Tíðindi

fimmtudagurinn 4. janúar 2018

Slátrað upp úr síðustu kvínni

Morgunblaðið birti umfjöllun um fiskeldi HG 3 janúar. 

• Sextán ára sögu fiskeldis HG í Ísafjarðardjúpi lokið í bili • Stór og heilbrigð seiði tilbúin til útsetningar í vor en það strandar á leyfum •Stefnt að umhverfisvænu fiskeldi í Djúpinu

Miðvikudagur, 3. janúar 2018

 

Baksvið 
Helgi Bjarna­son
helgi@mbl.is

Háa­fell ehf., dótt­ur­fé­lag Hraðfrysti­húss­ins – Gunn­var­ar hf., er að slátra regn­bogasil­ungi upp úr síðustu sjókví sinni í Ísa­fjarðar­djúpi. Fyr­ir­tækið er til­búið með laxa­seiði til að setja út í vor en hef­ur ekki leyfi til þess. Útlit er því fyr­ir að eng­inn fisk­ur verði í sjókví­um fyr­ir­tæk­is­ins í Ísa­fjarðar­djúpi síðar í vet­ur, í fyrsta skipti síðan árið 2002.

„Staðan hjá okk­ur er sú að við erum að slátra upp úr sein­ustu regn­bogasil­ungskvínni og er áætlað að því verði lokið fljót­lega í fe­brú­ar. Sam­kvæmt áætl­un­um út frá lög­bundn­um af­greiðslu­tíma stofn­ana hefðum við átt að vera komn­ir út í sjókví­ar með lax en þar sem leyf­is­mál hafa dreg­ist úr hófi höf­um við ekki getað sett laxa­seiðin okk­ar frá Nauteyri út og þurf­um að selja útsæðið okk­ar í burtu,“ seg­ir Kristján G. Jóakims­son, fram­kvæmda­stjóri hjá HG og verk­efn­is­stjóri Háa­fells.

HG og Háa­fell hafa verið með fisk­eldi í Ísa­fjarðar­djúpi í að verða sex­tán ár, fyrst með eldi á þorski og síðan regn­bogasil­ungi. Starf­sem­in er grund­völluð á seiðaeld­is­stöð á Nauteyri, þjón­ustu­stöð í Súðavík og vinnslu á Ísaf­irði og í Hnífs­dal.

Fyr­ir­tækið hef­ur unnið að því að fá leyfi til lax­eld­is all­ar göt­ur frá ár­inu 2011, eða í rúm sex ár. Um­sókn­ir um leyfi til að færa sig úr regn­bogasil­ungi yfir í lax eru til af­greiðslu í stjórn­kerf­inu og enn eru ýmis ljón í veg­in­um.

Kristján seg­ir að það séu mik­il von­brigði að hafa ekki getað hafið lax­eldi fyrr. Helst megi skýra langt af­greiðslu­ferli um­sókna af tveim­ur þátt­um. Háa­fell hafi verið að ryðja braut­ina varðandi rann­sókn­ir í Ísa­fjarðar­djúpi og fengið á sig marg­ar kær­ur í ferl­inu. Þá hafi af­greiðslu­tími stjórn­sýslu­stofn­ana lengst und­an­far­in ár í kjöl­far inn­komu er­lendra eign­araðila að stærri fisk­eld­is­fyr­ir­tækj­um á Íslandi. Þau hafi sótt um flest­öll eld­is­svæði sem í boði eru hér á landi og það hafi aukið álag á stofn­an­irn­ar.


Vilja um­hverf­i­s­vænt lax­eldi

Haf­rann­sókna­stofn­un gaf í sum­ar út sitt fyrsta áhættumat vegna erfðablönd­un­ar eld­is­fisks við villta laxa­stofna. Kristján seg­ir að grunn­hug­mynd­in sé ágæt; að tryggja sem best vernd villtra laxa­stofna, en vinna þurfi bet­ur að aðferðafræðinni og þróa. „Við telj­um að Hafró hefði átt að taka sér meiri tíma til þess að vinna að for­send­um mats­ins. Sér­stak­lega höf­um við haldið því á lofti að Hafró taki til­lit til mót­vægisaðgerða sem muni minnka hættu á mögu­legri erfðablönd­un til muna. Það var ekki gert. Í Nor­egi hef­ur ný­verið verið tek­inn upp staðall um hvernig mögu­legri hættu á erfðablönd­un er haldið und­ir hættu­mörk­um og hef­ur það gef­ist vel. Við höf­um verið í sam­tali við Hafró frá því í sum­ar um út­færslu á slík­um mót­vægisaðgerðum og vænt­um ár­ang­urs úr þeirri vinnu fljót­lega á þessu ári,“ seg­ir Kristján.

