Tíðindi

miðvikudagurinn 11. janúar 2017

Afli og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, 2016.

Á árinu 2016 öfluðu skip Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, 12.114 tonna að verðmæti 3.131 milljóna króna samanborið við 14.054 tonna afla að verðmæti 4.084 milljónir króna árið 2015.

Þetta er 13,8% minni í afli og 23,3% minna aflaverðmæti. Þessa minnkun á afla og aflaverðmæta má einkum rekja til þess að allir togarar fyrirtækisins fóru í slipp á árinu, mikillar styrkingar krónunnar og áhrif verkfalls sjómanna á seinni hluta ársins.

Valur og Örn stunduðu rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og öfluðu ágætlega.

Almennt var verðþróun sjávarfangs jákvæð.

Aflabrögð ársins 2016 voru almennt  góð sem þakka má skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar sem leitt hefur til hagkvæmari sóknar.


 

2016

2016

2015

2014

 

 Tonn

Milljónir

Milljónir

Milljónir

         

Júlíus Geirmundsson

         4.244    

         1.467    

         1.901    

         1.435   

Páll Pálsson

         4.359    

           869    

         1.252    

           953    

Stefnir

         3.274    

           719    

           844    

           737    

Valur og Örn

            237    

             76    

             87    

           123    

Samtals

       12.114    

         3.131    

         4.084    

        3.248    

fimmtudagurinn 22. desember 2016

Gleðileg jól.

 

HG óskar starfsfólki sínu og fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.

Árleg skötuveisla starfsfólks HG verður á sínum stað í kaffistofu fyrirtækisins við Hnífsdalsbryggju á Þorláksmessu kl. 12:00. Jafnframt er fyrrum starfsmönnum sem og vinum og velunnurum HG boðið til skötuveislunnar. Skatan er verkuð af Lionsmönnum á Ísafirði og lofar góðu samkvæmt áreiðanlegum heimildum. 

þriðjudagurinn 15. mars 2016

Stefnir ÍS 28 er fertugur

Fjörutíu ár eru í dag, 16. mars 2016,  síðan skuttogarinn Stefnir ÍS 28, áður Gyllir ÍS 261, kom til landsins nýsmíðaður frá Noregi. Útgerðarfélag Flateyrar lét smíða togarann í Flekkefjord í Noregi og er hann 50 metra langur og mælist 431 tonn brúttó. Árið 1971 sömdu vestfirsk útgerðarfélög um smíði fimm skuttogara í Noregi og komu þeir til landsins á árunum 1972 til 1974, Júlíus Geirmundsson, Guðbjartur, Framnes, Bessi og Guðbjörg.   Skipin voru öll af sömu gerð, en Guðbjörg var á smíðatímanum lengd um rúma þrjá metra.  Þessi skip reyndust afar vel, voru vel útbúin og um árabil uppistaðan í vestfirska togaraflotanum. Í dagblaðinu Tímanum segir m.a. svo frá komu Gyllis. 

Til gamans má geta þess að skipið er að grunni eins og togarinn Guðbjörg á Ísafirði og er sagt að upprunalega pöntunin hafi verið „Eitt stykki Guðbjörg, takk.“  Síðan var pöntunin að sjálfsögðu útfærð nánar.  (Tíminn, 17. mars 1976)

Árið 1993 gekk Þorfinnur hf., sem var í eigu Íshúsfélags Ísfirðinga hf. og Flateyrarhrepps inn í kaupsamning um Gylli ÍS 261 ásamt veiðiheimildum og í framhaldi af því var nafni hans breytt í Stefnir ÍS 28.  Var hann gerður út af Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. næstu árin og síðan af Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf. eftir sameiningu félaganna árið 2000.   Skipinu hefur alla tíð verið haldið vel við og þess má geta að upphaflega aðalvélin er enn í því.  Á síðastliðnu ári aflaði Stefnir ÍS  um 3.400 tonna að verðmæti 844 milljónir króna. Skipstjóri á Stefni er Pétur Birgisson.

