Hraðfrystihúsið-Gunnvör hefur rekið öfluga atvinnustarfsemi á norðanverðum Vestfjörðum í yfir 70 ár, með starfsstöðvar í Hnífsdal, Ísafirði og í Súðavík. Á þriðja hundrað manns starfa hjá fyrirtækinu, jafnt á sjó sem á landi, þorri starfsmanna er með lögheimili í fjórðungnum og er HG einn stærsti launagreiðandi á Vestfjörðum .

 

Í meira en áratug hefur HG unnið að uppbyggingu fiskeldis í Ísafjarðardjúpi og stundað rannsóknir með það fyrir augum að auka umfang eldisins. Fyrirtækið hefur haft leyfi til framleiðslu á allt 2.000 tonnum árlega en áform þess eru að útvíkka leyfið og framleiða allt að 7.000 tonnum samtals af þorski og laxfiskum. Slík stækkun myndi falla vel að núverandi starfsemi HG og fela í sér fjölgun starfa á svæðinu. Nærtækt er að vísa í sambærilega uppbyggingu á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem verulegur uppgangur er í atvinnulífinu og samfélaginu öllu sem rekja má að stærstum hluta til uppbyggingar í fiskeldi.

 

Margfeldisáhrifin af fiskeldisfyrirtækjum við Ísafjarðardjúp eru þegar sýnileg á svæðinu og ýmis frekari þjónusta gæti sprottið upp í tengslum við aukin umsvif í greininni, t.a.m. í iðngreinum. Einnig er vert að benda á að fiskeldi er og getur verið í góðu sambýli við ýmsar aðrar atvinnugreinar og má þar nefna ýmsa þætti ferðaþjónustu og veitingarekstur eins og dæmi eru um frá Noregi.


Samkvæmt auglýsingu nr. 460/2004 er Ísafjarðardjúp eitt fárra svæða á Íslandi þar sem eldi laxfiska er heimilað. Forsvarsmenn HG leggja áherslu á að unnið sé eftir íslenskum lögum og reglugerðum við uppbyggingu eldisstarfsemi fyrirtækisins í Ísafjarðardjúpi. Til viðbótar eru erlendir staðlar hafðir til viðmiðunar sem gera ríkari kröfur en íslensk lög og reglugerðir segja til um. Auk þess er lögð áhersla á að draga lærdóm af reynslu erlendra þjóða til þess að fyrirbyggja hugsanleg umhverfisáhrif vegna aukins eldis í Ísafjarðardjúpi.

  
Það er skoðun forsvarsmanna HG að heillavænlegast sé fyrir alla umræðu um fiskeldi, uppbyggingu þess og áhrif að aðilar séu lausnamiðaðir og reiðubúnir til samtals um það sem gæti eflt atvinnustarfsemi og byggð á Vestfjörðum. Órökstuddar fullyrðingar í fjölmiðlum um þessi mál skila engu.

 

Nánari upplýsingar veita:

Kristján G. Jóakimsson, vinnslu- og markaðsstjóri HG, gsm 8931148.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG, gsm 8942478

Til baka