Smíði á nýjum Páli Pálssyni ÍS-102 formlega hafin
fimmtudagurinn 23. apríl 2015
Smíði á nýju skipi Hraðfrystihússins-Gunnvarar hófst formlega á dögunum, en hinn 18. apríl kl. 10:38 hófst stálskurðurinn í skipasmíðastöðinni í Kína. Tímasetningin er engin tilviljun því að Kínverjar telja að tölunni 8 fylgi gæfa. Við þetta tækifæri voru einnig sprengdir margir Kínverjar eins og alsiða er þar í landi.
Skipið mun hljóta nafnið Páll Pálsson ÍS-102, en undirbúningurinn að smíðinni hefur tekið um ár, sem er nokkru lengri tími en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Nú þegar hafa allir stærri hluti sem munu fara í skipið verið valdir, ss. vélar, framdrifsbúnaður og allur spilbúnaður.
Aðalvél skipsins var prufukeyrð á plani í samsetningarverksmiðjum MAN turbo & diesel í Aurangabad í Indlandi þann 6. apríl síðastliðinn. Prófanirnar aðalvélarinnar komu að öllu leyti vel út.
Finnur Kristinsson hefur verið ráðinn eftirlitsmaður með smíði Páls Pálssonar og Breka VE, sem er smíðaður í sömu skipasmíðastöð. Finnur, sem var yfirvélstjóri á Arnari HU frá Skagaströnd til fjölda ára, verður staðsettur í skipasmíðastöðinni, en honum til aðstoðar hefur verið ráðinn kínverskur tæknifræðingur.
Þegar lengra líður á verkið er gert ráð fyrir að vélstjórar frá útgerðunum verði einnig við eftirlit auk þess sem aðrir starfsmenn fyrirtækjanna koma að verkinu.
Hér er listi yfir helsta búnað skipanna:
- Aðalvél: MAN Diesel & Turbo type 6L27/38 1790 Kw
- Gír: Reintjes gírhlutfall 9,2:1
- Skrúfubúnaður: MAN ,skrúfa 3 blöð, þvermál 4,7 m.
- Ásrafall: AEM 40 – 50 Hz 1500 KVA
- Ljósavélar: Caterpillar C18 400 Kw og C9 142 Kw
- Vindur: Naust Marine / Ibercisa, allar vindur rafdrifnar.
- Stýrisvél: Scan Steering
- Skilvindur: Alfa Laval
- Loftþjöppur: Sperre
- Léttabátur: Norsave
- Dekkkrani: Palfinger
- Löndunargálgi: Shanghai Goodway Marine Engineering Co.
- Dælur: Ascue
- Krapaísvél: North Star / Bitzer
- Aðaltafla: SAM electronics
- Siglingar og fiskileitartæki: Furuno, Simrad
- Útihurðir: Libra