Hann seg­ir að Háa­fell hafi lýst því yfir í þess­um sam­töl­um að það sé til­búið til sam­vinnu um að út­færa fyrsta áfanga um­hverf­i­s­væns lax­eld­is í Ísa­fjarðar­djúpi með þeim mót­vægisaðgerðum sem til þurfi til þess að halda um­hverf­isáhrif­um und­ir ásætt­an­leg­um mörk­um. „Við erum ekki að tala um 30 þúsund tonnna fram­leiðslu í einu vet­fangi, eins og stund­um er haldið fram. Við leggj­um upp með að lax­eldið í Djúp­inu fari ró­lega af stað á meðan aðferðirn­ar eru að sanna sig og vís­inda­menn sann­reyna að þær séu í lagi.“


Huga þarf að sjúk­dóma­mál­um

Háa­fell sagði sig úr Lands­sam­bandi fisk­eld­is­stöðva í sum­ar vegna ágrein­ings um stefnu­mót­un í fisk­eldi. „Í þeirri skýrslu [til­lögu að stefnu­mót­un] fannst okk­ur held­ur fá­tæk­lega farið yfir helstu áskor­un­ina sem all­ar fisk­eld­isþjóðir standa frammi fyr­ir en það eru heil­brigðis- og sjúk­dóma­mál,“ seg­ir Kristján.

Hann get­ur þess að Háa­fell hafi viðrað við stjórn­völd þá til­lögu að eld­is­svæðum verði skipt upp í fram­leiðslu­svæði með ákveðnum smitþrösk­uld­um. Ísa­fjarðar­djúp yrði þá skil­greint sem lokað fram­leiðslu­svæði þar sem öll um­ferð eld­is­báta frá öðrum fjörðum eða lönd­um yrði bönnuð og sömu­leiðis flutn­ing­ur seiða og stærri fisks á milli svæða.“


Áætlan­ir um upp­bygg­ingu

Háa­fell er til­búið með stór og heil­brigð laxa­seiði sem hægt er að setja út strax í vor, ef leyfi feng­ist. Kristján seg­ir að til­bún­ar séu áætlan­ir um upp­bygg­ingu fisk­eld­is­ins. Um leið og leyfi fást til lax­eld­is er áætlað að stækka seiðastöðina á Nauteyri. Und­ir­bún­ingi fyr­ir það er að mestu lokið. Ætl­un­in er að færa alla fisk­vinnslu HG og Háa­fells á einn stað í nýrri bygg­ingu við Ísa­fjarðar­höfn eft­ir þrjú til fjög­ur ár.

„Eft­ir langt og strangt ferli erum við til­bún­ir að hefja upp­bygg­ing­una. Það hafa verið byggðar upp mikl­ar vænt­ing­ar vegna fisk­eld­is hér í sam­fé­lag­inu við Djúp. Þær koma eins og ákveðinn lífsneisti eft­ir langt varn­ar­tíma­bil á norðan­verðum Vest­fjörðum. Ég tel að bæði við og stjórn­völd skuld­um íbú­um svæðis­ins það að koma hlut­un­um á hreyf­ingu og hefja upp­bygg­ingu í sátt við nátt­úru og menn,“ seg­ir Kristján.

 

föstudagurinn 22. desember 2017

Gleðileg jól.

HG óskar núverandi og fyrrum starfsfólki sínu, fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Samkvæmt venju hefjast jólin á Hnífsdalsbryggju með skötuveilsu í hádegi síðasta vinnudags fyrir jól. Árið í ár var engin unantekning, vel var vel mætt í dag og bragðaðist skatan sem er verkuð af Lionsmönnum á Ísafirði einstaklega vel.

 

 

 

laugardagurinn 9. desember 2017

Eldsvoði í húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. við Ísafjarðarhöfn.

Mikill eldur kom upp í húsnæði skipaþjónustu Hraðfrystihússins – Gunnvarar hf. við Árnagötu 3 á Ísafirði um kl. 23.00 í gærkvöldi.

Húsnæðið var mannlaust og sem betur fer steðjaði engin hætta að fólki.  Mikinn reyk lagði frá húsinu yfir neðri hluta Eyrarinnar í logninu í gærkvöldi.

Slökkvilið Ísafjarðar, Ísafjarðarflugvallar og Bolungarvíkur, björgunarsveitamenn frá Ísafirði, hafnarstarfsmenn og fleiri unnu að því að ráða niðurlögum eldsins og bjarga „Rauða húsinu“ svokallaða sem flutt var frá Hesteyri árið 1956, tókst það verk giftusamlega. Slökkvistarfinu lauk á fimmta tímanum í morgun.

