Rækju landað í Súðavík efir margra ára bið
þriðjudagurinn 25. október 2011

Þeir vour þreyttir en kátir skipverjarnir á Valnum ÍS í gærkvöldi en þá komu þeir með rúm 6 tonn af innfjarðarrækju til löndunar í Súðavík eftir níu ára bið.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar heimilað 1000 tonna veiði á rækju í Ísafjarðardjúpi. Í árlegri stofnmælingu stofnunarinnar kom fram veruleg hækkun stofnvísitölu rækju í Djúpinu og lagði hún því til að veiðar yrðu leyfðar á svæðinu.


Valurinn er eini bátur Hraðfrystihússins-Gunnvarar sem gerður er út á innfjarðarrækju sem stendur, en þegar mest var gerði fyrirtækið út þrjá innfjarðarrækjubáta frá Súðavík .


Aflinn fékkst í Mjóafjarðarkjafti og er rækjan mjög falleg að sögn þeirra félaga Haraldar Konráðssonar skipstjóra og Arnaldar Sævarssonar vélstjóra. Þeir eru tveir um borð og hafa undanfarin ár sinnt verkefnum tendgum þorskeldisstarfsemi félagsins.


Niðurstaða stofnmælinga Hafrannsóknarstofnunar er mikið fagnaðarefni fyrir atvinnulífið á Vestfjörðum, sem og íbúa svæðisins. Níu ára bið er loksins á enda.

Til baka