Þess er í dag minnst að 35 ár eru liðin frá því togarinn Stefnir ÍS 28, sem Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. hefur gert út undanfarin 18 ár, kom fyrst til hafnar á Flateyri. Togarinn fékk nafnið Gyllir og var gerður út frá Flateyri. Þetta er 50 metra langt skip, smíðað í Flekkefjord í Noregi.

Talsvert var fjallað um sölu Gyllis til Ísafjarðar í fjölmiðlum á sínum tíma. Stofnað var sérstakt félag um kaupin, Þorfinnur hf. Flateyrarhreppur átti 30% í því fyrirtæki og nýtti sér þannig forkaupsrétt á togaranum. Þorfinnur var síðar sameinaður Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. sem svo aftur sameinaðist Hraðfrystihúsinu - Gunnvöru hf. árið 2000.

Einar Oddur Kristjánsson, sem þá var framkvæmdastjóri Hjálms á Flateyri sem gerði Gylli út, sagði þann 7. janúar 1993 í viðtali við Morgunblaðið: „Það ætti enginn Íslendingur að velkjast í vafa um að þessi atvinnugrein á í miklum kröggum og fyrirtækin róa lífróður til að halda sér ofansjávar."

Þegar gengið var frá kaupunum, nokkrum árum fyrir sameiningu sveitarfélaga á svæðinu , sagði þáverandi stjórnarformaður Íshúsfélags Ísfirðinga hf., Þorleifur Pálsson, sem nú er bæjarritari í Ísafjarðarbæ, m.a. í viðtali við DV þann 13. janúar 1993:
„Menn verða að taka höndum saman á þessu svæði hér og sjá til þess að skip og kvótar fari ekki í burtu. Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Ísafjarðardjúp, þetta er allt að tengjast í eitt atvinnusvæði. Við áttum fyrir helming í togara á Þingeyri á móti heimamönnum þannig að þetta fyrirkomulag er ekki nýtt hjá okkur." Á sömu tímamótum er einnig haft eftir Þorleifi í Tímanum að á árinu 1992 hafi atvinnuleysisdagar hjá Íshúsfélaginu verið 40 talsins vegna hráefnisskorts.

Eins og títt er sagt um afmælisbörn á besta aldri ber Stefnir ÍS 28 aldurinn vel. Hann sækir mikið í steinbít og skilaði 700 milljónir króna aflaverðmæti á síðasta ári. Skipstjórinn, Pétur Birgisson og áhöfn hans eru þekkt fyrir gæðafisk og fyrirtaks frágang á afla.

Til baka