Langþráð laxeldisleyfi
föstudagurinn 25. júní 2021

 

Matvælastofnun og Umhverfisstofnun gáfu í dag út starfs- og rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells ehf. Um er að ræða tímamót í sögu Háafells, og móðurfélags þess, Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf., en félögin lögðu fyrst inn tilkynningu um 7.000 tonna laxeldi í nóvember 2011. Ferlið hefur því allt í allt tekið hátt í 10 ár. Háafell er 100% í eigu Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf. og er eignarhaldið því alfarið íslenskt.

Undirbúningur fyrir laxeldið sjálft er nú í fullum gangi. Í seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri eru laxaseiði sem verða klár til útsetningar í utanverðum Skötufirði vorið 2022. Með leyfisveitingunni hafa svo myndast forsendur til áframhaldandi fjárfestinga.

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells: „Þetta er risastór áfangi, ekki bara fyrir okkur heldur líka íbúa við Ísafjarðardjúp og svæðið allt. Nú hefst uppbyggingartímabil en á sama tíma er mikilvægt að vanda sig, Ísafjarðardjúp er verðmæt auðlind sem þarf að nálgast og nýta af virðingu og varfærni. Háafell hefur frá upphafi unnið að því að haga eldinu með þeim hætti að það hafi sem minnst neikvæð áhrif á náttúru eða aðra nýtingu. Með réttum aðferðum geta ólíkir hagsmunir farið vel saman. Sömuleiðis er mikilvægt fyrir okkur að nærsamfélögin eflist og styrkist með uppbyggingunni. Þessum leiðarstefum ætlum við að fylgja og við hlökkum til að hefjast handa.“

Til baka