Tíðindi

þriðjudagurinn 12. júní 2018

Viðurkenning fyrir sjófrystar afurðir inn á markaði í Norður Ameríku.

Við brottför frystitogarans Júlíusar Gerimundssonar ÍS 270 eftir sjómannadag veitti High Liner Foods útgerð og áhöfn viðurkenningarskjöld fyrir framleiðslu á sjófrystum þorsk- og ýsuafurðum. 

Með þessari "sérstöku viðurkenningu fyrir veittan stuðning í framleiðslu fiskafurða í Icelandic vörumerkið" vilja forsvarmenn High Liner Foods þakka fyrir góð og gild viðskipti.

High Liner Foods er leiðandi í framleiðslu og sölu á virðisaukandi frosnum fiskafurðum inn á markaði í Norður Ameríku. Kaupandinn gerir miklar kröfur um gæði og vottanir gagnvart umhverfi og samfélagslegri ábyrgð sem snúa meðal annars að öryggi og velferð starfsmanna. Viðurkenningin er því góð hvatning fyrir útgerð og áhöfn í sínum daglegu störfum fyrir kröfuharðan alþjóðlegan matvælamarkað.

mánudagurinn 11. júní 2018

Veiðiréttarhafar á villuslóð

Landssamband veiðifélaga (LV) hefur krafist rannsóknar á málsmeðferð Skipulagsstofnunar á umhverfismati Háafells fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Í rökstuðningi LV er ýjað að meintri vanrækslu Skipulagsstofnunar í ferlinu og hún sökuð um að láta undan óeðlilegum þrýstingi Ísafjarðarbæjar. Þá krefst LV þess að Háafell vinni nýja frummatsskýrslu þar sem aðilum býðst á ný að senda inn athugasemdir.

Hafa skal það sem sannara reynist.Í maí í fyrra var von á áliti Skipulagsstofnunar vegna laxeldis Háafells í Ísafjarðardjúpi. Það dróst á langinn og hafði ekki verið gefið út um miðjan júlí þegar áhættumat Hafrannsóknarstofnunar um erfðablöndun var skyndilega kynnt til sögunnar. Áhættumatið frá Hafró setti áform Háafells í algjört uppnám en í þeirri útgáfu matsins var ekki tekið tillit til mótvægisaðgerða gagnvart erfðablöndun.

 

Skipulagsstofnun tilkynnti í fyrrasumar að hún horfði til niðurstaðna áhættumatsins, en fram að þeim tíma höfðu íslensk stjórnvöld skilgreint Ísafjarðardjúp sem fiskeldissvæði og hafði Háafell unnið í góðri trú út frá þeirri staðreynd. En á miðju sumri í fyrra, urðu leikreglur í umsóknarferlinu aðrar. Og það á lokametrum ferlisins. Vegna þessarar óvæntu stöðu varð það úr, að Háafell fengi ráðrúm og tíma til þess að leggja fram frekari gögn um mótvægisaðgerðir, til dæmis vegna mögulegrar erfðablöndunar.

Það kom því verulega á óvart að fá sent álit Skipulagsstofnunar í apríl í vor, án þess að færi hefði gefist á að koma að viðbótargögnum sem þessar breyttu aðstæður vissulega kölluðu á og hafði verið fallist á að Háfell fengi að senda inn. Háafell hafði umsvifalaust samband við stofnunina og benti á að fyrirtækið hefði ekki getað sent inn öll gögn á þessum tíma. Skipulagsstofnun brást hratt við og dró álit sitt til baka svo hafa mætti nýjustu gögn um stöðuna til hliðsjónar þegar að matið yrði birt. Á það hefur verið bent að ekki sé hliðstæða fyrir slíkri afturköllun á áliti en það má jafnframt minna á að ekki er heldur að finna margar hliðstæður við umsóknarferli Háafells, þar sem stjórnvöld breyta leikreglum á lokametrum umsóknarferlisins.