þriðjudagurinn 19. janúar 2016

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf 75 ára

Í dag 19. janúar 2016 eru 75 ár liðin frá stofnun Hraðfrystihússins hf. í Hnífdal.  Í bókinni Með háfjöll á aðra hönd og ólgandi haf á hina,  Sjötíu ára saga Hraðfrystihússins í Hnífsdal 1941-2011 segir m.a. svo:

Hraðfrystihúsið hf. stofnað

Hraðfrystihúsið hf. var stofnað 19. janúar árið 1941 og um þessar mundir eru því liðin sjötíu ár frá því að nokkrir Hnífsdælingar tóku sig saman um stofnun þess.  Fyrsti formlegi fundurinn, sem haldinn er um þetta mál var á skrifstofu Kaupfélags Hnífsdælinga þann 3. janúar 1941 og voru þar mættir 15 menn fyrir sjálfa sig og tvö útgerðarfélög.  Þremur mönnum, þeim Elíasi Ingimarssyni, Páli Pálssyni og Hirti Guðmundssyni var falið að semja uppkast að lögum fyrir félagið og boða til framhaldsstofnfundar.  Sá fundur var haldinn 19. janúar einnig á skrifstofu Kaupfélags Hnífsdælinga og voru þar mættir 17 menn fyrir 19 aðila og samþykkt voru lög í 20 greinum og kjörin stjórn félagsins.  Fyrstu stjórnina skipuðu  Páll Pálsson formaður, Elías Ingimarsson og Hjörtur Guðmundsson,  meðstjórnendur. Í varastjórn voru . Ingimar Finnbjörnsson, Jóakim Pálsson og Magnús Guðmundsson.   Þar með var Hraðfrystihúsið hf. Hnífsdal formlega stofnað og gat tekið til starfa. .

Um það leyti sem Hnífsdælingar byrja að huga að stofnun hraðfrystihúss birtist grein í Vesturlandi, blaði sjálfstæðismanna á Vestfjörðum, undir heitinu  Vestfjarða-annáll,  Frá Hnífsdælingum.   Þar segir að Hnífsdælingum hafi lengst af verið viðbrugðið fyrir sjósókn og aflasæld og það hafi haldist þrátt fyrir að útvegurinn hafi mikið dregist saman og Hnífsdalur megi nú fremur heita sveitaþorp en verstöð.  Einnig kemur fram að með

tilkomu  bryggjunnar í Skeljavík hafi útgerð Hnífsdælinga færst þangað inneftir og nú hafi Valdimar Þorvarðarson , stærsti fiskkaupmaður og atvinnurekandi í Hnífsdal, látið rífa tvö fiskhús og sótt um að fá þau sett upp á Ísafirði.  Síðan segir orðrétt:

Er því full ástæða til að ætla að vélbátaútgerð frá Ísafirði  fari enn vaxandi vegna aðflutnings báta úr nágrenninu, en Hnífsdalur verði að mestu leyti sveitaþorp.  Hefir þorpsbúum fækkað hægt en stöðugt undanfarin ár og flestir flutt sig til Ísafjarðar.  (Vesturland, 7. desember 1940)

Hnífsdælingar láta þessu ekki ósvarað og í Vesturlandi, sem kemur út sama dag og undirbúningsstofnfundurinn var haldinn birtist  grein eftir Elías Ingimarsson, einn af forvígismönnum stofnunar Hraðfrystihússins hf. og þar segir m.a.

Í greininni segir, að Hnífsdalur megi nú fremur heita sveitaþorp en verstöð.  Frá Hnífsdal eru nú gerðir út 5 landróðrabátar, 12 – 18 tonn, með 9 manna skipshöfn, auk þess hefir verið gerður út þaðan einn 50 tonna vélbátur tvö síðastl. sumur á síld. Þá eru ótaldir trillubátar og áraskektur.  Hygg ég að útgerð þessi standist samanburð við útgerð á Ísafirði, ef tekið er tillit til íbúatölu.  (Vesturland, 3. janúar 1941 bls. 3) 

Byggingaframkvæmdir hefjast

Stjórn félagsins lét hendur standa fram úr ermum og á fyrsta stjórnarfundi, sem haldinn var sama dag og stofnfundurinn, er samþykkt að fela Jóni Jónssyni trésmið frá Flateyri að annast innkaup á vélum og öðru efni, sem þyrfti til fyrirhugaðrar frystihúsabyggingar,.

