Tíðindi

fimmtudagurinn 4. júní 2020

Langþráð fiskeldisleyfi í Ísafjarðardjúpi

Háafell ehf fékk í byrjun mánaðar afhent starfs og rekstrarleyfi fyrir framleiðslu á regnbogasilungi og þorski í Ísafjarðardjúpi með hámarkslífmassa uppá 7.000 tonn. Þetta er langþráð stund því leyfismál í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi hafa gengið afar hægt á undanförnum árum.

Háafell hefur stundað fiskeldi á þorski og regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi frá árinu 2002. Í lok árs 2011 var tilkynning send til stjórnvalda vegna stækkunar á fyrri leyfum uppí 7.000 tonna framleiðslu á regnbogasilungi, laxi og þorski. Allar götur síðan, eða í tæplega 9 ár, hefur umsóknarferlið staðið yfir og verið vægast sagt hlykkjótt. Allan tíman hefur þó verið full framleiðsla í seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri og í vetur voru gefin út rýmri starfs og rekstrarleyfi þar fyrir allt að 800 tonna framleiðslu.

Það er því mjög ánægjulegt að þessum áfanga sé náð með útgáfu leyfa, bæði fyrir Nauteyri og nú í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Enn á þó eftir að afgreiða laxeldisumsókn Háafells í ljósi nýs áhættumats fyrir Ísafjarðardjúp en vonir standa til að hún klárist á næstunni.

Í lok júní er gert ráð fyrir því að setja fyrsta árgang af regnbogasilungsseiðum, frá seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri, í sjókvíar í Álftafirði. Þar með hefst nýr kafli í sögu fiskeldis við Ísafjarðardjúp.

 

miðvikudagurinn 1. apríl 2020

Aflasælir bræður

Snemma sunnudagsmorguninn 29. mars komu togararnir Páll Pálsson ÍS 102 og Júlíus Geirmundsson ÍS 270 til hafnar á Ísafirði og bæði skipin með góðan afla   Páll með um 90 tonn af þorski eftir stutta veiðiferð á miðin fyrir Norðurlandi. Júlíus með góðan afla að verðmæti 260 milljónir króna  eftir 30 daga  veiðiferð og millilöndun í Reykjavík.  Það er sérstakt í þessu tilfelli  að skipstjórar  skipanna að þessu sinni voru bræðurnir Skarphéðinn Gíslason á Páli og Njáll Flóki Gíslason á Júlíusi. 

mánudagurinn 30. mars 2020

Hafsjór af hugmyndum.

HG er þáttakandi í nýsköpunarkeppninni Hafsjór af hugmyndum sem Sjávarútvegsklasi Vestfjarða stendur fyrir.  Markmiðið er að hvetja frumkvöðla, fyrirtæki og nemendur til nýsköpunar sem leitt getur af sér ný störf og aukinn virðisauka sjávarfangs á Vestfjörðum. Athygli er vakin á því að verkefnið er ekkert síður opið til styrktar lokaverkefna nema á háskólastigi. Vestfjarðastofa heldur utan um verkefnið fyrir hönd sjávarútvegsklasa Vestfjarða en verkefnið fékk einnig styrk frá Uppbyggingasjóði sem er hluti af Sóknaráætlun.

Frekari upplýsingar er að finna á hér.

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. rekur fiskvinnslu í Hnífsdal, lifrarvinnslu í Súðavík, gerir út tvo isfirsktogara og frystitogara, rækjubáta og er með fiskeldisstarfsemi.

Hér að  neðan er kynningarmyndband af starfsemi HG:

mánudagurinn 13. janúar 2020

Afli og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., árið 2019.

Á árinu 2019 öfluðu skip félagsins 19.263 tonna að verðmæti 4.648 milljóna króna. Aflatölur eru miðaðar við afla uppúr sjó, ólægðan afla.

