Mikið um að vera hjá Háafelli
miðvikudagurinn 31. mars 2021
Síðustu mánuðir hafa verið annasamir hjá starfsmönnum Háafells, dótturfélagi Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. Leyfismál hafa verið að þokast í rétta átt en haustið 2018 fékk Háafell starfs-og rekstrarleyfi fyrir stækkun seiðaeldisstöðvar sinnar á Nauteyri úr 200 tonna lífmassa á ári í 800 tonna lífmassa á ári. Í júní 2020 var svo gefið út að nýju leyfi fyrir eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Þessa dagana er verið að auglýsa hjá MAST og UST tillögu að starfs og rekstrarleyfum fyrir 6.800 tonna eldi á laxi og er reiknað með að setja fyrstu laxaseiðin út í Skötufjörð vorið 2022. Það sér því loks fyrir endann á um 10 ára löngu og ströngu umsóknarferli til þess að geta alið lax og regnbogasilung í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells.
Á Nauteyri er starfrækt seiðaeldisstöð Háafells og þar hefur verið unnið að því að auka afkastagetu stöðvarinnar og bæta tækjakost sem skilar sér í aukinni velferð fyrir fiskinn og betri vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn. Vestfirskir verktakar hafa auk þess verið að reisa fóður- og vélaskemmu og nú nýlega hófst uppsetning á fjórum nýjum eldiskerjum í öðru eldishúsanna sem koma í stað fjölda eldri og smærri kerja.
Á Suðurtanga á Ísafirði hafa að undanförnu verið starfsmenn frá færeyska fyrirtækinu KJ Hydraulics að setja saman kvíar sem fara eiga á nýtt eldissvæði Háafells innan við Æðey í apríl. Um er að ræða þrjár 160 metra kvíar (ummál) en í þær verður settur regnbogasilungur frá seiðastöðinni á Nauteyri. Á Mávagarði eru festingar fyrir kvíarnar en Sjótækni mun setja þær festingar út og stilla af þegar veður leyfir. Auknum umsvifum og nýju eldissvæði fylgir aukin mannaflaþörf og hefur Háafell því auglýst eftir fleira starfsfólki.
Einar Valur Kristjánsson er framkvæmdastjóri Háafells: „Það er virkilega gleðilegt að nú um 10 árum frá fyrstu umsókn okkar séu hlutirnir loksins að gerast. Háafell hefur alla tíð lagt höfuðáherslu á að fara varlega í sakirnar og byggja þessa nýju atvinnugrein uppá bestu fáanlegu þekkingu og vísindum eins og umhverfismatsferli okkar ber merki um. Móðurfélag Háafells, Hraðfrystihúsið- Gunnvör hf. er búið að starfa hér við Ísafjarðardjúp í 80 ár og hyggst gera það áfram, eldið er einn liður í því og jafnframt aukum við verðmætasköpunina á svæðinu og fyrir þjóðarbúið, en það er ekki vanþörf á því þessa dagana. Heilt yfir erum við spennt fyrir verkefninu og eru starfsmenn okkar á fullu við að skipuleggja frekari framkvæmdir.“
Ný eldisker á Nauteyri
Ný fóður- og vélaskemma
Nýjar sjókvíar sjósettar á Suðurtanga