Langþráð fiskeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi
fimmtudagurinn 4. júní 2020

Háafell ehf fékk í byrjun mánaðar afhent starfs og rekstrarleyfi fyrir framleiðslu á regnbogasilungi og þorski í Ísafjarðardjúpi með hámarkslífmassa uppá 7.000 tonn. Þetta er langþráð stund því leyfismál í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi hafa gengið afar hægt á undanförnum árum.

Háafell hefur stundað fiskeldi á þorski og regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi frá árinu 2002. Í lok árs 2011 var tilkynning send til stjórnvalda vegna stækkunar á fyrri leyfum uppí 7.000 tonna framleiðslu á regnbogasilungi, laxi og þorski. Allar götur síðan, eða í tæplega 9 ár, hefur umsóknarferlið staðið yfir og verið vægast sagt hlykkjótt. Allan tíman hefur þó verið full framleiðsla í seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri og í vetur voru gefin út rýmri starfs og rekstrarleyfi þar fyrir allt að 800 tonna framleiðslu.

Það er því mjög ánægjulegt að þessum áfanga sé náð með útgáfu leyfa, bæði fyrir Nauteyri og nú í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Enn á þó eftir að afgreiða laxeldisumsókn Háafells í ljósi nýs áhættumats fyrir Ísafjarðardjúp en vonir standa til að hún klárist á næstunni.

Í lok júní er gert ráð fyrir því að setja fyrsta árgang af regnbogasilungsseiðum, frá seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri, í sjókvíar í Álftafirði. Þar með hefst nýr kafli í sögu fiskeldis við Ísafjarðardjúp.

 

Til baka