Rauða húsið

For english press here.

Kristján G. Jóhannsson

Íbúðabragginn frá Hesteyri

Íbúabragginn frá Hesteyri
Íbúabragginn frá Hesteyri

Gufuskip mikið beindi för sinni inn Hesteyrarfjörð  í maímánuði árið 1894 og lagðist framan Stekkeyrar, sem er um tveimur kílómetrum innan við Hesteyri.  Í Hornstrendingabók segir svo um komu þessa skips:

Var fljótlega hafið að flytja í land furðulegustu tæki, bjálka mikla og við til húsagerðar, vélar og margs konar hluti.  Þetta mun hafa komið Hesteyringum á óvart, hafi þeir ekki áður haft fregnir af hvað til stóð.  Hér voru komnir „Brödrene Bull“ frá Túnsbergi í Noregi þeirra erinda að reisa hvalveiðistöð á Stekkeyri.  Um leigu á landi höfðu þeir samið við Ásgeirsverslun á Ísafirði.  Þar um höfðu Hesteyrarbændur ekkert að segja.  Þarna hófust aðgerðir og umsvif, sem áttu sér engin dæmi í sögu þessa sveitarfélags.  Trégólf var fellt yfir fjöru og flæðarmál.  Út frá því í sjó fram voru bryggjur smíðaðar, og kom nú að gagni aðdýpið við eyrina.  Á henni risu hús af grunni, þar á meðal það stærsta, sem þessarar sveitar menn höfðu nokkurn tíma séð.  Þar var komið fyrir mikilli og stórfelldri vélamennsku.  Þetta skyldi vera verksmiðjuhús, þar sem unnið yrði úr því hráefni, sem fékkst af hvalnum.  Önnur hús voru einnig smíðuð, meðal annarra vinnuskáli mikill tvílyftur, þar sem verkamenn og jafnvel yfirmenn áttu að búa.  Það var kallað brakki.  (Hornstrendingabók, til lands og sjávar, bls. 112-113) 

Heklaselsabet setur upp nýja verksmiðju

Greint er frá því í Þjóðviljanum í desember 1900 að Bull hafi látið rífa ýmis hús sín á Hesteyri um haustið og flutt þau til Norðfjarðar á Austfjörðum, þar sem hann hugðist setja upp hvalveiðistöð.    Nýir aðilar komu og byggðu upp aðra hvalveiðistöð á Hesteyri og í blaðinu Vestra sem út kom á Ísafirði 19. apríl 1902 segir svo:

Hvalveiðimaður Odland að nafni ætlar að setjast að á Hesteyri, þar sem M.C. Bull hafði áður stöð sína. Hann kom hjer snöggvast inn 15. þ.m. á feiknamiklu gufuskipi, er hafði meðferðis allan veiðiútbúnað og efni til húsagerðar og verksmiðja. ( Vestri 24. tbl. 19. apríl 1902 bls. 95)

Líklegt er að félag þetta hafi byggt íbúðabraggann á Stekkeyri um leið og þeir settu upp hvalveiðistöðina, en þó ekki útilokað að Brödrene Bull hafi ekki rifið niður sinn bragga.  Ekki var slegið slöku við og í Þjóðviljanum sem kom út 3. júní 1902 eða um einum og hálfum mánuði síðar segir svo:

Hvalveiðamaður Odland er staðið hefir fyrir hvalveiðistöðinni í Tálknafirði gekkst í vetur fyrir því í Noregi að þar var stofnað nýtt hvalveiðafélag, er hr. Odland veitir forstöðu og hefir það reist hvalveiðastöðvar sínar á Hesteyri í Jökulfjörðum, þar sem Bull hafði hvalveiðistöð sína áður en hann flutti til Austfjarða í fyrra. ( Þjóðviljinn 23. tbl. 3. júní 1902 bls. 90)

Hvalveiðifélag þetta, sem Odland  gekkst fyrir að stofna, nefndist Heklaselskabet og voru eigendur þess í Haugasundi í Noregi. Stöðin nefndist Hekla og breyttist nafn Stekkeyrar smátt og smátt í Heklueyri.

Eftir að hvalveiðar lögðust af á Íslandi var stöðin notuð til síldarsöltunar og bræðslu um áratuga skeið. 

Kveldúlfur kaupir verksmiðjuna

Í blaðinu Vesturlandi, sem út kom 4. desember 1925 auglýsir Sveinn Björnsson hæstaréttarlögmaður til sölu  síldarverksmiðju og síldveiðastöð, fimm síldveiðaeimskip og tvo geymsluskrokka úr járnbentri steinsteypu.  Kemur fram í auglýsingunni að um sé að ræða síldveiðistöð og síldarverksmiðja á Hesteyri.

Í auglýsingunni kemur fram að stöðin hafi mikið landrými og upprunalega verið hvalveiðistöð, en árið 1924 hafi verið byggð þar síldarverksmiðja og síldarsöltunarpláss.  Meðal eignanna er Verkamannabústaður  sem rúmar 100 manns.   (Vesturland 43. tbl. 4.  desember 1925, bls. 4)

Kveldúlfur hf. , stærsta útgerðarfélag landsins, sem Thor Jensen hafði stofnað og synir hans ráku með myndarbrag, keypti eignirnar og rak síldarverksmiðju þar fram til ársins 1940 og voru umsvif töluvert mikil.

Upp úr 1950 var lagður stóreignaskattur m.a. á fyrirtæki og  var leyfilegt að greiða hann með fasteignum samkvæmt fasteignamati.  Kveldúlfur hf. greip tækifærið og greiddi  hluta skattsins með því að selja ríkissjóði síldarverksmiðju sína  á Stekkeyri, sem staðið hafði ónotuð á annan áratug.

Fiskiðjan hf. stofnuð

Bátaútgerð dróst mikið saman á Ísafirði upp úr 1950 þegar hin gömlu og rótgrónu útgerðarfélög frá fjórða áratug aldarinnar drógu saman seglin.   Kynslóðaskipti urðu í útgerð frá Ísafirði þegar til sögunnar komu einstaklingar, sem stóðu  síðan að útgerð og fiskvinnslu næstu áratugina.

Seint í október árið 1954 komu fimm Ísfirðingar saman á heimili Jóhanns Júlíussonar, auk hans voru það Þórður bróðir hans, bræðurnir Guðmundur Guðmundsson skipstjóri og Marías Þ. Guðmundsson og auk þess ungur skipstjóri Ásgeir Guðbjartsson.  Á þessum fundi var samþykkt að stofna hlutafélag, sem annaðist útgerð vélbáta og fiskverkun.  Guðmundur Guðmundsson hafði samið um leigu á einum bát Samvinnufélagsins, Ásbirni ÍS 12, 43 tonna bát, frá 15. nóvember til loka maí árið 1955 og framseldi þann samning til hins nýja félags.  Ákveðið var að ráða Ásgeir Guðbjartsson sem skipstjóra, en hann hafði undanfarin ár verið skipstjóri á Pólstjörnunni, 24 tonna bát frá Ísafirði og fiskað vel.  Hið nýja félag, sem fékk nafnið Fiskiðjan hf., tók á leigu svokallað Vöskunarhús, sem stóð í miðbæ Ísafjarðar, rétt fyrir ofan Bæjarbryggjuna.   Þar var línan beitt fyrir Ásbjörn og fiskurinn einnig verkaður, aðallega saltaður.   Ásbjörn fiskaði vel, landaði 95 tonnum í desember og síðan  tæpum 500 tonnum frá áramótum til vertíðarloka í maí.  Ekki var sótt í steinbít og þegar leið á vertíðina þurfti að sækja alla leið suður undir Jökul til að ná í þorsk í vinnsluna.   Ungi skipstjórinn fór vel með og réri með sömu línuna alla vertíðina, tapaði aldrei bala.  Fyrirtækið skapaði strax hátt í tuttugu störf, sem komu sér vel við erfiðar aðstæður í bænum.

Útgerð Ásbjarnar þennan vetur sannfærði eigendur Fiskiðjunnar hf. um að hægt væri að gera út frá Ísafirði og haustið 1955 stofnuðu þeir tvö útgerðarfélög.    Jóhann og Þórður stofnuðu ásamt Jóni B. Jónssyni skipstjóra útgerðarfélagið Gunnvöru hf., sem lét byggja 47 tonna bát hjá Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði og fékk hann nafnið Gunnvör ÍS 270.    Guðmundur , Marías og Ásgeir stofnuðu  ásamt Kristni Arnbjörnssyni og Guðbjarti Ásgeirssyni útgerðarfélagið Hrönn hf. og létu einnig byggja 47 tonna bát hjá Marsellíusi, sem hlaut nafnið Guðbjörg ÍS 14.   Samstarfið í Fiskiðjunni hélt áfram og verkaði nú afla af tveimur bátum.

Keyptu íbúðabraggann á Hesteyri

Rauða húsið
Rauða húsið

Húsnæði Fiskiðjunnar í Vöskunarhúsinu hentaði illa til fiskverkunar og fóru eigendurnir að líta í kringum sig að hentugra húsnæði fyrir starfsemina.  Íbúðabragginn á Stekkeyri, sem nú var í eigu ríkissjóðs, þótti hentugur og festi  Fiskiðjan hf. kaup á honum.  Þórður Júlíusson fór norður með nokkra menn og rifu þeir húsið niður spýtu fyrir spýtu á nokkrum dögum.   Bátarnir  Gunnvör og Guðbjörg fóru  á milli vertíða og náðu í efnið,  síðan var húsið  endurbyggt í aðeins öðru formi á hafnarsvæðinu á Ísafirði.  Fjallað er um byggingu hússins í blaðinu Ísfirðingi haustið 1956 og þar segir m.a. undir fyrirsögninni Nýtt fiskverkunarhús

Verið er að ljúka við nokkuð stóra byggingu á vegum Fiskiðjunnar hf. og verður sú bygging notuð til fiskverkunar og fiskgeymslu o.fl.  Bygging þessi er úr timbri og að stærð 11 x 30 metrar, tvílyft.  Við byggingu þessa rætist mjög úr hjá Fiskiðjunni með aðstöðu alla til fiskimóttöku. 

Á efri hæð er gert ráð fyrir kaffistofu, veiðarfærageymslu og fiskgeymslu.  (Ísfirðingur, 30. október 1956, bls. 4)

Húsið, sem í daglegu tali hefur oftast verið kallað  Rauða húsið , stendur enn á sama stað og er nú geymsluhúsnæði fyrir útgerð Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. 

Helstu heimildir

Ísfirðingur ,  30. október 1956

Kristján G. Jóhannsson:  Vertinn á Uppsölum og kaupmannsdóttirin, Ísafirði 2012

Vestri, 19. apríl 1902

Vesturland,  4. desember 1925 

Þjóðviljinn, 3. júní 1902

Þórleifur Bjarnason:  Hornstrendingabók, Reykjavík 1983