Húsnæði skipaþjónustunnar var um 700 fermetrar að flatarmáli og er það brunnið til kaldra kola auk alls þess sem inní því var.

Eldsupptök eru ókunn og vinnur lögreglan að rannsókn málsins.

Forsvarsmenn Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. þakka öllum þeim sem komu að slökkvistarfinu og veittu hjálp fyrir fagmennsku og fumlaus vinnubrögð við sín störf.

 

Nánari upplýsingar veitir:

Einar Valur Kristjánsson framkvæmdastjóri í síma 8942478

miðvikudagurinn 23. ágúst 2017

Háafell segir sig úr Landssambandi Fiskeldisstöðva.

Háafell, fiskeldisfyrirtæki í eigu Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf. í Hnífsdal (HG) hefur sagt sig úr Landssambandi Fiskeldisstöðva (LF) en fyrirtækið hefur verið félagi í samtökunum í rúm 15 ár og fulltrúi þess átt sæti í stjórn samtakanna undanfarin ár.

Um nokkurt skeið hefur framganga LF fjarlægst þá stefnu og sýn sem Háafell vill byggja á í uppbyggingu fiskeldis á Íslandi. Í síðustu viku skrifuðu fulltrúar LF  athugasemdalaust undir stefnumótunarskýrslu í fiskeldi þar sem m.a.  er lagt til að áform um uppbyggingu laxeldis í Ísafjarðardjúpi verði slegin út af borðinu og þar með 6 ára réttmætar væntingar Háafells, samfélagsins við Djúp og íbúanna að engu hafðar. Háafell hefur lagt sig sérstaklega fram um að vanda til verka í umsóknarferlinu, uppbyggingaráformin eru varfærin og hugsuð yfir lengri tíma, búið er að fara í gegnum ítarlegt samráðsferli með hagsmunaaðilum og íbúum og leggja til og útfæra mótvægisaðgerðir til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Ekki er tekið tillit til ofantaldra þátta í skýrslunni heldur virðist skýrslan fremur vera einhverskonar samkomulag milli stærstu eldisfyrirtækjanna og veiðiréttarhafa. Háafell mun áfram beita sér fyrir því að byggja varsamlega upp laxeldi í Ísafjarðardjúpi samkvæmt ströngum kröfum, í sátt við umhverfið og til hagsbóta fyrir samfélagið.

HG og síðar Háafell hafa stundað farsælt eldi í Ísafjarðardjúpi síðan árið 2002 og verið með umsókn um 7000 tonna laxeldisleyfi í  stjórnkerfinu síðan 2011. Háafell er eina eldisfyrirtækið sem er alíslenskt og í eigu heimamanna sem vinnur að uppbyggingu laxeldis í sjókvíum við Ísland.

Kristján G. Jóakimsson, verkefnastjóri Háafells: „Það er augljóst að með þessu er ekkert tillit tekið til þeirrar vönduðu og miklu vinnu sem við höfum lagt í á undanförnum árum. Því síður eru hagsmunir íbúa á norðanverðum Vestfjörðum nokkurs metnir. Og það er í raun sorglegt að fólk sem vill bjarga sér sjálft sé svift þeim möguleika, svo aðrir geti skarað eld að eigin köku.“

 

 

Greinargerð:

Háafell hefur alla tíð lagt áherslu á að fiskeldi á Íslandi verði byggt upp á þekkingu, rannsóknum og vísindum og lagt áherslu á að ekki verði farið of geyst í uppbyggingu á meðan reynsla fæst á eldið hérlendis. Ítarlega er gerð grein fyrir sýn fyrirtækisins og áformum í frummatsskýrslu. Í samskiptum við stjórnvöld hefur Háafell komið með fjölda tillagna varðandi ýmis íþyngjandi ákvæði er varða umhverfismál og sum þeirra hafa verið tekin upp í íslenskt regluverk, t.d. norski búnaðarstaðallinn NS 9415.

Undanfarið, rúmlega hálft ár, hefur verið unnið að stefnumótun stjórnvalda í fiskeldi á Íslandi. Þar hefur LF átt tvo fulltrúa ásamt veiðiréttarhöfum og fulltrúum frá stjórnvöldum. Á sínum rannsóknamiðaða grunni samþykkti Háafell fyrir sitt leiti að Hafrannsóknarstofnun mæti hættu á mögulegri erfðablöndun eldislax við villtan lax en slíkt mat er mikilvægur þáttur í þeirri heildarmynd sem þarf að skoða þegar stefnumótun fyrir starfsgreinina er unnin. Hinsvegar er verið að þróa nýja og vandasama aðferðafræði sem ekki hefur verið reynd áður og eðlilegt að einhvern tíma taki að fullgera.