 

  2019 2019
  Tonn Milljónir
Samtals 19.263 4.648
Júlíus Geirmundsson 6.616 2.199
Páll Pálsson  7.162 1.344
Stefnir 5.317 1.051
Valur, innfjarðarrækja. 168 54
þriðjudagurinn 31. desember 2019

Áramótakveðja framkvæmdastjóra

Áramótakveðja framkvæmdastjóra

Á árinu sem er að líða hefur rekstur og starfsemi Hraðfrystihússins-Gunnvarar  gengið vel.

Staða eldismála

Á árinu fékk Háafell, dótturfélag HG, útgefið stækkað leyfi fyrir seiðaeldisstöð félagsins á Nauteyri við Ísafjarðardjúp en þar hafa verið framleidd heilbrigð laxa- og regnbogasilungsseiði um árabil. Eins hafa leyfi fyrir regnbogasilungseldi í sjókvíum verið auglýst. Eru þetta jákvæð skref í uppbyggingaráformum Háafells í fiskeldi í Ísafjarðardjúpi.

Ríflega átta ár eru síðan áform um laxeldi Háafells voru fyrst kynnt stjórnsýslunni. Ennþá ríkir þó fullkomin óvissa um fyrirkomulag laxeldis við Ísafjarðardjúp. Það skýtur skökku við að það sé Háafell, eina alíslenska fyrirtækið sem hefur gildar umsóknir í laxeldi, sem situr uppi með algjöra óvissu um hvenær uppbygging getur hafist, á meðan öðrum fyrirtækjum hefur verið gert kleift að byggja sig upp á öðrum svæðum.

Ekki virðist skipta máli hve oft sól stendur hæst á lofti við Djúp, ekki bólar enn á nýju áhættumati sem þó hefur verið boðað trekk í trekk af hendi Hafrannsóknastofnunar. Enn sitja því fyrirtæki og samfélög við Djúp eftir í óvissu, á svæði sem hefur verið skilgreint sem fiskeldissvæði. Stjórnvöld bera ábyrgð á að leyfisveitingar séu byggðar á bestu vísindum og mótvægisaðgerðum. Miðað við reynslu okkar undanfarin misseri og ár hefur stjórnvöldum mistekist algjörlega að uppfylla þetta hlutverk sitt. Það er hinsvegar von mín að á nýju ári sjái menn að sér og tryggi að hægt verði að hefja langþráða uppbyggingu laxeldis við Ísafjarðardjúp af fullum krafti.

Sjávarútvegur í forystu í umhverfismálum

Umhverfismál skipa sífellt stærri sess í rekstri fyrirtækja og ekki síst  í sjávarútvegi. Heilbrigt haf er allra hagur. Plast í hafi, súrnun sjávar og hlýnun eru aðkallandi áskoranir sem bregðast verður við. Sem betur fer hefur orðið mikil vitundarvakning um umhverfismálin og hefur íslenskur sjávarútvegur lagt sig fram um að vera í forystu í þeim efnum. Sem dæmi má nefna að um 1.100 tonn af veiðarfærum eru endurunnin á ári.  Frá árinu 1995 hefur CO2 losun  í sjávarútvegi dregist saman um 48% á sama tíma og CO2 losun frá íslenska hagkerfinu hefur tvöfaldast. Slíkur árangur hefur náðst vegna mikilla fjárfestinga í greininni, meðal annars í sparneytnari skipum eins og til að mynda nýja Páli Pálssyni, sem og með hagkvæmu kvótakerfi sem stuðlað hefur að skynsamlegri nýtingu sjávarauðlindarinnar.

Veiðar, vinnsla og markaðir

Veiðar og vinnsla hafa gengið vel, svo og sala afurða samfara jákvæðri þróun afurðaverðs. Togarar fyrirtækisins, Júlíus Geirmundsson, Páll Pálsson og Stefnir hafa allir aflað vel  og Valur gerði það gott í innfjarðarrækjunni. Það sem þó er mest um vert er að árið hefur verið áfallalaust bæði til sjós og lands .

Núverandi og fyrrverandi starfsmönnum okkar þakka ég samfylgdina á árinu sem er að líða og óska  þeim og landsmönnum öllum velfarnaðar á nýju ári.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf.