Aflaverðmætið 24 milljarðar á 20 árum
mánudagurinn 23. nóvember 2009

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. fagnaði því sl. fimmtudag að tuttugu ár eru um þessar mundir liðin frá því frystitogarinn Júlíus Geirmundsson ÍS 270 kom til landsins. Á þessum tuttugu árum lætur nærri að aflaverðmæti skipsins nemi 24 milljörðum króna á núvirði. Um eitt hundrað gestir sóttu hóf sem fyrirtækið hélt til að minnast þessara tímamóta.
Í ræðu sem Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf., flutti í tilefni dagsins lagði hann áherslu á mikilvægi þess stöðugleika í atvinnu og tekjum sem fylgdi atvinnutækjum á borð við Júlíus Geirmundsson. Í þessu samhengi er gaman að geta þess að skipstjórinn á happafleyinu Júlíusi, Ómar Ellertsson, hefur unnið hjá fyrirtækinu í 40 ár.
„Árlegt aflaverðmæti skipsins lætur nærri að vera um 1200 milljónir króna á verðlagi dagsins. Þannig hefur skipið aflað um 90.000 tonna upp úr sjó á þessum tuttugu árum og heildarverðmæti afurðanna slagar í 24 milljarða króna. Það er margt hægt að gera fyrir 1200 milljóna króna árlegt aflaverðmæti. Fyrir þá upphæð mætti byggja sex leikskóla eins og Sólborg. Fyrir þessa upphæð mætti líka reka alla leikskóla, grunnskóla og menntaskóla í Ísafjarðarbæ í eitt ár," sagði Einar Valur.
Hann benti á mikilvægi togararans fyrir bæjarfélagið. „Þannig fær Ísafjarðarbær á þessu ári um fimmtíu milljónir króna í útsvarsgreiðslur af launum áhafnar skipsins. Aðrar tíu milljónir renna til hafnarsjóðs, auk beinna og óbeinna áhrifa sem fjárfesting, rekstur og neysla útgerðar og áhafnar hefur á þjónustufyrirtæki og bæjarsjóð, já og reyndar samfélagið allt. Margfeldisáhrifin eru mikil."
Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. byggir á gömlum merg. Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal var stofnað árið 1941 og Gunnvör hf. árið 1955. Fyrirtækin sameinuðust fyrir tíu árum. Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. gerir auk Júlíus Geirmundssonar, út ísfisktogaranna Pál Pálsson ÍS 102 og Stefni ÍS 28. Fyrirtækið rekur fiskvinnslu í Hnífsdal og á Ísafirði, umfangsmikið þorskeldi víða í Ísafjarðardjúpi og lifrarniðursuðu í Súðavík. Starfsmenn til sjós og lands eru ríflega 200 í 140 stöðugildum. Fyrirtækið er að stærstum í eigu fjölskyldna sem eiga rætur sínar í þessum félögum.


Undanfarin fimmtán ár hefur Júlíus unnið sérstaklega þorskflök með roði fyrir veitingastaðakeðjuna Fish‘n‘Chicken í Bretlandi. Það er fjölskyldufyrirtæki sem stendur að baki þessari stærstu keðju sinnar tegundar þar um slóðir og veitingastaðir hennar eru orðnir á fjórða tug. Framkvæmdastjóri keðjunnar, Hugh Lipscombe, var á meðal gesta og ávarpaði samkomuna.

Til baka