Í tilefni af sjómannadeginum vill Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. óska sjómönnum og fjölskyldum þeirra innilega til hamingju með daginn.
Í gær var nýtt eldissvæði Háafells við Bæjahlíð í Ísafjarðardjúpi tekið í notkun. Það var áhöfnin á Papey ÍS, brunnbáti Háafells, sem flutti regnbogasilungsseiði frá seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri út í nýja eldissvæðið.
Barði Ingibjartsson er skipstjóri á Papey ÍS: „Þetta hefur bara gengið mjög vel, þetta er öflugur búnaður sem er búið að setja út hérna og spennandi að taka nýtt svæði í notkun. Þetta verða fimm ferðir hjá okkur núna á Papey að þessu sinni og svo verður annar hópur fluttur í kvíarnar seinna í sumar.“
Háafell er með 7.000 tonna regnbogasilungsleyfi og er nú þegar með fisk í sjó í Álftafirði sem verður slátrað í haust. Í vor voru ráðnir þrír nýjir starfsmenn til viðbótar í sjókvíaeldissdeild fyrirtækisins til þess að sjá um eldissvæðið við Bæjahlíð. Snemma næsta vor er svo áætlað að hefja laxeldi í eldissvæði Háafells í Skötufirði og er sá árgangur af laxi byrjaður að klekjast út í eldisstöðinni á Nauteyri og verður sá fiskur klár til útsetningar snemma í maí 2022.
Síðustu mánuðir hafa verið annasamir hjá starfsmönnum Háafells, dótturfélagi Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. Leyfismál hafa verið að þokast í rétta átt en haustið 2018 fékk Háafell starfs-og rekstrarleyfi fyrir stækkun seiðaeldisstöðvar sinnar á Nauteyri úr 200 tonna lífmassa á ári í 800 tonna lífmassa á ári. Í júní 2020 var svo gefið út að nýju leyfi fyrir eldi á regnbogasilungi í Ísafjarðardjúpi. Þessa dagana er verið að auglýsa hjá MAST og UST tillögu að starfs og rekstrarleyfum fyrir 6.800 tonna eldi á laxi og er reiknað með að setja fyrstu laxaseiðin út í Skötufjörð vorið 2022. Það sér því loks fyrir endann á um 10 ára löngu og ströngu umsóknarferli til þess að geta alið lax og regnbogasilung í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells.
Á Nauteyri er starfrækt seiðaeldisstöð Háafells og þar hefur verið unnið að því að auka afkastagetu stöðvarinnar og bæta tækjakost sem skilar sér í aukinni velferð fyrir fiskinn og betri vinnuaðstöðu fyrir starfsmenn. Vestfirskir verktakar hafa auk þess verið að reisa fóður- og vélaskemmu og nú nýlega hófst uppsetning á fjórum nýjum eldiskerjum í öðru eldishúsanna sem koma í stað fjölda eldri og smærri kerja.
Á Suðurtanga á Ísafirði hafa að undanförnu verið starfsmenn frá færeyska fyrirtækinu KJ Hydraulics að setja saman kvíar sem fara eiga á nýtt eldissvæði Háafells innan við Æðey í apríl. Um er að ræða þrjár 160 metra kvíar (ummál) en í þær verður settur regnbogasilungur frá seiðastöðinni á Nauteyri. Á Mávagarði eru festingar fyrir kvíarnar en Sjótækni mun setja þær festingar út og stilla af þegar veður leyfir. Auknum umsvifum og nýju eldissvæði fylgir aukin mannaflaþörf og hefur Háafell því auglýst eftir fleira starfsfólki.
Einar Valur Kristjánsson er framkvæmdastjóri Háafells: „Það er virkilega gleðilegt að nú um 10 árum frá fyrstu umsókn okkar séu hlutirnir loksins að gerast. Háafell hefur alla tíð lagt höfuðáherslu á að fara varlega í sakirnar og byggja þessa nýju atvinnugrein uppá bestu fáanlegu þekkingu og vísindum eins og umhverfismatsferli okkar ber merki um. Móðurfélag Háafells, Hraðfrystihúsið- Gunnvör hf. er búið að starfa hér við Ísafjarðardjúp í 80 ár og hyggst gera það áfram, eldið er einn liður í því og jafnframt aukum við verðmætasköpunina á svæðinu og fyrir þjóðarbúið, en það er ekki vanþörf á því þessa dagana. Heilt yfir erum við spennt fyrir verkefninu og eru starfsmenn okkar á fullu við að skipuleggja frekari framkvæmdir.“
Ný eldisker á Nauteyri
Ný fóður- og vélaskemma
Nýjar sjókvíar sjósettar á Suðurtanga
Hraðfrystihúsið hf. í Hnífsdal var stofnað fyrir áttatíu árum, 19. janúar 1941. Stofnendur voru 19 talsins. Á fjórða áratug síðustu aldar lokuðust saltfiskmarkaðir á Spáni vegna borgarastyrjaldar, en þeir höfðu verið mikilvægir fyrir íslenskan sjávarútveg. Á þeim tíma fór hraðfrysting sjávarafurða að ryðja sér til rúms og vildu Hnífsdælingar taka þátt í því og tóku útgerðarmenn sig því saman um að setja á fót frystihús. Strax eftir stofnun félagsins var farið að huga að byggingu frystihúss í Skeljavík nokkuð innan við byggðina í Hnífsdal og um ári síðar var byrjað að taka á móti fisk til vinnslu. Bátarnir stækkuðu í áranna rás, síðar kom skuttogari og húsakostur og framleiðsla jukust í samræmi við það.
Eftir sameiningar sjávarútvegsfyrirtækja á Vestfjörðum á tíunda áratug síðustu aldar sameinuðust Hraðfrystihúsið hf og Gunnvör hf á Ísafirði ásamt dótturfélögum þeirra árið 1999 undir nafninu Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf.
Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf gerir í dag út þrjá skuttogara og einn rækjubát, er með fiskvinnslu í Hnífsdal og niðursuðuverksmiðju í Súðavík. Um 160 stöðugildi eru hjá fyrirtækinu og það hefur notið þess að hafa alla tíð haft trausta starfsmenn bæði til sjós og lands. Margir þeirra eru og hafa verið með langan starfsaldur. Aflamark félagsins er rúm ellefu þúsund þorskígildi og hefur velta félagsins verið um 6 milljarðar króna síðustu árin
Háafell ehf, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, stundar nú eldi á regnbogasilungi í kvíum í Ísafjarðardjúpi og hefur leyfi til að framleiða um sjö þúsund tonn á ári. Nú nýverið birti Skipulagsstofnun jákvætt álit um breytingu þessa leyfis yfir í eldi á laxi. Því eru starfs- og rekstrarleyfi á nánast sömu staðsetningum og núverandi regnbogasilungsleyfi í vinnslu hjá MAST og UST. Auk þess er Háafell með seiðaeldisstöð á Nauteyri í Ísafjarðardjúpi og rekur tvö þjónustuskip fyrir eldið ásamt þjónustumiðstöð fyrir sjókvíaeldið í Súðavík.
Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf, óskar núverandi og fyrrverandi starfsfólki sínu, fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum svo og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.