Háafell

Háafell ehf. er dótturfyrirtæki HG og hefur með höndum eldisstarfsemi í Ísafjarðardjúpi. HG/Háafell hefur verið með fiskeldisstarfsemi frá árinu 2001, fyrst í þorski og regnbogasilung en frá árinu 2022 í laxi.  Á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi er rekin landeldisstöð sem framleiðir seiði en miðstöð þjónustu við fiskeldið er í Súðavík.

Sjókvíaeldið er stundað á þremur árgangasvæðum í Ísafjarðardjúpi, þar sem ávallt er eitt af svæðunum í hvíld í 6-9 mánuði á meðan fiskur er alinn á hinum tveimur. Það er til að lágmarka möguleg smit á sjúkdómum og laxalús á milli mismunandi árganga í eldi á hverjum tíma. Einnig mun sjávarbotn undir kvíastæðum hafa meiri tíma til endurnýjunar vegna lífræns álags sem stafar af eldinu.

Mikil þekking hefur áunnist meðal starfsmanna Háafells ehf. undanfarin ár á aðstæðum og umhverfi Ísafjarðardjúps með tilliti til fiskeldis og er unnið á þeim grunni í uppbyggingaráformum Háafells. Áhersla er lögð á að byggja eldið upp í þrepum með varúðarsjónarmið að leiðarljósi. Háafell hefur lagt til fjölmargar tillögur við stjórnvöld undanfarin ár svosem í umhverfis og heilbrigðismálum til þess að tryggja að aðstæður og rammi utanum greinina sé eins og best verður á kosið.