Veiðiréttarhafar á villuslóð
mánudagurinn 11. júní 2018

Landssamband veiðifélaga (LV) hefur krafist rannsóknar á málsmeðferð Skipulagsstofnunar á umhverfismati Háafells fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í rökstuðningi LV er ýjað að meintri vanrækslu Skipulagsstofnunar í ferlinu og hún sökuð um að láta undan óeðlilegum þrýstingi Ísafjarðarbæjar. Þá krefst LV þess að Háafell vinni nýja frummatsskýrslu þar sem aðilum býðst á ný að senda inn athugasemdir.

Hafa skal það sem sannara reynist.Í maí í fyrra var von á áliti Skipulagsstofnunar vegna laxeldis Háafells í Ísafjarðardjúpi. Það dróst á langinn og hafði ekki verið gefið út um miðjan júlí þegar áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun var skyndilega kynnt til sögunnar. Áhættumatið frá Hafró setti áform Háafells í algjört uppnám en í þeirri útgáfu matsins var ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða gagnvart erfðablöndun.

 

Skipulagsstofnun tilkynnti í fyrrasumar að hún horfði til niðurstaðna áhættumatsins, en fram að þeim tíma höfðu íslensk stjórnvöld skilgreint Ísafjarðardjúp sem fiskeldissvæði og hafði Háafell unnið í góðri trú út frá þeirri staðreynd. En á miðju sumri í fyrra, urðu leikreglur í umsóknarferlinu aðrar. Og það á lokametrum ferlisins. Vegna þessarar óvæntu stöðu varð það úr, að Háafell fengi ráðrúm og tíma til þess að leggja fram frekari gögn um mótvægisaðgerðir, til dæmis vegna mögulegrar erfðablöndunar.

Það kom því verulega á óvart að fá sent álit Skipulagsstofnunar í apríl í vor, án þess að færi hefði gefist á að koma að viðbótargögnum sem þessar breyttu aðstæður vissulega kölluðu á og hafði verið fallist á að Háfell fengi að senda inn. Háafell hafði umsvifalaust samband við stofnunina og benti á að fyrirtækið hefði ekki getað sent inn öll gögn á þessum tíma. Skipulagsstofnun brást hratt við og dró álit sitt til baka svo hafa mætti nýjustu gögn um stöðuna til hliðsjónar þegar að matið yrði birt. Á það hefur verið bent að ekki sé hliðstæða fyrir slíkri afturköllun á áliti en það má jafnframt minna á að ekki er heldur að finna margar hliðstæður við umsóknarferli Háafells, þar sem stjórnvöld breyta leikreglum á lokametrum umsóknarferlisins.

Þær ályktanir sem LV dregur af störfum Skipulagsstofnunar eru því ekki í samhengi við staðreyndir málsins og algjörlega úr lausu lofti gripnar. Þess má geta að Háafell hefur ítrekað boðist til þess að hitta forsvarsmenn LV, bæði fyrr í ferlinu sem og undanfarið til þess að fara yfir stöðu mála og kynna þeim frekar þær lausnir sem geta tryggt farsæla sambúð laxeldis og villtra laxa. Því miður hafa forsvarsmenn LV ekki séð sér fært að hitta forsvarsmenn Háafells en kjósa nú frekar, að því er virðist, að hanna atburðarrás sem er ætlað að grafa undan trausti á fagstofnunum.

Vegna kröfu LV um nýja frummatsskýrslu og athugasemdir þarf eftirfarandi að koma fram. Háafell hefur staðið í umsóknarferli fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2011. Á þeim tíma hafa verið haldnir samráðsfundir bæði með almenningi og öðrum hagsmunaaðilum í Ísafjarðardjúpi. Þar hefur verið farið yfir áformin og í mörgum tilvikum hefur eldissvæðum verið hnikað til eða brugðist við með tillögum um þær mótvægisaðgerðir sem best þekkjast erlendis til þess að tryggja sem minnst áhrif af eldinu.
Í öllu ferlinu hafa verið gefnir fjölmargir umsagnarfrestir við áætlanir og skýrslur gerðar þar sem almenningur og hagsmunaaðilar hafa getað komið sínum sjónarmiðum að. Í ofanálag hefur nánast hvert skref Háafells í leyfisferlinu verið kært. Krafa um nýja frummatsskýrslu og umsagnarfrest er því ótrúleg í ljósi þess að fá mál hafa fengið jafn mikla yfirlegu og umfjöllun og áform Háafells um laxeldi í Ísafjarðardjúpi í þau 7 ár sem umsóknarferlið spannar.

 

Til baka