. í kjölfar samruna Hraðfrystihússins hf. og Frosta hf. Upp frá því sáu eigendur að mikil hagræðing gæti falist í því að sameina Hraðfrystihúsið hf. og Gunnvöru hf. Það var síðan í upphafi árs 1999 að tekin var ákvörðun, með aðstoð Íslandsbanka -F&M, að hefja sameiningarviðræður með samruna fyrirtækjanna í huga.

Þann 8. september 1999 var sameining Hraðfrystihússins hf. og Gunnvarar hf. samþykkt samhljóða á hluthafafundum beggja félaga. Einnig var samþykkt að nafni félagsins skyldi breytt í Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. 

Gunnvör ÍS-270
Gunnvör ÍS-270

Fyrirtækið Gunnvör hf. var stofnað hinn 7. október árið 1955 af Jóhanni Júlíussyni, Þórði Júlíussyni og Jóni B. Jónssyni og eiginkonum þeirra. Hlutafé félagsins var kr. 180.000 og tilgangur félagsins var kaup og sala á fiski og öðrum sjávarafurðum auk kaupa á skipum til fiskveiða.

Fyrsta skip félagsins, M.b. Gunnvör ÍS 270, var hleypt af stokkunum 19. maí 1956. M.b. Gunnvör var í eigu félagsins til ársins 1966 og reyndist hún hin mesta happafleyta. Á meðan á smíði hennar stóð leigði útgerðin tvo báta.

Fyrsti skuttogari Gunnvarar hf. kom til hafnar í lok árs 1972. Togarinn var smíðaður í Noregi og var 407 lestir.

Árið 1989 keypti félagið nýjan flakafrystitogara sem byggður var í Stettin í Póllandi og hófst þar með frystitogaraútgerð Gunnvarar hf.

Þann 11. nóvember 1999 undirrituðu stjórnir Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., Íshúsfélags Ísfirðinga hf., Mjölvinnslunar hf., Harðfisksstöðvarinnar ehf., Fiskiðjunnar ehf., og Togs ehf. á Ísafirði áætlun um sameiningu félaganna. Áætlað var að félögin væru sameinuð í eitt hlutafélag, þannig að hluthafar í félögunum fimm eigi eingöngu hluti í Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf. Í áætluninni er gert ráð fyrir að sameiningin miðist við 1. júní 1999. Sameining þessi var síðan staðfest á hluthafafundum í félögunum þann 29. desember 1999.