Starfslok eftir 58 ára starf hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru
föstudagurinn 30. maí 2003
Starfsfólk bolfiskvinnslu H-G í Hnífsdal gerði sér dagamun í morgun.
Tilefnið var að afhenda Pétri Þorvaldssyni viðurkenningu fyrir störf hans í þágu fyrirtækisins til sjós og lands, en Pétur hefur starfað hjá fyrirtækinu og tengdum útgerðum í 58 ár, og var dagurinn í dag síðasti vinnudagurinn hans.
Pétur hóf sinn sjómannsferil 1945 þá 15 ára gamall hjá Jóakim Hjartarsyni á mb. Jóakim Pálssyni,og var síðan með Jóakim á mb. Smára. Eftir 10 ára veru hjá Jóakim Hjartarsyni ræður Pétur sig í skipsrúm til Jóakims Pálssonar og er bátsmaður hjá Jóakim í 14 ár meðal annars á Guðrúnu Guðleifsdóttur.
Árið 1968 kemur Pétur í land og fer að starfa í bolfiskvinnslu Hraðfrystihússins í Hnífsdal við almenna fiskvinnslu, auk starfa sinna við fiskvinnslu hefur Pétur komið við sögu við nær allar breytingar og húsbyggingar hjá fyrirtækinu á sínum starfsferli.
Í hófi sem haldið var Pétri til heiðurs í morgun afhenti Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri H-G Pétri blómvönd og gullúr að gjöf sem nokkurn þakklætisvott fyrir störf hans í þágu fyrirtækisins, en þau störf hefur hann unnið af mikilli trúmennsku og gætt þess að hlutur fyrirtækisins yrði ekki fyrir borð borinn. Í lok ávarps síns sagði Einar Valur ma. "Ég vil fyrir hönd fyrirtækisins og samstarfsfólks þíns á þessum tímamótum þakka þér fyrir þín störf í þágu fyrirtækisins til sjós og lands og vona að þú fáir að njóta lífsins enn frekar eftir þín starfslok hér.