Þær ályktanir sem LV dregur af störfum Skipulagsstofnunar eru því ekki í samhengi við staðreyndir málsins og algjörlega úr lausu lofti gripnar. Þess má geta að Háafell hefur ítrekað boðist til þess að hitta forsvarsmenn LV, bæði fyrr í ferlinu sem og undanfarið til þess að fara yfir stöðu mála og kynna þeim frekar þær lausnir sem geta tryggt farsæla sambúð laxeldis og villtra laxa. Því miður hafa forsvarsmenn LV ekki séð sér fært að hitta forsvarsmenn Háafells en kjósa nú frekar, að því er virðist, að hanna atburðarrás sem er ætlað að grafa undan trausti á fagstofnunum.

Vegna kröfu LV um nýja frummatsskýrslu og athugasemdir þarf eftirfarandi að koma fram. Háafell hefur staðið í umsóknarferli fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2011. Á þeim tíma hafa verið haldnir samráðsfundir bæði með almenningi og öðrum hagsmunaaðilum í Ísafjarðardjúpi. Þar hefur verið farið yfir áformin og í mörgum tilvikum hefur eldissvæðum verið hnikað til eða brugðist við með tillögum um þær mótvægisaðgerðir sem best þekkjast erlendis til þess að tryggja sem minnst áhrif af eldinu.
Í öllu ferlinu hafa verið gefnir fjölmargir umsagnarfrestir við áætlanir og skýrslur gerðar þar sem almenningur og hagsmunaaðilar hafa getað komið sínum sjónarmiðum að. Í ofanálag hefur nánast hvert skref Háafells í leyfisferlinu verið kært. Krafa um nýja frummatsskýrslu og umsagnarfrest er því ótrúleg í ljósi þess að fá mál hafa fengið jafn mikla yfirlegu og umfjöllun og áform Háafells um laxeldi í Ísafjarðardjúpi í þau 7 ár sem umsóknarferlið spannar.

 

föstudagurinn 1. júní 2018

Sjómannadagurinn 2018

Eins og undanfarin ár mun Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. bjóða bæjarbúum og gestum  í siglingu á sjómannadaginn á ísfiskskipinu Stefni ÍS 28

Brottför verður kl 10:30 úr Sundahöfn á Ísafirði og verður siglt út í Djúp til móts við skip frá Bolungarvík. Björgunarsveitarfólk frá Ísafirði og Hnífsdal munu sjá um að gæta öryggis um borð á meðan á siglingu stendur.

Yngsta kynslóðin hefur yfirleitt ekki verið svikin af skemmtilegri sjóferð á sjómannadagshelginni og mörg hver hafa í fyrsta skipti á ævinni stigið  á skipsfjöl í sjómannadagssiglinu.

HG óskar öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra til hamingju með daginn.

föstudagurinn 1. júní 2018

Heimkomuhátíð Páls Pálssonar ÍS 102

Nýjum og glæsilegum togara Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf, Páli Pálssyni ÍS 102 sem kom til Ísafjarðar 5. maí var fagnað með formlegri heimkomuhátíð laugardaginn 19.maí.

Séra Magnús Erlingsson sóknarprestur á Ísafirði blessaði skipið auk þess sem karlakórinn Ernir söng nokkur lög.

Guðrún Aspelund er guðmóðir skipsins og  gaf hún því nafn og sagði við það tækifæri „Gæfa fylgi þér og áhöfn þinni Páll Pálsson.“

Gestum var síðan boðið að skoða skipið og þar á eftir var boðið uppá veitingar í Edinborgarhúsinu þar sem hönnun og smíði skipsins var kynnt ástamt því að ferðasögur úr ævintýralegri heimsiglingu voru sagðar.  

Nú eru  starfsmenn Skagans - 3X Technilogy að vinna við uppsetningu búnaðar á millidekk og í lest og tíminn jafnframt nýttur við ýmsilegt annað eins og að gera veirafæri klár.

„Þetta er stór dagur fyrir okkur eigendur og starfsfólk Hraðfrystihússins-Gunnvarar, þetta eru tímamót í Vestfirskum sjávarútvegi og það er einkar gleðilegt að koma með nýtt og fullkomið skip heim. Skip sem búið er fullkomnasta búnaði sem völ er á.

Það er okkar bjargfasta trú að til að standast sífellt meiri áskoranir í sjávarútvegi þurfum við á hverjum tíma að hafa á að skipa bestu tækjum sem völ er og þannig geta laðað til okkar hæfasta starfsfólkið“, sagði Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri í sínu ávarpi við athöfnina.

