Skip án veiðarfæra landar mestum þorski á Vestfjörðum
föstudagurinn 26. febrúar 2010
Papey gegnir mikilvægu hlutverki í þorskeldi H-G, m.a.í flokkun og flutningi á smáum og stórum fiski svo og í allri slátrun. Venjulega er fiskurinn sóttur í kvíarnar daginn fyrir slátrun og morguninn eftir er honum dælt lifandi beint inn í aðgerðaraðstöðu fyrirtækisins í Súðavík.
H-G hafði verið með brunnbátinn Papey á leigu frá HB Granda hf. í nokkur ár áður en ráðist var í að kaupa hann í fyrra. Gott samstarf hefur verið á milli þessara fyrirtækja um árabil. Þannig hefur Papey annast flutning seiða á milli landshluta, bæði í Ísafjarðardjúpi og á Berufirði. Þá fór Papey í haust þrjár ferðir til Tálknafjarðar og sótti regnbogasilung til útsetningar í sjókvíar í Dýrafirði en þar stundar Dýrfiskur eldi á regnbogasilungi. Yfirleitt eru 4 í áhöfn Papeyjar.