Einnig var samþykkt  að Elías Ingimarsson sæi um daglegar framkvæmdir. Nokkru síðar  er greint frá því að keypt hafi verið tvö fiskverkunarhús við bryggjuna í Skeljavík af Einari Steindórssyni og Elíasi Ingimarssyni á kr. 10.000.    Farið var í að tengja þessi tvö hús saman og stækka og úr þeim var byggt vélahús, frystigeymsla, sem einangruð var með torfi frá Grunnavík, fiskimóttaka og vinnsluaðstaða.  Frystipressa og tilheyrandi kom frá Vélsmiðjunni Héðni og í september var húsið tilbúið eins og kemur fram í eftirfarandi greinarkorni í Vesturlandi:

Frétt í Vesturlandi 20. september 1941

Fyrsti starfsmaðurinn var ráðinn um mitt ár 1941 og var það Magnús Guðmundsson , sem sinnti vélstjórn  og vann einnig með starfsmönnum Vélsmiðjunnar Héðins við niðursetningu véla í frystihúsið.  Við lok ársins 1941 var  byggingarkostnaður orðinn 149 þúsund krónur og hafði fengist lánafyrirgreiðsla frá  Fiskveiðasjóði, Útvegsbankanum og Fiskimálanefnd til að fjármagna þann hluta, sem umfram var eigið fé félagsins .

Starfsemin fór þó rólega af stað og fyrsta árið er ekki keyptur fiskur, en lítilsháttar af beitu um haustið.   Í ársbyrjun 1942 var gengið frá ráðningu þriggja manna til viðbótar,    Elías Ingimarsson var ráðinn framkvæmdastjóri,   Ingimar Finnbjörnsson vélstjóri og Sigurður Baldvinsson verkstjóri.    

Rúmu ári eftir stofnun félagsins, eða í  febrúar árið 1942, er byrjað að taka á móti fiski til vinnslu og í byrjun apríl er fyrsta sala á frosnum fiski,  871 kassi af fiski og hrognum til

Fiskimálanefndar að verðmæti kr. 72.550.- 

föstudagurinn 8. janúar 2016

Afli og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, 2015.

Á árinu 2015 öfluðu skip Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, 14.054 tonna að verðmæti 4.084 milljóna króna samanborið við 12.277 tonna afla  að verðmæti 3.248 milljónir króna árið 2014. 

Þetta er 14,5% aukning í afla og 26% aukning í aflaverðmæti. Árið 2015 var því bæði metár í afla og aflaverðmæti.

Þessa aukningu í afla og aflaverðmæti má einkum rekja til þess að enginn togara fyrirtækisis fór í slipp á árinu, góðrar kvótastöðu um áramót og lítilsháttar aukningu í kvóta.

Valur og Örn stunduðu rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og öfluðu vel.

Almennt var verðþróun sjávarfangs jákvæð ef undan er skilin mikil lækkun á makríl afurðum. 

Aflabrögð ársins 2015 voru almennt mjög góð sem þakka má skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar sem leitt hefur til hagkvæmari sóknar.

Samtals. 14.054 tonn 4.084 mill. 3.248 mill.
Afli skipa
  2015 2015 2014
Júlíus Geirmundsson 4.919 tonn 1.901 mill. 1.435 mill.
Páll Pálsson 5.524 tonn 1.252 mill. 953 mill.
Stefnir 3.396 tonn 844 mill. 737 mill.
Valur og Örn 215 tonn 87 mill. 123 mill.

Togara félagsins héldu til veiða á nýju ári þann 2. janúar kl 14:00.