Forsvarsmenn HG þakkar öllum þeim sem komu til að skoða skipið og í móttökuna í Edinborgarhúsinu fyrir komuna.

föstudagurinn 18. maí 2018

Skipsnafnið Páll Pálsson í Hnífsdal

Í tilefni af komu nýs skuttogara félagsins tók Kristján G. Jóhannsson, stjórnarformaður, saman sögu skipsnafnsins Páls Pálssonar frá Hnífsdal.


Skipsnafnið Páll Pálsson í Hnífsdal

Nýr skuttogari Páll Pálsson ÍS 102 hefur nú bæst í flota Hnífsdælinga.  Því  er ekki úr vegi að fara nokkrum orðum um sögu þessa skipsnafns í Hnífsdal.   Nýi Páll er  sjötta skipið sem ber þetta nafn og sagan spannar brátt 79 ár.

 

 Páll Pálsson (I) og Morgunstjarnan sjósett í Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar 3. ágúst 1939.

Fyrsti báturinn, sem bar nafnið Páll Pálsson hljóp af stokkunum í Skipasmíðastöð Marsellíusar Bernharðssonar á Ísafirði þann 3. ágúst 1939, var hann 15 smálestir að stærð, smíðaður úr eik og hinn vandaðasti með 45-50 hestafla Ideal mótor eins og sagði í blaðinu Vesturlandi.    Þar kom einnig fram að báturinn væri eign Jóakims Pálssonar frá Heimabæ í Hnífsdal og tæki hann við formennsku á bátnum og færi innan skamms á reknetaveiðar.   Þess má geta að daginn áður var hleypt af stokkunum öðrum bát í sömu skipasmíðastöð, Morgunstjörnunni, 18 smálesta bát í eigu Munins hf. á Ísafirði.   Í blaðinu Vesturlandi sagði m.a.

Það er talsverður viðburður í okkar litla bæjarfélagi, þegar tveir vandaðir vélbátar bætast samtímis í fiskveiðaflotann.  Áræði og dugnaður geta enn sem fyr fleytt yfir erfiðleikana og skerin.  (Vesturland, 5. ágúst 1939, bls. 124).

Þess má geta að vélin í Páli var sú fyrsta af þessari tegund hér á landi og í auglýsingu umboðsmanns Ideal vélanna sagði m.a. að þessi glóðarhausmótor væri sparneytinn, gangöruggur og vandaður.  (Ægir, 1. október 1939, aftari kápa)

Báturinn bar nafn Páls Pálssonar í Heimabæ í Hnífsdal föður eigandans og skipstjórans.  Hann var fæddur árið 1883 og byrjaði strax eftir fermingu að stunda sjó með föður sínum, varð útgerðarmaður  22 ára að aldri og stundaði sjóinn til ársins 1941.  Páll lést árið 1975 tæplega 92 ára gamall. 

Afleiðingar heimskreppunnar á fjórða áratug síðustu aldar og ekki síður borgarastyrjöldin á Spáni urðu til þess að saltfiskmarkaðir Íslendinga lokuðust.  Á þessum tíma var hraðfrysting fisks að aukast og beitti Fiskimálanefnd sér fyrir því að unnið væri að því að finna markaði fyrir frystan fisk.  Haustið 1940 var farið að huga að stofnun hraðfrystihúss í Hnífsdal  og voru helstu hvatamenn þess þeir Ingimar Finnbjörnsson og Jóakim Pálsson, báðir útgerðarmenn og skipstjórar.  Þeir  höfðu veturinn áður lagt upp hjá frystihúsi Antons Proppé á Þingeyri og komust að raun um að þar var mun betri aðstaða en heima í Hnífsdal.   Síðla árs 1941 tók Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal til starfa  og þar lagði Páll Pálsson ÍS 102 upp sinn afla.

