Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. sendir hvorki jólakort né gefur jólagjafir í ár, en þess í stað ákváðu forráðamenn fyrirtækisins að styrkja Vesturafl, en það er miðstöð fyrir fólk sem býr við skert lífsgæði. Nemur styrkupphæðin 300 þúsund krónum.

Kristján G. Jóhannsson stjórnarformaður afhenti Hörpu Guðmundsdóttur og samstarfsfólki frá Vesturafli peningagjöfina í hinni árlegu skötuveislu starfsmanna Hraðfrystihússins - Gunnvarar, sem haldin var í hádeginu í dag. Við það tækifæri sagði Kristján að Vesturafl hefði unnið mjög gott og þarft starf og því hefði fyrirtækið ákveðið að styðja við starfsemi þess með þessum hætti.

Vesturafl er endurhæfing fyrir fólk sem vegna veikinda og/eða annara tímabundinna aðstæðna býr við skert lífsgæði og getur því ekki tekið virkan þátt í fjölskyldulífi, vinnu eða samfélaginu.

Til baka