Tíminn notaður til endurmenntunar starfsfólks á meðan tíðarfar er risjótt.
mánudagurinn 18. nóvember 2013
Við framleiðslu úrvals sjávarafurða á kröfuhörðustu matvælamarkaði heims er mikilvægi þekkingar og reynsla starfsfólks sjaldan ofmetin. Endurmennta þarf starfsfólk reglulega eins og viðhalda þarf og endurnýja reglulega tækjabúnað vinnslunnar.
Undanfarnar vikur hefur tíðarfar til sjávarins verið risótt og á tímabilinu 4. til 12. nóvember sóttu um 60 starfsmenn í vinnslum HG í Hnífsdal, Ísafirði og Súðavík sérhæfð námskeið fyrir fiskvinnslufólk, þ.e. bæði grunnnámskeið- og viðbótarnámskeið fyrir fiskvinnslufólk.
Grunnnámskeiðið fiskvinnslufólks stóð í 5 daga (40 klst) og var markmið námsins að auka þekkingu starfsmanna á vinnslu sjávarafla, efla sjálfstraust og styrkja faglega hæfni þess. Námsskráin náði bæði yfir kennslu í hreinlæti og gæðakröfum sem og líkamsbeitingu við vinnu. Þá kynntist fólk helstu hættum og öryggistækjum í fiskvinnslu og að ná færni til að veita skyndihjálp og bregðast við slysum. Einnig lærði það um réttindi sín og skyldur á vinnumarkaði sem og mikilvægi góðs sjálftrausts í mannlegum samskiptum.
Viðbótanámskeiðið fiskvinnslufólks stóð í tvo daga (16 klst) og skiptist í fjóra hluta. 1) Gæði og öryggi í meðferð matvæla. 2) Gæði og meðferð frá veiðum til vinnslu. 3) Umhverfismál og 4) Sjálfstyrking.
Starfsmenn voru almennt ánægðir með námskeiðin og töldu þau bæði þörf, nytsamleg og skemmtileg.