• Skipið verður smíðað í Rongcheng í Kína eftir íslenskri hönnun.
  • Afhending veður eftir 18 mánuði
  • Skipið verður sparneytnara og mun afkastameira en núverandi skip.

Hraðfrystihúsið-Gunnvör í Hnífsdal (HG) hefur ákveðið að ráðast í nýsmíði á ísfisktogara sem byggður verður í Kína eftir íslenskri hönnun. Skipið mun kosta um 1,5 milljarð króna fullbúið og er gert ráð fyrir því að það verði afhent eftir 18 mánuði.

 

Verkefnið var kynnt á fundi í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í dag, en um talsverð tímamót er að ræða það sem þetta er stærsta einstaka fjárfesting sem gerð hefur verið í sjávarútvegi á Vestfjörðum um langa hríð.

 

Fyrirtækið gerir nú út ísfiskstogarana Pál Pálsson og Stefni, frystitogarann Júlíus Geirmundsson auk nokkurra smærri báta.

 

Þörf hefur verið á endurnýjun á hluta skipa HG sem komin eru til ára sinna og hefur undirbúningur þess staðið í nokkurn tíma.

 

Eftir að hafa velt upp möguleikanum á að kaupa notað skip eða að endurbyggja Pál Pálsson, gekk HG til samstarfs við við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum (VSV) árið 2010 um þarfagreiningu  varðandi hönnun og smíði á nýjum togurum.

 

Við hönnunina, sem var í höndum Verkfræðistofunnar Skipasýnar og starfsmanna HG og VSV, var lögð megináhersla á eftirfarandi:

 

-          Í fyrsta lagi að aðstaða til vinnslu afla væri sem best til að tryggja gæði hráefnisins og nýtingu alls afla, þ.m.t. aukahráefnis s.s. lifrar og slógs.

-          Í annan stað var lögð sérstök áhersla á orkusparnað við hönnun skrokka skipanna og við val á framdrifsbúnaði, auk þess sem togvindur verða rafdrifnar.

-          Sjálfvirkni tækjabúnaðar á millidekki, í lest og við löndun.

-          Að allur aðbúnaður áhafnar verði í samræmi við nútímakröfur.

Niðurstaðan varð sú að skipin verða 50,7 metrar að lengd og 12,8 metra breið. Vegna nýstárlegrar hönnunar á skrokkum skipanna og mun stærri skrúfu heldur en nú tíðkast á þessari stærð skipa, er áætlað að þau hafi um 60% meiri veiðigetu en þau skip sem þau leysa af hólmi án þess að eyða meiri olíu. Þá verða skipin búin þremur rafdrifnum togvindum og geta því dregið tvö troll samtímis.

 

HG og VSV leituðu tilboða í smíði á skipunum, frá skipasmíðastöðvum í Danmörku, Noregi, Póllandi, Tyrklandi og Kína og reyndist tilboð frá Huanghai skipasmíðastöðinni í Rongcheng í Kína hagstæðast og tókust samningar við þá stöð.

 

Að sögn Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra HG, hafa aðstæður síðustu fimmtán ár ekki leyft fjárfestingar félagsins í nýjum skipum. Einar Valur kveður fyrirtækið hafa verið að byggja sig upp með kaupum á veiðiheimildum og til lítils sé að ráðast í fjárfestingar í skipum séu nægar veiðiheimildir ekki til staðar.

 

„Þörfin á endurnýjun ísfiskskipanna helgast af nauðsyn þess að geta þjónað landvinnslu fyrirtækisins sem best með tilliti til góðs hráefnis og rekstraröryggis, enda krefst markaðurinn afurða af góðum gæðum á réttum tíma,“ segir Einar Valur. „Einnig er lykilatriði að ná fram orkusparnaði samfara auknum gæðum hráefnis til að þjóna sífellt auknum kröfum markaðarins, þetta er jú allt ein keðja; veiðar, vinnsla og markaðssetning. Síðast en ekki síst þarf fyrirtækið að standast samkeppni við erlenda keppinauta úti á markaðnum þar sem samkeppnin fer sífellt vaxandi. Einnig er vert að benda á að helstu keppinautarnir erlendis njóta ríkisstyrkja á meðan íslenskur sjávarútvegur greiðir fyrir afnot af auðlindinni til ríkisins. Ég hef sagt að eðlilegt sé að greiða fyrir aðganginn að auðlindinni þó að mér finnist gjaldið alltof hátt og lítið af því skili sér til baka út á landsbyggðina þar sem starfsemin á sér stað.“

 

„Auðvitað er alltaf viss áhætta við svo stóra fjárfestingu. Við erum vel meðvituð um áhættuna samfara breytingum á afkastagetu fiskistofna, en vitum minna um aðra áhættuþætti, þar á ég við endurskoðun og breytingu á stjórnkerfi fiskveiða og mikla hækkun veiðigjalda. Þetta er mikil fjárfesting til langs tíma og því mikilvægt við slíka ákvörðunartöku að hafa fyrirsjáanleika, geta treyst því að rekstrargrundvelli verði ekki kippt undan rekstrinum á augabragði.“

 

Frekari upplýsingar má fá hjá Einari Val í síma 894-2478

 

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf.

Fyrirtækið og forverar þess hafa stundað útgerð og fiskvinnslu við Ísafjarðardjúp í rúma sjö áratugi. Það hefur stækkað og eflst með sameiningum og kaupum á öðrum fyrirtækjum og er nú stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Vestfjörðum. Hjá fyrirtækinu starfa um 250 manns í 140 stöðugildum. Fyrirtækið starfrækir bolfiskvinnslu í Hnífsdal og á Ísafirði, gerir út tvo ísfisskip og eitt flakafrystiskip auk nokkurra smærri báta og hefur stundað þorskeldi í Ísafjarðardjúpi í á annan áratug.

Til baka