Öld frá stofnun Íshúsfélags Ísfirðinga hf.
þriðjudagurinn 10. janúar 2012

Haustið 1911 hófu útgerðarmenn á Ísafirði að undirbúa stofnun hlutafélags um byggingu íshúss til að frysta og geyma beitu fyrir bátaflotann. Kosin var nefnd til að undirbúa stofnunina og í upphafi nýs árs, 7. Janúar 1912 var boðað til stofnfundar og þar samþykkt með öllum atkvæðum að félagið skyldi starfa sem samlagsfélag með fullri ábyrgð allra hluthafa í réttu hlutfalli við eign þeirra í félaginu. Á stofnfundinum skráðu sig 30 hluthafar í félagið með alls 4.700 króna framlagi. Stjórn félagsins var falið að annast um byggingu íshússins samkvæmt teikningu, sem lögð var fram á fundinum og flýta henni svo að hægt væri að taka ís á þessum fyrsta vetri. Aðaltilgangur félagsins var að frysta og geyma síld og aðra beitu auk þess að geyma matvæli fyrir bæjarbúa og aðra viðskiptavini. Félaginu hafði verið úthlutað lóð efst við Fjarðarstræti og þar reis íshúsið fljótlega af grunni.

Hinum megin við Hrossataðsvöll má sjá elsta hús Íshúsfélagsins og nokkru neðar er íshúsið Gláma, sem sameinaðist Íshúsfélaginu árið 1937 auk íshússins Jökuls. Myndin er tekin fyrir árið 1930.
Í tilefni 80 ára afmælis félagsins ritaði Jón Þ. Þór sögu þess árið 1992 og þar segir m.a. um starfsemi félagsins á fyrstu árunum:
Síðla hausts, eða strax og ís hafði myndast á tjörnum, ám og lækjum, var hafist handa um ístöku og virðist svo sem ís hafi verið tekinn hvarvetna sem hann var að fá. Þegar Pollinn lagði, var ís tekinn af honum. Ísinn var fluttur í svokallaðan snjógeymi og bendir sú nafngift til þess að stundum hafi snjór verið tekinn og frystur. (Íshúsfélag Ísfirðinga 80 ára, Jón Þ. Þór, bls. 23)
Verðfall á íslenskum sjávarafurðum á tímum kreppunnar miklu og ekki síður lokun saltfiskmarkaða á Spáni vegna borgarastyrjaldar varð til þess að Íslendingar leituðu nýrra úrræða um verkun og sölu sjávarfangs. Í þessu skyni var Fiskimálanefnd sett á stofn árið 1934 og var tilgangur hennar að hafa frumkvæði að nýsköpun í sjávarútvegi, jafnt veiðum sem vinnslu. Eitt merkasta verk hennar var að hvetja fiskverkendur til að taka upp hraðfrystingu og hafði nefndin frumkvæði að markaðsleit fyrir frystan fisk. Forráðamenn Íshúsfélagsins eygðu þá möguleika, sem fólust í hraðfrystingunni en ljóst var að um risavaxið verkefni var að ræða. Niðurstaðan varð sú að þrjú íshús, Íshúsfélag Ísfirðinga, Jökull og Gláma sameinuðust undir nafni þess fyrstnefnda árið 1937 og í framhaldi af því var komið á fót hraðfrystingu. Starfsemi Íshúsfélagsins gjörbreyttist með tilkomu hraðfrystingarinnar, í stað þess að reka meðalstórt íshús, er hafði að megin verkefni að frysta beitu fyrir hluta ísfirska bátaflotans, hóf nú félagið fiskivnnslu, framleiðslu matvæla fyrir erlenda markaði.
Miklar breytingar urðu á eignarhaldi félagsins árið 1943, fram að því hafði það að mestu verið í eigu stofnendanna, en nú keypti hópur undir forystu Guðjóns E. Jónssonar, útibússtjóra Landsbankans, nær allt hlutafé félagsins og rak um nokkurra ára skeið og í framhaldi af því eignuðust Böðvar Sveinbjarnarson og Jón Kjartansson í Reykjavík félagið og ráku það til ársins 1952 þegar Ísafjarðarkaupstaður eignaðist félagið að fullu.
Bátaútgerð á Ísafirði dróst verulega saman upp úr 1950 og skapaði það erfiðleika við hráefnisöflun Íshúsfélagsins, en árið 1957 óskuðu fimm útgerðarfyrirtæki í bænum, Gunnvör hf., Hrönn hf., Samvinnufélag Ísfirðinga, Magni hf. og Togaraútgerð Ísafjarðar hf., eftir því að kaup hlut bæjarins í félaginu og varð úr að hvert félag keypti 1/6 hlutafjárins, en bærinn hélt einum hlut eftir.
Um þessi kaup segir Jón Þ. Þór í bók sinni Íshúsfélag Ísfirðinga 80 ára m.a.
Með því að kaupa hlut bæjarsjóðs í Íshúsfélaginu sýndu forráðamenn útgerðarfyrirtækjanna hins vegar að þeir höfðu trú á því að enn mætti gera út frá bænum og byggja þar upp atvinnu. Á það þó fyrst og fremst við um forystumenn Hrannar hf. , Gunnvarar hf. og Magna hf., en þegar hér var komið sögu var skammt í það að útgerð Samvinnufélags Ísfirðinga legðist af og Togaraútgerðin varð aldrei annað en pappírsfyrirtæki. Ber þá og að hafa í huga, að þótt forystumenn og skipstjórar þessara þriggja útgerðarfyrirtækja hefðu allir verið viðriðnir útgerð og sjósókn um árabil, voru þeir allir enn á besta aldri og sumir ungir menn. Með kaupum þeirra á Íshúsfélaginu og samvinnunni sem af þeim leiddi má því segja að eins konar kynslóðaskipti hafi orðið í ísfirskum sjávarútvegi. (Íshúsfélag Ísfirðinga 80 ára, bls. 77)
Nú var Íshúsfélagið komið í náin tengsl við starfandi útgerðarfélög í bænum og í framhaldi af því hófst veruleg uppbygging húsakosts félagsins við Eyrargötu og lauk fyrsta áfanga þeirrar byggingar árið 1962. Næstu ár á eftir jókst framleiðsla félagsins verulega og á síðari hluta sjöunda áratugarins var móttekið hráefni á bilinu 4 - 6 þúsund tonn á ári. Næstu áratugina voru þeir Guðmundur Guðmundsson framkvæmdastjóri Hrannar hf. og Jóhann Júlíusson framkvæmdastjóri Gunnvarar hf. , kjölfestan í stjórn félagsins, enda sátu þeir óslitið saman í henni í rúman aldarfjórðung. Margir starfsmenn áttu langan starfsferil hjá Íshúsfélaginu og má þar nefna að Jóhannes G. Jónsson var framkvæmdastjóri félagsins í rúma tvo áratugi frá árinu 1974 og hafði áður verið skrifstofustjóri um árabil. Jón Kristmannsson var yfirverkstjóri í nær fjóra áratugi.

