Háafell

Seiðaeldisstöð Háafells á Nauteyri
Seiðaeldisstöð Háafells á Nauteyri

Háafell ehf. er dótturfyrirtæki HG og hefur með höndum eldisstarfsemi í Ísafjarðardjúpi. HG/Háafell hefur verið með fiskeldisstarfsemi frá árinu 2001, fyrst í þorski og regnbogasilung en frá árinu 2022 í laxi.  Á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi er rekin landeldisstöð sem framleiðir seiði en miðstöð þjónustu við fiskeldið er í Súðavík.

Sjókvíaeldið er stundað á þremur árgangasvæðum í Ísafjarðardjúpi, þar sem ávallt er eitt af svæðunum í hvíld í 6-9 mánuði á meðan fiskur er alinn á hinum tveimur. Það er til að lágmarka möguleg smit á sjúkdómum og laxalús á milli mismunandi árganga í eldi á hverjum tíma. Einnig mun sjávarbotn undir kvíastæðum hafa meiri tíma til endurnýjunar vegna lífræns álags sem stafar af eldinu.

Mikil þekking hefur áunnist meðal starfsmanna Háafells ehf. undanfarin ár á aðstæðum og umhverfi Ísafjarðardjúps með tilliti til fiskeldis og er unnið á þeim grunni í uppbyggingaráformum Háafells. Áhersla er lögð á að byggja eldið upp í þrepum með varúðarsjónarmið að leiðarljósi. Háafell hefur lagt til fjölmargar tillögur við stjórnvöld undanfarin ár svosem í umhverfis og heilbrigðismálum til þess að tryggja að aðstæður og rammi utanum greinina sé eins og best verður á kosið.

Seiðaeldi og sjókvíaeldi

Háafell er með leyfi fyrir eldi á 10 svæðum en þar af eru þrjú aðalsvæði, Bæjahlið, Skarðshlíð og Kofradýpi. Langt er á milli svæðanna eða á bilinu 7-9 km til þess að tryggja að sjúkdómar geti ekki borist á milli og minnka lúsaálag. Háafell er með í flota sínum tvo þjónustubáta, einn brunnbát og einn fóðurpramma. Sumarið 2023 munu bætast við annar fóðurprammi og annar vinnubátur.

Framundan er frekari uppbygging á seiðaeldisstöð Háafells á Nauteyri, innarlega í Ísafjarðardjúpi. Þar er notast við gamla seiðaeldisstöð frá árinu 1984 en verið endurnýjuð algjörlega og á næstunni hefjast fyrstu handtökin í að stórauka afkastagetu stöðvarinnar. Notast er við heitt vatn á jörðinni Nauteyri til þess að hita upp ferskvatn fyrst um sinn í eldisferlinu en þegar fiskurinn hefur verið klakinn og alinn í um 100 gramma stærð í ferskvatni er skipt hægt og rólega yfir í sjó. Þannig er fiskurinn síðustu dagana fyrir útsetningu í sjó, eingöngu í sjó sem tryggir góða aðlögun eftir að útí sjó er komið.

Í sjókvíaeldi Háafells er notast við mikilvæga reynslu HG úr rækjuveiðum, þorskeldi og regnbogasilungseldi, þar á meðal til þess að velja bestu svæðin með sterkum straumum, góða blöndun og gott dýpi. Háafell vinnur stöðugt að því að gera framleiðslu sína á laxi sem umhverfisvænasta, fyrir er lax með einna lægsta kolefnisspor af öllum dýraafurðum en ennfremur hefur Háafell tekið skref til að minnka umhverfisáhrif, þar á meðal með því að nota ekki kopar á netin, hafa langa hvíld milli árganga á svæðunum, landtengja fóðurpramma og kaupa battery lausnir þar sem ekki er hægt að landtengja, hafa lítinn þéttleika í kvíunum sem tryggir góða velferð og efnisval og vinnureglur sem lágmarka líkur á sleppingum.

Saga fiskeldis HG og Háafells

Unnið hefur verið að þróun og uppbyggingu fiskeldis innan fyrirtækisins frá árinu 2001. Í upphafi var fangaður villtur smáþorskur sem fóðraður var í eldiskvíum þar til honum var slátrað eftir 8 til 16 mánuði í eldi. Nokkrum árum seinna hófst aleldi á þorski þar sem smáseiði úr klöktum hrognum voru alin í landeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Þegar þau höfðu náð 100 til 200 g stærð voru þau flutt út í sjókvíar í Seyðisfirði og Álftafirði og alin þar í sláturstærð en fyrirtækið er með leyfi fyrir framleiðslu á 2.000 tonnum af þorski. Eftir mikið verðfall á þorski haustið 2008 brugðust rekstrarlegar forsendur fyrir þorskeldinu og undirbúningur fyrir eldi laxfiska hafinn. Í upphafi árs 2016 var síðasta eldisþorskinum slátrað en í lok sama árs hófst slátrun á fyrsta regnbogasilungnum.

Fyrsti laxinn fór útí sjókvíar vorið 2022, 11 árum eftir að umsóknarferli um laxeldi Háafells hófst. Á árinu 2023 verða í notkun tvö sjókvíaeldissvæði, í Skarðshlíð og í Kofradýpi en eldissvæðið á Bæjahlíð verður í hvíld. 

Ár árinu 2023 vinna um 16 manns hjá Háafelli og viðbúið að þeim muni fjölga ennfrekar á árinu.