Tíðindi

miðvikudagurinn 7. janúar 2009

Aflinn 2008

Páll og Stefnir slá met annað árið í röð, Júlíus með sitt annað besta ár.
Stefnir var frá veiðum í um 7 vikur vegna slipps, viðgerða og einnig var settur í skipið nýr búnaður frá 3XTechnology, til að snögg kæla fisk á millidekki, sem leiðir til betra geymsluþols og meiri gæða.
Páll var frá veiðum í um 5 vikur vegna sumarlokunar í frystihúsinu og slipps.
Júlíus var að veiðum allt árið.

Afli skipa 2008
Júlíus Geirmundsson ÍS - 270 4.583 tonn 1.084 milljónir
Páll Pálsson ÍS-102 3.896 tonn    628 milljónir
Stefnir ÍS - 28 2.840 tonn    543 milljónir

Aflaverðmæti Júlíusar er reiknað í EXW verðum.
þriðjudagurinn 30. desember 2008

Afhentu Ísafjarðarkirkju fé til hjálparstarfs

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. afhenti Ísafjarðarkirkju 350 þúsund króna gjöf á Þorláksmessu til hjálparstarfs. Magnús Erlingsson sóknarprestur veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd kirkjunnar.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., segir þá hefð hafa skapast hjá fyrirtækinu á undanförnum árum að senda ekki jólakort og gefa starfsmönnum ekki gjafir en leggja þess í stað þörfu málefni lið. „Okkur fannst þetta meira í anda jólanna og þetta hefur mælst mjög vel fyrir hjá fólkinu okkar," segir Einar Valur.

Á síðasta ári færði Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. Vesturafli peningagjöf en það er miðstöð fyrir fólk sem býr við skert lífsgæði.

fimmtudagurinn 18. desember 2008

Aflinn 2007

Páll og Stefnir slá met.

Júlíus var frá veiðum í um mánuð vegna slipps. Páll Pálsson stoppaði í um 2 vikur í sumar. Stefnir var frá veiðum í rúma viku vegna vélarupptektar.


Afli skipa 2007
Júlíus Geirmundsson 4.215 tonn 827 milljónir
Páll Pálsson 4.339 tonn 564 milljónir
Stefnir 3.356 tonn 447 milljónir
föstudagurinn 21. desember 2007

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. styrkir Vesturafl fyrir jólin

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. sendir hvorki jólakort né gefur jólagjafir í ár, en þess í stað ákváðu forráðamenn fyrirtækisins að styrkja Vesturafl, en það er miðstöð fyrir fólk sem býr við skert lífsgæði. Nemur styrkupphæðin 300 þúsund krónum.

Kristján G. Jóhannsson stjórnarformaður afhenti Hörpu Guðmundsdóttur og samstarfsfólki frá Vesturafli peningagjöfina í hinni árlegu skötuveislu starfsmanna Hraðfrystihússins - Gunnvarar, sem haldin var í hádeginu í dag. Við það tækifæri sagði Kristján að Vesturafl hefði unnið mjög gott og þarft starf og því hefði fyrirtækið ákveðið að styðja við starfsemi þess með þessum hætti.

Vesturafl er endurhæfing fyrir fólk sem vegna veikinda og/eða annara tímabundinna aðstæðna býr við skert lífsgæði og getur því ekki tekið virkan þátt í fjölskyldulífi, vinnu eða samfélaginu.
mánudagurinn 11. júní 2007

Með bros á vör eftir samtals 94 ár í starfi hjá H-G

Nú um mánaðarmótin létu fjórar af reyndustu starfsmönnum landvinnslu H-G af störfum.

Þetta voru þær Hólmfríður Sigurðardóttir, Eyrún Leifsdóttir, Guðrún Þórðardóttir og Anna Ingimarsdóttir. Samanlagt hafa þær verið í 94 ár hjá fyrirtækinu. Allar störfuðu þær áður hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga sem sameinaðist Hraðfrystihúsinu árið 1999. Sú sem lengstan starfsaldur á að baki, 33 ár, er Guðrún Þórðardóttir (Rúna) en hún hóf störf hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga árið 1974. Í tilefni dagsins var slegið upp tertuveislu þar sem Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri þakkaði fjórmenningunum fyrir vel unnin störf, afhenti þeim dálítinn þakklætisvott frá fyrirtækinu og óskaði þeim velfarnaðar í framtíðinni.