Fyrsti skuttogarinn kemur til Ísafjarðar

Fyrsti skuttogari Ísfirðinga Július Geirmundsson ÍS 270 kom til heimahafnar á Ísafirði 5. desember 1972.  Hann var smíðaður í Flekkefjord í Noregi fyrir Gunnvöru hf. og var fyrstur í röðinni af fimm skuttogurum, sem vestfirskar útgerðir sömdu um smíði á. Greint var frá komu skipsins í jólablaði Vesturlands og þar kom m.a. fram:

“Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson er smíðaður í Flekkefjord í Noregi og er 407 lestir að stærð. Aðalvél skipsins er af Wichmann-gerð 1750 hestöfl og einnig eru í því tvær ljósavélar af GM-gerð, 215 hestöfl hvor. Skipið er búið mjög fullkomnum og nýtískulegum siglinga- og fiskleitartækjum og allur fiskur er ísaður í kassa um borð.  

Skipið er nú í annari veiðiferð sinni en í þeirri fyrstu hreppti skipið slæmt veður og reyndist þá ágætt sjóskip” 

Það voru ýmis nýmæli í norsku togurunum, þeir voru búnir vélum til framleiðslu á ís um borð og aflinn var ísaður í kassa sem bætti stórlega meðferð hans og þar með gæði hráefnisins fyrir fiskvinnslurnar í landi. Einnig voru þeir vel búnir til veiða með flotvörpu og hægt var að skipta yfir á þær veiðar á örskömmum tíma. Það kom sér vel eftir að Íslendingar komust upp á lagið með veiðar í flotvörpu á áttunda áratugnum.

Rekstur Júlíusar Geirmundssonar gekk afar vel næstu árin. Fyrsta heila árið var aflinn tæp þrjú þúsund tonn en jókst smátt og smátt og var síðan næstu árin um fjögur þúsund tonn.

Fyrsti skuttogari Hnífsdælinga

Miðfell hf. í Hnífsdal, sem var að mestu leyti í eigu  Hraðfrystihússins hf., samdi í lok árs 1971 um smíði á skuttogara í Japan.   Páll Pálsson ÍS 102 kom til heimahafnar 21. febrúar 1973 eftir tæplega tveggja mánaða siglingu frá Japan yfir tvö úthöf.

Greint var frá komu skipsins í blaðinu Ísfirðingi 3. mars 1973 og þar segir m.a.

“Páll Pálsson er smíðaður í skipasmíðastöðinni Narasaki Múroran Hokkaídó í Japan. Kjölurinn var lagður í júlí sl. en skipið var afhent eigendum 31. desember.  Skipið er 461,5 tn., lengdin 47 m milli stafna.  Í því eru eingöngu japanskar vélar, bæði aðalvél og hjálparv. og eru þær af tegundinni Niigata.  Er aðalvélin 2.100 hestöfl.”

Eins og á sambærilegum skipum var aflinn ísaður í kassa og ísinn framleiddur um borð. Fyrstu árin var aflinn á milli tvö og þrjú þúsund tonn, en jókst verulega þegar leið á áttunda áratuginn og var um margra ára skeið á bilinu fjögur til tæplega sex þúsund tonn á ári.

Bylting í sjósókn og bætt aðstaða áhafnar

Það var mikil bylting  í sjósókn þegar skuttogararnir komu fyrst í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og viðbrigðin mikil hjá sjómönnunum að koma af  250 tonna skipunum, sem upphaflega voru byggð til nóta- og netaveiða, en reyndust samt ágætlega sem togskip eftir að síldin hvarf. Nýju skipin voru stærri og öflugri, betur búin til togveiða og gert að aflanum á lokuðu millidekki. 

 

Í áranna rás voru þessi skip endurnýjuð með stærri og öflugri skipum, en nöfnin hafa haldið sér. 

Til baka