Áttatíu ár frá stofnun Hraðfrystihússins hf.
þriðjudagurinn 19. janúar 2021

Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal var stofnað fyrir áttatíu árum,  19. janúar 1941. Stofnendur voru 19 talsins. Á fjórða áratug síðustu aldar lokuðust saltfiskmarkaðir á Spáni vegna borgarastyrjaldar, en þeir höfðu verið mikilvægir fyrir íslenskan sjávarútveg.  Á þeim tíma fór hraðfrysting sjávarafurða að ryðja sér til rúms og vildu Hnífsdælingar taka þátt í því og tóku útgerðarmenn sig því saman um að setja á fót frystihús.    Strax eftir stofnun félagsins var farið að huga að byggingu frystihúss í Skeljavík nokkuð innan við byggðina í Hnífsdal og um ári síðar var byrjað að taka á móti fisk til vinnslu. Bátarnir stækkuðu í áranna rás, síðar kom skuttogari og húsakostur og framleiðsla jukust í samræmi við það.

Eftir sameiningar sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum á tíunda áratug síðustu aldar  sameinuðust Hraðfrystihúsið hf og Gunnvör hf á Ísafirði ásamt dótturfélögum þeirra árið 1999 undir nafninu Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf.

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf gerir í dag út þrjá skuttogara og einn rækjubát, er með fiskvinnslu í Hnífsdal og niðursuðuverksmiðju  í Súðavík. Um 160 stöðugildi eru hjá fyrirtækinu og það hefur notið þess að hafa alla tíð haft trausta starfsmenn bæði til sjós og lands.  Margir þeirra eru og hafa verið  með langan starfsaldur.  Aflamark félagsins er rúm ellefu þúsund þorskígildi og hefur  velta félagsins verið um 6 milljarðar  króna síðustu árin

Háafell ehf, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, stundar nú eldi á regnbogasilungi í kvíum í Ísafjarðardjúpi og hefur leyfi til að framleiða um sjö þúsund tonn á ári.   Nú nýverið birti Skipulagsstofnun jákvætt álit um breytingu  þessa leyfis yfir í eldi á laxi. Því eru  starfs- og rekstrarleyfi á nánast sömu staðsetningum og núverandi regnbogasilungsleyfi í vinnslu hjá MAST og UST.   Auk þess er Háafell með seiðaeldisstöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi og rekur tvö þjónustuskip fyrir eldið ásamt þjónustumiðstöð fyrir sjókvíaeldið í Súðavík.

Til baka