Unnið að stækkun Íshúsfélags Ísfirðinga árið 1978
Um 1970 breyttist eignarhaldið á félaginu nokkuð og eftir það voru Gunnvör hf. og Hrönn hf. aðaleigendur félagsins og skip þeirra kjölfestan í hráefnisöflun frystihússins um áratuga skeið. Með tilkomu skuttogaranna Júlíusar Geirmundssonar og Guðbjargar jókst hráefni Íshúsfélagsins verulega og á áttunda áratugnum tók það á móti 8-12 þúsund tonnum af fisk á ári. Á þeim árum var ráðist í töluverða stækkun frystihússins.
Um og upp úr 1990 hóf Íshúsfélagið þátttöku í útgerð, m.a. línubátnum Hafdísi , skuttogaranum Framnesi ÍS 708 í samstarfi við Kaupfélag Dýrfirðinga og árið 1993 festi það kaup á skuttogaranum Gylli frá Flateyri ásamt veiðiheimildum og fékk hann nafnið Stefnir ÍS 28. Á þessum árum var Íshúsfélagið í meirihlutaeigu Hrannar hf. en síðla árs 1994 eignaðist Gunnvör hf. nánast allt hlutafé félagsins. Í framhaldi af sameiningu Gunnvarar hf. og Hraðfrystihússins hf. í Hnífsdal undir nafninu Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. sameinaðist Íshúsfélag Ísfirðinga hf. því félagi árið 2000.
Íshúsfélagshúsið við Eyrargötu er mikilvægur hluti landvinnslu Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. m.a. veruleg lausfrysting og t.d. var mest allur makrílafli ísfiskskipanna frystur þar. Að auki er önnur starfsemi í húsinu svo sem framleiðsla aukaafurða á vegum Klofnings ehf., Sjúkraþjálfun Vestfjarða hefur aðstöðu þar og nú nýlega hefur lækningavörufyrirtækið Kerecis sett upp framleiðsluaðstöðu í húsinu.
Heimildir
Jón Þ. Þór: Saga Íshúsfélags Ísfirðinga 1912-1992, Ísafirði, 1992

Til baka