 

Nýr og stærri Páll

Í ársbyrjun 1950 hóf nýr Páll Pálsson ÍS 402 róðra frá Hnífsdal,  hann var 38 rúmlestir að stærð og  smíðaður á Neskaupstað fyrir Hauk hf. í Hnífsdal.  Skipstjóri á honum var einnig Jóakim Pálsson.   Minni bátarnir þóttu nú ekki henta lengur til útgerðar m.a. vegna þess að stærri bátarnir gátu stundað síldveiðar fyrir Norðurlandi yfir sumarið, sem gáfu oft vel í aðra hönd.   Vetur og haust voru þeir á línuveiðum á heimamiðum og lönduðu aflanum hjá Hraðfrystihúsinu hf.

 Þrír bátar í byggingu hjá Dráttarbraut Neskaupstaðar árið 1947. Páll Pálsson (II) er sennilega lengst t.-h. (mynd Ljósmyndasafnið á Neskaupstað)

 

Til að gera sér nokkra grein fyrir útgerðarmynstri báta á þessum árum skulum við taka árið 1951, fyrsta heila árið sem þessi bátur var gerður út.  Hann réri með línu á vertíðinni frá áramótum fram undir miðjan maí, fór 58 róðra og landaði 256 tonnum í Hnífsdal.   Seint í júní hélt hann til síldveiða með hringnót og var þá ekki langt að fara því töluverð síld var út af Ísafjarðardjúpi.  Fyrsta löndun Páls var að líkindum þann 30. júní, 150 tunnur (um 15 tonn) í Hnífsdal.   Síðan er þess getið í Morgunblaðinu 6. júli  að Páll hafi landað á Djúpuvík daginn áður  400 málum (54 tonn) sem hann fékk út af Horni og síðan segir orðrétt

Var Páll Pálsson með sumt af aflanum í nótabátunum því að sjálfur bar hann ekki allt. (Morgunblaðið 6. júli 1951, bls. 7)

Eitthvað hefur dregið úr síldveiði því að samkvæmt síldveiðiskýrslu í ágúst lok var aflinn orðinn 1528 mál og tunnur, sem nemur um 200 tonnum alls.

Í blaðinu Skutli 7. desember 1951 er greint frá því að Páll hafi farið í 11 róðra í nóvember og aflað um 30 tonn.  Einnig kemur fram að það sé samhljóða álit allra sem best þekkja til, að aflinn hafi aldrei hin  síðari ár verið  jafn herfilega lítill hjá vélbátunum. 

Páll Pálsson ÍS 402 var seldur síðla árs 1956 Hraðfrystihúsinu Norðurtanga hf. á Ísafirði og fékk hann nafnið Már ÍS

 

Þriðji Páll smíðaður á Ísafirði

Í febrúar 1956 var haldinn hluthafafundur í Hraðfrystihúsinu hf.  um útgerðarmál og var þar rædd nauðsyn þess að efla útgerðina og fá stærri skip.  Fyrir lá að hægt væri að fá smíðað 59 tonna skip hjá Marsellíusi Bernharðssyni á Ísafirði, en leggja þyrfti fram 200 þúsund krónur í eigið fé áður en hægt væri að fá lán frá Fiskveiðasjóði.  Nokkrir hluthafar voru á móti því að félagið sjálft keypti bát en samþykktu að lagt yrði fram 100 þúsund króna hlutafé í nýtt félag Ver hf.   Ákveðið var að slíta félaginu Haukur hf. , sem átti 40 tonna bátinn Pál Pálsson og hluthafar þess komu til liðs við  hið nýja félag.

Samið var um smíði á 59 tonna bát hjá M. Bernharðssyni á Ísafirði og var hann afhentur í janúar 1957 og er greint frá því í frétt í Morgunblaðinu og þar segir m.a.

Á laugardaginn var hleypt af stokkunum  í skipasmíðastöð M. Bernharðssonar nýjum 59 lesta báti.  Hefur hann hlotið nafnið Páll Pálsson ÍS 101.


Vel útbúinn

Páll Pálsson er byggður úr eik, en vélarreisn og stýrishús úr stáli.  Í bátnum er 280 ha. Mannheim- díeselvél, vökvadrifin  línuvinda og þilfarsvinda, Simrad- dýptarmælir með asticútfærslu og öllum þeim öryggis og siglingatækjum sem nú eru notuð í fiskibáta.

