Háafell lætur smíða þjónustubát
þriðjudagurinn 9. ágúst 2022

Um áramótin gekk Háafell ehf. frá samningum við KJ Hydraulic í Færeyjum um smíði á nýjum þjónustubáti fyrir sjókvíaeldi félagsins. Um er að ræða tvíbytnu sem er 15x8 metrar með 50 tm krana og tveimur 410 hp vélum auk 115 kw ljósavélar. Nýja tvíbytnan mun geta sinnt allri helstu þjónustu við eldið og verður með góða aðstöðu fyrir áhöfn. Áætlað er að afhending verði í haust en skrokkurinn er smíðaður í Póllandi en innréttingar, vélbúnaður og rafmagn klárað í Færeyjum. Báturinn mun sinna nýju eldissvæði Háafells í Skötufirði og heimahöfn verður í Súðavík.

Olavur Assafsson Olsen, framkvæmdastjóri KJ Hydraulic: „Við erum ánægðir með þetta verkefni, þetta er sextugasta og fyrsta nýsmíðin okkar og fimmta skipið sem er byggt fyrir fiskeldi á Íslandi. Háafell er spennandi fyrirtæki að vinna með og hafa þeir sýnt af sér fagmennsku í undirbúningsvinnu fyrir þetta verkefni. Okkar bátar eru með góða sjóhæfni, góð gæði og mikinn stöðugleika sem eru vinsælir eiginleikar fyrir fiskeldi í norður Atlandshafinu þar sem aðstæður geta verið krefjandi.

Gauti Geirsson er framkvæmdastjóri Háafells: „Við höfum góða reynslu af viðskiptum við KJ Hydraulic í Færeyjum en fyrirtækið hefur selt okkur kvíar og ýmsan búnað í eldið í að verða 20 ár. Þessi tvíbytna er mjög öflug og er enn eitt skrefið í að byggja fyrirtækið upp samhliða nýju laxeldisleyfi í Djúpinu.”

Háafell hefur leigt tvíbytnu, Hafnarnes frá Arctic Fish sem mun brúa bilið frammá haustið þar til nýsmíðin kemur. Hafnarnesið er nýkomið frá Stykkishólmi þar sem það var í slipp og var sótthreinsað og botnmálað.

Til baka