Stefnir ÍS 28 er fertugur
þriðjudagurinn 15. mars 2016

Fjörutíu ár eru í dag, 16. mars 2016,  síðan skuttogarinn Stefnir ÍS 28, áður Gyllir ÍS 261, kom til landsins nýsmíðaður frá Noregi. Útgerðarfélag Flateyrar lét smíða togarann í Flekkefjord í Noregi og er hann 50 metra langur og mælist 431 tonn brúttó. Árið 1971 sömdu vestfirsk útgerðarfélög um smíði fimm skuttogara í Noregi og komu þeir til landsins á árunum 1972 til 1974, Júlíus Geirmundsson, Guðbjartur, Framnes, Bessi og Guðbjörg.   Skipin voru öll af sömu gerð, en Guðbjörg var á smíðatímanum lengd um rúma þrjá metra.  Þessi skip reyndust afar vel, voru vel útbúin og um árabil uppistaðan í vestfirska togaraflotanum. Í dagblaðinu Tímanum segir m.a. svo frá komu Gyllis. 

Til gamans má geta þess að skipið er að grunni eins og togarinn Guðbjörg á Ísafirði og er sagt að upprunalega pöntunin hafi verið „Eitt stykki Guðbjörg, takk.“  Síðan var pöntunin að sjálfsögðu útfærð nánar.  (Tíminn, 17. mars 1976)

Árið 1993 gekk Þorfinnur hf., sem var í eigu Íshúsfélags Ísfirðinga hf. og Flateyrarhrepps inn í kaupsamning um Gylli ÍS 261 ásamt veiðiheimildum og í framhaldi af því var nafni hans breytt í Stefnir ÍS 28.  Var hann gerður út af Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. næstu árin og síðan af Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf. eftir sameiningu félaganna árið 2000.   Skipinu hefur alla tíð verið haldið vel við og þess má geta að upphaflega aðalvélin er enn í því.  Á síðastliðnu ári aflaði Stefnir ÍS  um 3.400 tonna að verðmæti 844 milljónir króna. Skipstjóri á Stefni er Pétur Birgisson.

Til baka