Þægilegar vistarverur
Mannaíbúðir eru mjög rúmgóðar og vistlegar,  Eru þær allar klæddar með plastplötum.  Er þetta fyrsti báturinn hér sem þannig er gengið frá.  (Morgunblaðið 23. janúar 1957, )



Páll Pálsson ÍS 101 á leið á síldveiðar árið 1957 (myndasafn H-G)


Skipstjóri á Páli Pálssyni var Jóakim Pálsson eins og á hinum tveimur sem á undan voru.  Um vorið 1957 birtist viðtal við Jóakim í Morgunblaðinu og m.a. spurt  hvort  þessi stærð báta  væri heppileg.  Hann sagðist telja að reynslan hafi sýnt að svo væri og oft þyrfti að sækja langt.  Síðan sagði hann orðrétt:

Með stækkandi skipum koma fleiri róðrar.  Ef ekki hefðu verið hér í vetur stærri og betri bátar en voru fyrir 10 árum, þá hefði orðið hér lítið um sjóróðra og skapast hér almennt atvinnuleysi, en fyrir stækkaða báta og þar af leiðandi meiri sjósókn hefur verið hér nokkuð sæmileg atvinna.  Veldur þar einnig nokkru að þegar lítill fiskur berst á land er farið að vinna fiskinn í minni pakkningar, sem skapar einnig aukna atvinnu fyrir landverkafólk.  (Morgunblaðið 25. apríl 1957, bls. 9)

Þrátt fyrir ógæftir á fyrstu vertíðinni aflaði hann um 370 tonn, en hann hóf ekki róðra fyrr en í endaðan janúar.

Báturinn þjónaði Hnífsdælingum til ársins 1962 þegar hann var seldur og stærri bátur keyptur í staðinn. 


 

Bátarnir stunduðu síldveiðar á sumrin og voru stundum vel hlaðnir.

 

Fjórði Páll Pálsson var 100 tonna stálbátur

Útgerðarfélagið Katlar hf. í Hnífsdal lét smíða 100 tonna vélbát eftir teikningu Hjálmars Bárðarsonar í Austur-Þýskalandi og kom hann til landsins síðla árs 1960 og fékk nafnið Vinur ÍS 102.  Félagið var m.a. í eigu Páls Pálssonar skipstjóra og Hraðfrystihússins hf í Hnífsdal.  Páll var bróðir Jóakims Pálssonar og hafði um árabil verið skipstjóri á nýsköpunartogaranum Sólborgu frá Ísafirði en söðlaði nú um og hóf bátaútgerð.  Í lok árs 1962 ákváðu aðrir hluthafar í  Kötlum  en Hraðfrystihúsið hf.  selja sinn hlut og varð niðurstaðan sú að hluthafar í Ver hf. keyptu aðra hluthafa út og eldri  Páll Pálsson  var seldur, en nafni Vinar breytt í Páll Pálsson  ÍS 101.

Með stækkandi bátum jókst aflinn og sem dæmi um það aflaði Páll Pálsson árið 1964 rúmlega tvö þúsund tonn,  var á línu og netum á vertíðinni með 717 tonn, fór á síldveiðar fyrir Norðurlandi um sumarið og aflaði um 1300 tonn og réri með línu á haustvertíð og aflaði um 120 tonn eða ríflega 2.100 tonn alls á árinu.   Áður voru minni bátarnir yfirleitt með ríflega þúsund tonna afla yfir árið.

Páll Pálsson ÍS 101 á landleið með góðan afla.  (Myndasafn H-G)

Páll Pálsson var gerður út frá Hnífsdal til ársins 1966, en síðan frá Vestmannaeyjum um sinn þar til hann var seldur árið 1967. 

Verður þá nokkura ára hlé á skipsnafninu Páll Pálsson í Hnífsdal, en Miðfell hf. hafði látið smíða fyrir sig 264 tonna stálbát í Austur-Þýskalandi sem kom til landsins árið 1965 og hlaut nafnið Guðrún Guðleifsdóttir ÍS 102.   Eins og margir bátar af þeirri gerð hóf hún togveiðar eftir að síldveiðar brugðust árið 1968 og reyndist vel.     

Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS 102

Togveiðar bátanna gengu ágætlega eftir að síldin hvarf, en augljóst var samt að þessir bátar voru ekki hentugustu skipin til þeirra veiða.  Hnífsdælingar eins og aðrir Vestfirðingar hófu að kanna með hagkvæmari skip, en fylgdu samt ekki öðrum útgerðum á norðanverðum Vestfjörðum, sem sömdu um smíði fimm togara í Noregi.   Ekki var auðvelt að fjármagna kaup slíks skips og var Útvegsbankinn tregur til að aðstoða við þau.  Er til skondin saga af því þegar Einar Steindórsson framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins  hf. og Jóakim Pálsson stjórnarformaður fóru á fund aðalbankastjóra Útvegsbankans til að falast eftir fyrirgreiðslu.  Hann tók þeim frekar þurr á manninn og fór svo að Einar sagði af sinni alkunnu góðmennsku,  „Herra bankastjóri, ég sé að það liggur illa á yður í dag,  við komum bara aftur á morgun.“.

Á aðalfundi  Hraðfrystihússins hf. í árslok 1971 greindi Jóakim Pálsson frá því að keyptur yrði 500 tonna skuttogari frá Japan í gegnum Asíufélagið  og verð hans væri áætlað 102,5 milljónir króna og  Miðfell hf. kaupandinn, en Hraðfrystihúsið var langstærsti eigandi þess.  Ákveðið var að Guðrún Guðleifsdóttir yrði seld og var hún afhent nýjum eigendum á Suðureyri 1. október 1972.

Undir lok árs 1972 hélt áhöfn nýja togarans ásamt útgerðarstjóra til Japan að sækja hið nýja skip. Brá þeim nokkuð í brún, því þeim fannst mikið verk eftir óunnið við smíði skipsins.  Töldu þeir  að afhendingartíminn myndi ekki standast, en  rösklega var unnið í skipasmíðastöðinni.  Sagt var kannski í gamni að þegar spurt var um ýmsar beygjur á rörum í vélarúminu var skýringin sú að einhver starfsmaður hafi verið að vinna á fjórum fótum og þá var sett beygja á næsta rör og það lagt yfir hann.  Nýr Páll Pálsson lagði af stað upp úr áramótum 1973 frá Japan og eftir um eins og hálfs mánaðar siglingu kom hann til heimahafnar í Hnífsdal 21. febrúar.   

Skuttogarinn Páll Pálsson (5) á veiðum (myndasafn H-G)

Jóakim Pálsson útgerðarstjóri skipsins var inntur  eftir því í Morgunblaðinu í byrjun janúar hvers vegna þeir væru að kaupa togara svaraði hann að þeir hafi frétt að nágrannar þeirra væru að skipta um skip og  til að standast samkeppnina um góðan mannskap þyrfti að fá svona skip.    Blaðamaður segir að ekki sé nú hægt að leggja góðum bátum þó aðrir fái sér betri. 

Það segi ég ekki, segir Jóakim með áherslu, en hitt er að Vestfirðingar búa við erfiða sjósókn og harðan vetur.  Að öðrum Íslendingum ólöstuðum hafa Vestfirðingar mest brúk fyrir góð fiskiskip á sínum torsóttu og gjöfulu fiskimiðum.  Sjómennirnir okkar eru harðsæknir og duglegir og eiga allt gott skilið á sjó. (Morgunblaðið, 6. janúar 1973, bls. 12)

Það var mikil bylting  í sjósókn þegar skuttogararnir komu fyrst í byrjun áttunda áratugar síðustu aldar og viðbrigðin mikil hjá sjómönnunum að koma af  250 tonna skipunum, sem upphaflega voru byggð til nóta- og netaveiða, en reyndust samt ágætlega sem togskip eftir að síldin hvarf.

Í fyrrnefndu viðtali var Jóakim spurður hvernig honum lítist á nýja Pál, sem þá var fullsmíðaður í skipasmíðastöðinni í Japan sagði  hann orðrétt.

