Útskrift skipstjórnarmanna hjá HG
föstudagurinn 3. febrúar 2017
Skipstjórar og stýrimenn á skipum Hraðfrystihússins-Gunnvarar útskrifuðust í dag úr 150 stunda námsbraut „Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti“ á vegum Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða.
HG óskar skipstjórnendum til hamingju með námsárangurinn og jákvætt viðhorf gagnvart verkefninu. Auk þess að vera efling námslega þá voru stjórnendur HG og skipstjórnendur á því máli að námið hafi einnig bæði styrkt tengsl milli áhafna á skipum og fiskvinnslunnar í landi.
Sterkari starfsmaður – upplýsingatækni og samskipti er ætlað fólki á vinnumarkaði sem vill auka færni sína til að takast á við breytingar í starfi og stuðla að jákvæðu viðhorfi námsmanna til starfa, nýjunga, upplýsingatækni, samskipta og símenntunar og gera þá eftirsóknarverðari starfsmenn.
Þetta var yfirgripsmikið og fjölbreytt nám. Upphaflega var megináherslan lögð á aukna tölvufærni í word, excel, outlook. Samhliða því var komið inn á leiðtogafærni, mannauðsstjórnun og vinnustaðamenningu. Farið var yfir virðiskeðjuna þar sem rætt var um meðferð afla og gæðastjórnun. Einnig voru fyrirlestar frá Hafrannsóknarstofnun, um veiðarfæri atferli fiska og hafstrauma í kringum landið.
Fræðslumiðstöðin hefur undanfarin ár byggt upp sitt námsframboð og lagt m.a. áherslu á að þjálfa upp kennara af svæðinu til þess að kenna fjölda námskeiða og voru námskeiðin því að mestu leyti kennd af heimafólki.
Þakkir eru færðar Fræðslumiðstöð Vestfjarða fyrir samstarfið, sem brást við óskum um námskeiðið með litlum fyrirvara og aðlagaði námsefnið einstaklega vel að þörfum námshópsins.