Ómar Ellertsson
mánudagurinn 2. nóvember 2015
Ómar Ellertsson var stýrimaður og mjög farsæll og fiskinn skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 (fjórum skipum í röð með því nafni) samfleytt í 47 ár og hálfu ári betur. Hann útskrifaðist frá Sjómannaskólanum 11. maí 1968, á sjálfan lokadaginn, og var í fyrstu stýrimaður hjá Hermanni Skúlasyni og tók svo við skipstjórninni af honum. Reyndar er sjómannsferill Ómars talsvert lengri en þetta, eða liðlega 54 ár.
Frá þessu spjalli við Ómar er gengið í október 2015 þegar hann er í síðasta túrnum sínum, en hann varð 68 ára fyrr í mánuðinum.
Ómar hefur lifað mikla breytingatíma hvað varðar vinnuaðstöðu á sjónum og aðra aðstöðu um borð, ekki síst frá bátunum til skuttogaranna þegar þeir komu á árunum um og upp úr 1970. „Á bátunum varð að beygja sig eftir hverjum einasta fiski, en þegar komið var á skuttogarana kom fiskurinn í mátulegri hæð til að slægja hann.“
Frá upphafi skuttogaraaldar hafa líka orðið miklar breytingar. „Það er mjög vel búið að mannskapnum á þessum nýju skipum og mikill munur frá því sem var. Íþróttatæki um borð, göngubretti og gufubað, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ómar.
Fjölskylda og fyrstu sjómannsár
Ómar Guðbrandur Ellertsson, eins og hann heitir fullu nafni, fæddist á Ísafirði 12. október 1947. Foreldrar hans voru Ellert Eiríksson matsveinn (Ellert Finnbogi) og Fanney Guðbrandsdóttir (Ísól Fanney). Eiginkona Ómars er Ásgerður Annasdóttir (Ásgerður Hinrikka), Ísfirðingur að uppruna eins og hann.
„Ég fór fyrst á sjó 1961 þegar ég var fjórtán ára, á handfæri með Agnari Guðmundssyni,“ segir Ómar. „Hann átti lítinn bát sem hét Ver, kallaður Koddaver. Þetta var eitthvað um tólf til fjórtán tonna bátur. Við vorum þrír þrettán-fjórtán ára unglingar með kallinum. Hann var orðinn mjög fullorðinn en gekk mjög vel að veiða. Þá voru nú græjurnar ekki meiri en það, að hann var ekki með dýptarmæli, en kallinn vissi samt alltaf hvað dýpið var.“
Í febrúar 1963 fór Ómar á Gylfa ÍS með Sturlu Halldórssyni, síðar hafnarverði á Ísafirði. Sturla átti bátinn ásamt Ólafi bróður sínum. Þetta var upphaflega einn af hinum þekktu Samvinnufélagsbátum á Ísafirði, einn af Björnunum gömlu, eitthvað rúmlega sextíu tonn.
„Við rerum frá Reykjavík og vorum á netum og fiskuðum mjög vel. Síðan fór ég aftur á Gylfa um sumarið á snurvoð frá Reykjavík. Í mars árið eftir fór ég á Pál Pálsson ÍS á þorskanet og var síðan á honum á síld yfir sumarið. Fór svo á Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS þegar báturinn kom hingað nýr 1964, hann var keyptur í staðinn fyrir Pál, og var á honum til 1966 þegar ég fór í Sjómannaskólann. Á milli bekkja fór ég á síld á Guðbjörgu ÍS með Geira Bjartar.“
Þeir segja misjafnlega satt
Mesta óðafiskirí sem Ómar man eftir var á Strandagrunni á flottrolli á fyrri ísfisktogaranum með nafninu Júlíus Geirmundsson, líklega árið 1977. „Fyllti hann í fjórum holum. Það var ógurlegt mok. Eintómur þorskur.“
Þegar Ómar er spurður hvernig ákveðið sé hvert skuli halda til veiða hverju sinni segir hann: „Maður fær fréttir af því hvar flotinn er. Svo verður bara að meta það hvert er álitlegast að fara. Maður hefur alltaf símann. Hafró veit ekki neitt.“
Og þegar Ómar er spurður hvort skipstjórar séu fúsir að láta aðra vita hvar fiskurinn er, þá svarar hann og hlær: „Það hafa menn alltaf gert, en þeir segja misjafnlega satt, maður veit aldrei um það fyrirfram.“
Aldrei alvarleg slys
