Mikilvægasta fisktegund fyrirtækisins er þorskur en gjöfulustu þorskmið Íslendinga eru út af Vestfjörðum. Það er því engin tilviljun að þorskurinn sé burðarásinn í rekstrinum því stutt er að sækja á þessi gjöfulu mið. Sérstaklega á þetta við um ísfiskskipin sem landa að jafnaði tvisvar í viku ferskum afla eftir stuttar veiðiferðir og tryggja þar með bolfiskvinnslum fyrirtækisins ferskt hráefni allt árið um kring. Þó svo þorskurinn sé mikilvægasta tegundin og um helmingur aflaheimilda fyrirtækisins eru aðrar tegundir einnig mikilvægar. Ýsa, ufsi, skarkoli, steinbítur og gullkarfi eru einnig mikið veiddar á Vestfjarðamiðum og grálúða enn dýpra vestur og norður af Vestfjörðum. Makríll og síld eru þær tegundir sem er að finna fjær Vestfjörðum eða mest á veiðislóðum fyrir vestan, sunnan og austan land. Þrátt fyrir nálægð gjöfulla miða þarf stundum að sækja flestar tegundir á önnur mið fjær Vestfjörðum ef veður, fiskigöngur og aðrar aðstæður eru óhagstæðar. Innfjarðarrækja er veidd af smærri bátum fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi.
Ýmsir kostir eru samfara því að stutt er að sækja á gjöful mið á djúpu vatni með öflugum togskipum. Bæði fer minni orka og tími í siglingar á og af veiðislóð, sem leiðir til minna sótspors og unnt er að tryggja jafnara flæði fersks hráefnis í landvinnslur í heimahöfn skipanna. Það auðveldar reglulegar afhendingar kældra afurða til viðskiptavina erlendis, bæði í Evrópu og Ameríku.