Frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til Ísafjarðar sunnudaginn 20. nóvember með um 250 tonn af afurðum, eftir fjögurra vikna veiðiferð. Löndum hófst fljótlega eftir að skipið lagðist að bryggju og lauk seinnipart mánudagsins.
Áætlað verðmæti aflans er um 190 milljónir króna, uppistaðan var þorskur og grálúða.
Aflinn var að mestu tekinn á Vestfjarðarmiðum, en vegna veðurs var veitt fyrir austan land í um vikutíma. Þorskurinn fer á Bretlands- og Ameríkumarkað en grálúðan fer hins vegar á Asíumarkað.
Skipstjóri í túrnum var Ómar Ellertsson en í áhöfn eru 25 manns.

Aflaverðmæti Júlíusar Geirmundssonar það sem af er þessu ári er hátt í 1,5 milljarðar króna.
Togarinn heldur á nýjan leik til veiða á fimmtudaginn og er áætlað að hann komi til heimahafnar á Þorláksmessu.

Til baka