Mynd skilar sér eftir 57 ár
föstudagurinn 19. júlí 2019

Fyrir skömmu síðan lagði togskipið Ísborg ÍS 250 af stað áleiðis til Belgíu með vélbátinn Heru ÞH í togi, en skipin hafa verið seld til niðurrifs.   Hera var byggð í Flekkefjord í Noregi árið 1962 fyrir Gunnvöru hf. á Ísafirði og bar nafnið Guðrún Jónsdóttir ÍS 267.  Var hún gerð út frá Ísafirði á árunum 1963-1971 á línu, net, síld og botnvörpu undir farsælli stjórn Vignis Jónssonar, Hermanns Skúlasonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar Bar skipið mikinn afla að landi á þeim tíma og sem dæmi um það var afli þess árið 1964 alls 5.200 tonn. Skipið þótti stórt og efuðust margir um að raunhæft væri að gera út slíkt skip frá Ísafirði, en reyndin varð sú að skipum af þessari stærð og þaðan af stærri átti eftir að fjölga mikið á næstu árum. 

 

Nú á Gunnvör hf. í smíðum  í Noregi 150 – 170 smál. stálskip, sem bætist við fiskiskipaflotann hér í bænum fyrir eða um næstu áramót. Ber þetta framtak vissulega vott um stórhug og dugnað. (Blaðið Ísfirðingur,  4. apríl 1962, bls. 1)

Guðrún Jónsdóttir ÍS 267 nýkomin til heimahafnar á jólum 1962

 

Guðrún bar nafn móður tveggja eigenda Gunnvarar hf., bræðranna Jóhanns og Þórðar Júlíussona og frá upphafi var mynd af henni um borð í skipinu og fylgdi því  alla tíð.  Nokkru áður en skipið lagði í ferðina til Belgíu færði eigandi þess, Arnar Kristjánsson útgerðarmaður,  Kristjáni syni Jóhanns myndina til varðveiðslu. 

 Arnar Kristjánsson (t.h.) afhendir Kristjáni Jóhannssyni (t.v.) myndina af Guðrúnu Jónsdóttur

Arnar Kristjánsson (t.h.) afhendir Kristjáni Jóhannssyni (t.v.) myndina af Guðrúnu Jónsdóttur

Til baka