Tíðindi

föstudagurinn 26. febrúar 2010

Skip án veiðarfæra landar mestum þorski á Vestfjörðum

Það sem af er yfirstandandi fiskveiðiári hefur ekkert skip landað jafn miklu af þorski á Vestfjörðum og brunnbáturinn Papey eða 1044 tonn. Það sem greinir þetta „fengsæla" skip frá öðrum sem landa hér um slóðir er sú staðreynd að það er veiðarfæralaust með öllu. Allur afli þess er nefnilega sóttur í þorskeldiskvíar Hraðfrystihúsins - Gunnvarar hf. Aflanum hefur verið landað lifandi úr brunn bátsins í Súðavík þar sem hann er slægður og síðan unninn í landvinnslu félagsins í Hnífsdal og á Ísafirði.

Papey gegnir mikilvægu hlutverki í þorskeldi H-G, m.a.í flokkun og flutningi á smáum og stórum fiski svo og í allri slátrun. Venjulega er fiskurinn sóttur í kvíarnar daginn fyrir slátrun og morguninn eftir er honum dælt lifandi beint inn í aðgerðaraðstöðu fyrirtækisins í Súðavík.


H-G hafði verið með brunnbátinn Papey á leigu frá HB Granda hf. í nokkur ár áður en ráðist var í að kaupa hann í fyrra. Gott samstarf hefur verið á milli þessara fyrirtækja um árabil. Þannig hefur Papey annast flutning seiða á milli landshluta, bæði í Ísafjarðardjúpi og á Berufirði. Þá fór Papey í haust þrjár ferðir til Tálknafjarðar og sótti regnbogasilung til útsetningar í sjókvíar í Dýrafirði en þar stundar Dýrfiskur eldi á regnbogasilungi. Yfirleitt eru 4 í áhöfn Papeyjar.

föstudagurinn 8. janúar 2010

Góður gangur á árinu 2009, met í aflaverðmæti

Aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf á árinu 2009 var 2.840 milljónir króna og jókst um 26 % á milli ára, þar af voru laun og launatengd gjöld kr. 1.060 milljónir eða 38% af aflaverðmæti árisins.

Útgerð skipa félagsins gekk vel á árinu og engar frátafir urðu vegna bilana.

Fagnað var þeim tímamótum að 20 ár voru síðan Júlús Geirmundsson kom fyrst til bæjarins, Júlíus var frá veiðum í mánuð vegna slipptöku þar sem skipið var málað hátt og lágt auk þess sem vél og gír fengu 20 ára yfirferð.

Páll Pálsson stoppaði í tvær vikur vegna hefðbundinna sumarleyfa í landvinnslu félagsins.

Stefnir var á veiðum allt árið.


Afli skipa

2009 2009
2008
Júlíus Geirmundsson
3.933 tonn 1.276 mill. 1.084 mill.
Páll Pálsson
4.438 tonn 790 mill. 628 mill.
Stefnir
3.500 tonn 773 mill. 543 mill.
Alls. 11.871 tonn 2.840 mill. 2.255 mill.

Í upphafi árs gætir hins vegar nokkrar óvissu, úthlutaður aflaheimildir eru rúmlega 1.400 tonnum minni í botnfiski en á síðasta fiskveiðiári, auk þess sem boðuð upptökuleið stjórnvalda í formi fyrningar vofir yfir sjávarbyggðunum.
mánudagurinn 28. desember 2009

Eldisþorskur fimmtungur alls hráefnis í vinnslu hjá H-G í ár

Allt stefnir í að unnið verði úr rúmlega 5.100 tonnum af hráefni í landvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. í Hnífsdal og á Ísafirði á þessu ári. Athygli vekur að fimmtungur hráefnisins kemur úr þorskeldi, sem fyrirtækið hefur stundað undanfarin ár. Þetta hlutfall hefur að sögn Einars Vals Kristjánssonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins, aldrei verið hærra.

„Þetta er að sjálfsögðu ánægjulegur áfangi því eldisþorskurinn hefur staðið undir fimmta hverjum vinnudegi hjá okkur. Þá er það ekki síður ánægjulegt frá okkar bæjardyrum séð, að ekki hefur fallið niður dagur í landvinnslunni á árinu sem er að líða," segir Einar Valur. Hann segir að fara þurfi a.m.k. áratug aftur í tímann til að finna dæmi um meira magn hráefnis til vinnslunnar en á þessu ári.


Góður árangur í þorskeldinu nægir þó engan veginn til þess að vega upp boðaðan niðurskurð í veiðiheimildum á bolfiski á yfirstandandi fiskveiðiári. Einar Valur segir að samkvæmt útgefnum kvóta muni veiðiheimildir fyrirtækisins verða um 1400 tonnum minni á þessu fiskveiðiári en á því síðasta.


„Ofan á þá óvissu sem þessari skerðingu fylgir bætist nú óvissan í sjávarbyggðum landsins vegna áforma ríkisstjórnarinnar um svokallaða fyrningarleið í sjávarútvegi. Samkvæmt þeim hugmyndum á að fyrna aflaheimildir um 5% á ári og áætlað er að hefja þær aðgerðir þann 1. september næstkomandi," segir Einar Valur.

mánudagurinn 28. desember 2009

Ólympíufarinn Héðinn lýkur störfum hjá H-G

Ólympíufarinn Héðinn Ólafsson lauk gifturíkum starfsferli sínum hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf. á Þorláksmessu. Í árlegri skötuveislu starfsmanna fyrirtækisins voru honum þökkuð vel unnin störf um leið og hann var kvaddur.

Héðinn er fæddur og uppalinn á Garðsstöðum í Ísafjarðardjúpi, einn 14 systkina. Hann hóf störf hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga fyrir aldarfjórðungi en lætur nú gott heita - þar sem hann er orðinn „löggiltur" eins og sagt er - og hyggst einbeita sér að því að njóta lífsins með sinni heittelskuðu.


Héðinn er einn fárra starfsmanna H-G sem hafa orðið þess heiðurs aðnjótandi að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikum. Hann hefur lagt stund á boccia-íþróttina með Íþróttafélaginu Ívari á Ísafirði svo lengi sem elstu menn muna og náð framúrskarandi árangri í greininni.

mánudagurinn 28. desember 2009

Andvirði jólagjafa og -korta til líknar- og íþróttamála

Sá siður hefur skapast hjá Hraðfrystihúsinu-Gunnvöru hf. á undanförnum árum að sleppa jólagjöfum til starfsmanna og senda ekki út jólakort en verja þess í stað fé til góðra málefna. Að þessu sinni var ákveðið að láta framlagið renna til líknar- og íþróttamála.

„Við höfum haft þennan háttinn á undanfarin ár og það hefur mælst mjög vel fyrir hjá starfsfólkinu. Okkur finnst þetta góð hefð í anda þess boðskapar sem jólahátíðin grundvallast á," segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf.


H-G lét á síðasta ári fé af hendi rakna til hálparstarfs á vegum Ísafjarðarkirkju og árið á undan naut Vesturafl, miðstöð fyrir fólk sem býr við skert lífsgæði, peningagjafar frá HG.