Eins og kunnugt er er niðurstaða áhættumatsins að leyfa ekki laxeldi í Ísafjarðardjúpi að svo stöddu. Í stefnumótunarskýrslunni er hins vegar lagt til að ganga lengra en Hafró með því að lögfesta áhættumatið og niðurstöður án þess að búið sé að sannreyna forsendur, aðferðafræði og vísindin á akademískan hátt og taka tillit til athugasemda.  

Helstu athugasemdir Háafells við stefnumótunarskýrsluna sem fulltrúar LF skrifuðu undir eru:

- Taka verður tillit til þeirrar þekkingar og tækni sem er til staðar til þess að koma í veg fyrir hugsanlega erfðablöndun. Í áhættumatsskýrslu Hafró er vísir að slíkum mótvægisaðgerðum en erlendis hefur mun fleiri aðferðum verið beitt með mjög góðum árangri og hefur Háafell lagt til og útfært slíkar aðgerðir til þess að beita m.a. í Ísafjarðardjúpi. Meðfylgjandi er samantekt á mótvægisaðgerðum Háafells. (Mótvægisaðgerðir

-Ef lögfesta á nýtt vísindalegt stjórntæki þarf það að standa á föstum vísindalegum grunni. Í dag er það ekki hafið yfir allan vafa, t.d. benda vísindamenn Hafró sjálfir á að áhættumatið sé lifandi og hægt sé að leiðrétta það þegar fram líða stundir. Mikið eðlilegri nálgun er að klára að  fullvinna matið áður en afdrifaríkar ákvarðanir fyrir fyrirtæki og samfélög eru tekin á grundvelli þess.

-  Ekki er tekið nægjanlegt tillit til samfélagslegrar, efnahagslegrar og byggðalegrar þýðingar í stefnumótunarskýrslunni sem hljóta að vera þættir sem þarf að fara gaumgæfilega yfir við framtíðarstefnumótun starfsgreinarinnar. T.d. hafa íbúar við Ísafjarðardjúp síðastliðin 6 ár haft réttmætar væntingar um uppbyggingu á umhverfisvænni matvælaframleiðslu undir ströngustu kröfum sem eru að engu hafðar í stefnumótunarskýrslunni.

Háafell hafði samþykkt í stjórn LF að skrifað yrði undir stefnumótunarskýrsluna með því skilyrði að lögð yrði fram bókun þar sem hluti af fyrrnefndum athugasemdum kæmu fram. Fyrir því var vilji innan stjórnar LF en á ögurstundu þegar skrifa átti undir dró LF bókun sína til baka og var skrifað undir athugasemdalaust.

LF eru sameiginleg hagsmunasamtök fiskeldisfyrirtækja á Íslandi sem hafa með þeirri ákvörðun sinni  að skrifa undir skýrsluna án athugasemda, sýnt að þau starfi ekki í þágu allra aðildarfélaga sinna. Þegar ákvarðanir og vinnubrögð LF ganga í berhögg við stefnu, sýn og hagsmuni aðildarfélags er vandséð að þau eigi samleið mikið lengur. Eftir mikla ígrundun er það því niðurstaða Háafells að segja sig frá samstarfi við LF.

Háafell mun áfram tala fyrir uppbyggingu sjálfbærs fiskeldis á Íslandi , byggt á þekkingu, reynslu og sannreyndum vísindum og mun áfram leggja sitt af mörkum til þess að svo verði í samvinnu við hagsmunaðila, stofnanir og stjórnvöld.

 

Frekari upplýsingar veitir Kristján G. Jóakimsson, farsími 8931148.

þriðjudagurinn 4. júlí 2017

Sjávarútvegsskólinn í heimsókn

Nemendur Sjávarútvegsskólans á Ísafirði komu í heimsókn í Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. í síðustu viku, skoðuðu landvinnslu fyrirtækisins og kynntu sér sjómannsstarfið í Stefni ÍS 28. Þetta er annað árið í röð sem skólinn er starfræktur fyrir 14 ára krakka. Markmiðið með skólanum er að auka áhuga og efla þekkingu nemenda á sjávarútvegi og tengdum greinum á sínu heimasvæði. Kennslan er byggð upp með blöndu af fyrirlestrum og heimsóknum í fyrirtæki og stofnanir á svæðinu. Í fyrirlestrum er farið yfir helstu nytjastofna, vinnslu og veiðar, markaði, hliðargreinar og nýsköpun auk þess sem farið er yfir menntunarmöguleika tengda sjávarútvegi sem bjóðast í framhaldsskólum, verkmenntaskólum og háskólum.

HG er stoltur samstarfsaðili í þessu verkefni og hver veit nema hugmyndir um framtíðarstörf eða ónýtt tækifæri kvikni hjá þessum ungu og upprennandi krökkum.