Stefnur

Vímuefnastefna HG

Vímuefnareglur Hraðfrystihússins-Gunnvarar.hf

Forvarnir og viðbrögð vegna gruns um áfengis- eða vímuefnanotkun starfsmanna

Fíkniefnalaus vinnustaður

 

Hraðfrystihúsið Gunnvör stefnir að því að vera vímuefnalaus vinnustaður. Þá er átt við að starfsmenn neyti hvorki ólöglegra vímuefna, hvort sem er í vinnu eða utan hennar. Óheimilt er að hafa undir höndum eða neyta ólöglegra vímuefna þegar starfað er fyrir H-G. Óheimilt er að vera undir áhrifum áfengis eða lyfja sem hamla starfsgetu, þegar starfað er fyrir H-G eða á athafnasvæði fyrirtækisins.

 

Öryggi og velferð starfsfólks

Í þágu öryggis og velferðar starfsfólks er mikilvægt að starfsfólk geti tekið réttar ákvarðanir í störfum sínum. Þess vegna þarf dómgreind starfsfólks að vera skýr og ávallt laus við áhrif ólöglegra vímuefna, lyfja eða áfengis. 

Sé starfsmaður undir áhrifum áfengis og/eða neytir ólöglegra vímuefna  getur hann stefnt lífi og limum annarra starfsmanna í bráðahættu.

 

Framkvæmdaraðilar

Vímuefnapróf er inngrip inn í friðhelgi einkalífs einstaklinga  og skal vanda til verks í slíkum prófum. Nær undantekningarlaust og eftir því sem við verður komið sér heilbrigðisstarfsmaður eða sambærilegur fagaðili um framkvæmd áfengisprófana og prófana vegna ólöglegra vímuefna hjá H-G. Ef þörf verður á að taka vímuefnapróf út á sjó, framkvæmir skipstjóri prófið sem staðgengill heilbrigðistarfsmanns.

 

Vímuefnapróf

Starfsmaður skal skilyrðislaust mæta til prófunar fái hann boðun um það. Neitun getur leitt til brottrekstrar án aðvörunar og án greiðslu launa á uppsagnarfresti. Áfengispróf eru framkvæmd þannig að starfsmaður er látinn blása í áfengismæli sem er sambærilegur þeim sem lögregluembættin nota. Prófun á ólöglegum vímuefnum er framkvæmt þannig að viðkomandi er beðinn um að gefa þvagprufu í glas sem á er sett lok með sérstöku skimunarprófi. Þegar starfsmaður sem prófun er gerð á gefur þvagsýni skal ávallt vera einstaklingur af sama kyni vera viðstaddur ef hægt er að koma því við.

 

Hvernig skal meðhöndla þær upplýsingar og þau gögn sem verða til við vímuefnaprófun?

Upplýsingar um heilsufar fólks teljast sérstaklega viðkvæmar persónuupplýsingar og fara skal með þær sem slíkar. Upplýsingarnar eru fyrst og fremst fyrir þann einstakling sem undirgekkst prófunina og þann fagaðila sem annaðist framkvæmd prófsins og úrvinnslu þess. Ef próf er tekið út á sjó er óhjákvæmilegt að fulltrúar HG  sem eru um leið staðgenglar heilbrigðisstarfsmanns sjái niðurstöður prófsins. Varðveisla og síðan eyðing persónuupplýsinga af því tagi sem niðurstöður vímuefnaprófana eru fari skulu fara eftir reglum um meðferð slíkra upplýsinga.

 

Notkun lyfja

Ef starfsmenn taka lyf (lyfseðilsskyld eða ekki) sem geta haft áhrif á vinnufærni þeirra og gefa jákvæða niðurstöðu í vímuefnaprófi, skulu þeir framvísa vottorði frá lækni um hæfni til vinnu.

 

Viðbrögð við jákvæðu vímuefnaprófi

Þeir starfsmenn sem reynast jákvæðir úr áfengisprófi eru áminntir ef um fyrsta brot er að ræða. Ef áfengispróf reynist ítrekað jákvætt eða um er að ræða alvarlegt brot eru starfsmenn látnir víkja úr starfi ef þeir hafa ekki unnið lengur en í 3 mánuði eða eru lausráðnir. Ef starfsmaður hefur unnið lengur en í 3 mánuði býður H-G starfsmanni að taka launalaust leyfi á meðan hann leitar sér aðstoðar. Leiti starfsmaður sér ekki aðstoðar og um er að ræða ítrekuð alvarleg brot er starfsmanni vikið úr starfi. Réttur til launa á uppsagnarfresti fellur jafnframt niður enda um alvarlegt brot að ræða á starfsskyldum. Starfsmanni, sem hefur verið mældur jákvæður úr vímuefnaprófi og gengist við niðurstöðum eða eftir endanlega staðfestingu frá Rannsóknarstofu Landspítalans í lyfja- og eiturefnafræði, er vikið úr starfi tafarlaust án áminningar. Réttur til launa á uppsagnarfresti fellur niður enda um að ræða alvarlegt brot á starfsskyldum. Sýni starfsmaður fram á vilja til að leita sér aðstoðar eftir uppsögn getur starfsmaður átt möguleika á endurráðningu en gengur þó ekki fyrir í það starf sem hann áður sinnti ef þegar hefur verið ráðið í starf viðkomandi.

 

Skilyrði fyrir endurráðningu

Til að eiga möguleika á endurráðningu þarf viðkomandi að skila til H-G staðfestingu frá SÁÁ eða öðrum sambærilegum fagaðila um að hann/hún hafi lokið viðunandi meðferð við áfengis- og/eða vímuefnavanda.

Endurráðning getur fyrst átt sér stað að þremur mánuðum liðnum frá uppsögn.