Ja, ég verð að segja, að hann stendur framar öllum mínum vonum, og ég vona að hann eigi eftir að bera af öðrum skipum.  Skipstjórinn okkar, Guðjón Kristjánsson, segist ekki hafa getað gert sér í hugarlund fyrirfram, hvílík skip þetta voru.  Og hraðinn við smíðarnar er slíkur, að Guðjón taldi af og frá þegar hann kom hingað til Muroran 12. desember að skipinu yrði lokið á tilsettum tíma nú um áramótin.  (Morgunblaðið, 6. janúar 1973, bls. 12)

 

Páll Pálsson (5) eftir breytingar í Póllandi 1988

Þrátt fyrir að Páll væri nýtískulegur þegar hann kom til landsins var ákveðið eftir 15 ára rekstur að laga hann að kröfum samtímans, en á þeim árum voru miklar takmarkanir á að láta byggja ný skip.  Var því ákveðið að fara í miklar breytingar á skipinu og samið við skipasmíðastöð í Gdansk í Póllandi.  Skipið var lengt um 10 metra, sett ný brú, tæki endurnýjuð og skipt um aðalvél og framdrifsbúnað.   

Skipið hefur alla tíð verið aflasælt og bar að landi á rúmum 44 árum, sem það var gert út frá Hnífsdal, um 183 þúsund og má áætla að aflaverðmætið miðað við verðlag ársins 2016 hafi verið  um 45 milljarðar króna.

Skuttogarinn Páll Pálsson var seldur Vinnslustöðinni hf. í Vestmannaeyjum í júni árið 2017 og ber nú nafnið Sindri VE 60.    

 

Sjötti Páll Pálsson bætist í flotann

Laugardaginn 5. maí 2018 kom sjötta skipið, sem ber nafnið Páll Pálsson, til hafnar á Ísafirði. 

Á vordögum  árið 2014 samdi Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf.  við Huanghai skipasmíðastöðina í Shidao í Kína um smíði á skuttogara eftir hönnun Skipasýnar ehf. eftir ítarlega þarfagreiningu starfsmanna félagsins.   Smíði skipsins hófst í apríl 2015 og var sjósett árið síðar. 

Við hönnun skipsins var lögð megináhersla á eftirfarandi:

-          Í fyrsta lagi að aðstaða til vinnslu afla væri sem best til að tryggja gæði hráefnisins og nýtingu alls afla, þ.m.t. aukahráefnis s.s. lifrar og slógs.

-          Í annan stað var lögð sérstök áhersla á orkusparnað við hönnun skrokksins og við val á framdrifsbúnaði, auk þess sem togvindur verða rafdrifnar.

Vegna nýstárlegrar hönnunar á skrokk skipsins og mun stærri skrúfu heldur en nú tíðkast á þessari stærð skipa, er áætlað að veiðigeta þess verði 60% meiri en eldra skips án  þess að eyða meiri olíu. Skipið er búið  þremur rafdrifnum togvindum og getur því dregið tvö troll samtímis.

Skipið er smíðað úr stáli samkvæmt reglum og undir eftirliti Loyds flokkunarfélagsins í flokki +100 A1 og ísklassa 1C

 

 

      Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS 102  (6) á siglingu frá Kína í apríl 2018


Stærð og búnaður

Mesta lengd                                           51,3 m

Lengd milli lóðlina                             49,1 m

Breidd                                                    12,8 m

Dýpt að efra þilfari                                  8,1 m

Dýpt að neðra þilfari                           5,6 m

Brúttótonn                                             1223

Lest skipsins tekur 520 kör sem rúma um 150 tonn

Olíugeymar eru 186 rúmmetrar og ferksvatnsgeymar  102 rúmmetrar

Hámarks ganghraði  er 14,5 hnútar

Íbúðir eru fyrir 18 manns þar af 12 eins manns klefar.

Aðalvél skipsins er MAN og er 1.795 kw. við 800 sn.

Rafall er á aðalvél og auk þess tvær Caterpillar ljósavélar.

Gír er frá Reintjes og skrúfa frá MAN.

Togkraftur er rúm 50 tonn.

Vindur eru allar rafdrifnar af gerðinni  Ibercisa og samanstanda af þremur 28,3 tonna  togvindum auk 26 hjálparvinda.

Siglingar- og fiskleitartæki eru frá Brimrún ehf

Búnaður á millidekki og í lest er frá 3X Technology á Ísafirði