Það sem af er yfirstandandi fiskveiðiári hefur ekkert skip landað jafn miklu af þorski á Vestfjörðum og brunnbáturinn Papey eða 1044 tonn. Það sem greinir þetta „fengsæla" skip frá öðrum sem landa hér um slóðir er sú staðreynd að það er veiðarfæralaust með öllu. Allur afli þess er nefnilega sóttur í þorskeldiskvíar Hraðfrystihúsins - Gunnvarar hf. Aflanum hefur verið landað lifandi úr brunn bátsins í Súðavík þar sem hann er slægður og síðan unninn í landvinnslu félagsins í Hnífsdal og á Ísafirði.

Papey gegnir mikilvægu hlutverki í þorskeldi H-G, m.a.í flokkun og flutningi á smáum og stórum fiski svo og í allri slátrun. Venjulega er fiskurinn sóttur í kvíarnar daginn fyrir slátrun og morguninn eftir er honum dælt lifandi beint inn í aðgerðaraðstöðu fyrirtækisins í Súðavík.


H-G hafði verið með brunnbátinn Papey á leigu frá HB Granda hf. í nokkur ár áður en ráðist var í að kaupa hann í fyrra. Gott samstarf hefur verið á milli þessara fyrirtækja um árabil. Þannig hefur Papey annast flutning seiða á milli landshluta, bæði í Ísafjarðardjúpi og á Berufirði. Þá fór Papey í haust þrjár ferðir til Tálknafjarðar og sótti regnbogasilung til útsetningar í sjókvíar í Dýrafirði en þar stundar Dýrfiskur eldi á regnbogasilungi. Yfirleitt eru 4 í áhöfn Papeyjar.

Til baka