Að sjálfsögðu hefur Ómar oft lent í vondum veðrum á sínum langa ferli, annað hvort væri. „Ég man sérstaklega eftir einum túr, þá var ég með Júlíus Geirmundsson, fyrsta bátinn. Var þá stýrimaður með Hermanni Skúlasyni. Þá höfðum við verið á veiðum austur á Sléttugrunni og vorum á leið heim með fullan bát af fiski. Það var farið inn undir Grímsey um nóttina og legið þar, það spáði illa, og svo var aftur lagt af stað heimleiðis þegar birti. Við fórum mjög djúpt út af Horni til að fá beint lens þegar maður kom út af Vestfjörðum. Það var ógurlegur sjór. Bessinn frá Súðavík var að sigla með okkur, bátur smíðaður hjá Marzellíusi. Það kom brot aftan á hann og eitthvað brotnaði hjá þeim.“
Aðeins einu sinni fékk Ómar á sig brot sem olli skemmdum, en þær voru mjög smávægilegar. „Það brotnaði ein rúða. En ekkert slys, sem betur fer. Þá vorum við bara að lóna og það kom hnútur á hann. Það átti enginn von á þessu.“
Aldrei urðu nein alvarleg slys um borð hjá Ómari. Hann nefnir þó einn manntapa, sem reyndar er ekki hægt að kalla slys í venjulegri merkingu þess orðs. „Við vorum á útleið og svo kom í ljós að það vantaði einn manninn. Hann bara lét sig hverfa á útleiðinni og skildi úlpuna sína eftir. Þetta er það eina sem ég hef lent í.“
– Hvernig er það við leiðarlok sem þessi, að koma í land eftir öll þessi ár á sjónum? Er það söknuður eða er það léttir?
Ómar hugsar sig um og segir svo: „Ætli það sé ekki bara bæði!“
– Hlynur Þór Magnússon færði í letur í október 2015 (útdráttur úr ítarlegra viðtali).
_________________________
Nokkrir menn sem gjörþekkja Ómar Ellertsson eftir langa veru með honum á sjó voru beðnir að lýsa manninum, segja frá kynnum sínum honum og samstarfinu við hann og segja af honum sögur. Brot úr mannlýsingunum fara hér á eftir.
Við erum allir ríkari eftir samstarfið
Mér hefur alla tíð þótt mjög gott að vinna með Ómari, hann er hreinskilinn maður, traustur, lætur ekki vaða yfir sig, er góður yfirmaður, góður samstarfsmaður og einstaklega geðgóður. Ég tel hann hafa kennt mér og félögum okkar margt sem mun nýtast okkur öllum til framtíðar.
Ómars verður saknað um borð í Júlíusi, en við erum allir ríkari eftir samstarfið.
– Sveinn Geir Arnarsson,
stýrimaður á Júlíusi Geirmundssyni.
Gaman að fá góðan mat
Ómar er hress og skemmtilegur karakter, hefur gengið vel að fiska og hefur stýrt sínu skipi heilu í höfn alla tíð. Hann var vinur sinna manna um borð og kom mjög vel fram við alla, sama hver störf þeirra voru. Allir voru jafnir í hans augum.
Öllum finnst okkur gaman að fá góðan mat hjá kokkunum. Þar var Ómar Guðbrandur Ellertsson skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS sannarlega engin undantekning.
– Þór Ólafur Helgason,
yfirvélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni.
Góð fyrirmynd sem yfirmaður
Ég er búinn að vera á Júlíusi í þó nokkur ár, og síðustu ár sem stýrimaður hjá Ómari. Okkur hefur gengið vel saman. Hann er góð fyrirmynd sem yfirmaður, alltaf léttur í lund, yfirleitt þolinmóður og ákveðinn. Ég hef lært margt hjá honum.
Ég veit að hann á eftir að fylgjast vel með okkur, hringja reglulega og fylgjast með okkur í tölvunni heima hjá sér.
– Njáll Flóki Gíslason,
stýrimaður á Júlíusi Geirmundssyni.
Dáðadrengur og frábær vinur
„Hann var sjómaður dáðadrengur.“ Ég var svo heppinn að vera skipsfélagi Ómars á öllum togurunum sem borið hafa nafnið Júlíus Geirmundsson. Það er alveg á hreinu, að Ómar Guðbrandur Ellertsson er dáðadrengur og frábær vinur. Þó að yfirleitt hafi verið létt yfir Ómari gat hann líka verið ákveðinn og fylginn sér.
Velkominn í land, vinur og bróðir, og njóttu efri áranna.
– Þorlákur Kjartansson (Láki),
fyrrum yfirvélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni.