Tíðindi

þriðjudagurinn 15. mars 2016

Stefnir ÍS 28 er fertugur

Fjörutíu ár eru í dag, 16. mars 2016,  síðan skuttogarinn Stefnir ÍS 28, áður Gyllir ÍS 261, kom til landsins nýsmíðaður frá Noregi. Útgerðarfélag Flateyrar lét smíða togarann í Flekkefjord í Noregi og er hann 50 metra langur og mælist 431 tonn brúttó. Árið 1971 sömdu vestfirsk útgerðarfélög um smíði fimm skuttogara í Noregi og komu þeir til landsins á árunum 1972 til 1974, Júlíus Geirmundsson, Guðbjartur, Framnes, Bessi og Guðbjörg.   Skipin voru öll af sömu gerð, en Guðbjörg var á smíðatímanum lengd um rúma þrjá metra.  Þessi skip reyndust afar vel, voru vel útbúin og um árabil uppistaðan í vestfirska togaraflotanum. Í dagblaðinu Tímanum segir m.a. svo frá komu Gyllis. 

Til gamans má geta þess að skipið er að grunni eins og togarinn Guðbjörg á Ísafirði og er sagt að upprunalega pöntunin hafi verið „Eitt stykki Guðbjörg, takk.“  Síðan var pöntunin að sjálfsögðu útfærð nánar.  (Tíminn, 17. mars 1976)

Árið 1993 gekk Þorfinnur hf., sem var í eigu Íshúsfélags Ísfirðinga hf. og Flateyrarhrepps inn í kaupsamning um Gylli ÍS 261 ásamt veiðiheimildum og í framhaldi af því var nafni hans breytt í Stefnir ÍS 28.  Var hann gerður út af Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. næstu árin og síðan af Hraðfrystihúsinu – Gunnvöru hf. eftir sameiningu félaganna árið 2000.   Skipinu hefur alla tíð verið haldið vel við og þess má geta að upphaflega aðalvélin er enn í því.  Á síðastliðnu ári aflaði Stefnir ÍS  um 3.400 tonna að verðmæti 844 milljónir króna. Skipstjóri á Stefni er Pétur Birgisson.

þriðjudagurinn 19. janúar 2016

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf 75 ára

Í dag 19. janúar 2016 eru 75 ár liðin frá stofnun Hraðfrystihússins hf. í Hnífdal.  Í bókinni Með háfjöll á aðra hönd og ólgandi haf á hina,  Sjötíu ára saga Hraðfrystihússins í Hnífsdal 1941-2011 segir m.a. svo:

Hraðfrystihúsið hf. stofnað

Hraðfrystihúsið hf. var stofnað 19. janúar árið 1941 og um þessar mundir eru því liðin sjötíu ár frá því að nokkrir Hnífsdælingar tóku sig saman um stofnun þess.  Fyrsti formlegi fundurinn, sem haldinn er um þetta mál var á skrifstofu Kaupfélags Hnífsdælinga þann 3. janúar 1941 og voru þar mættir 15 menn fyrir sjálfa sig og tvö útgerðarfélög.  Þremur mönnum, þeim Elíasi Ingimarssyni, Páli Pálssyni og Hirti Guðmundssyni var falið að semja uppkast að lögum fyrir félagið og boða til framhaldsstofnfundar.  Sá fundur var haldinn 19. janúar einnig á skrifstofu Kaupfélags Hnífsdælinga og voru þar mættir 17 menn fyrir 19 aðila og samþykkt voru lög í 20 greinum og kjörin stjórn félagsins.  Fyrstu stjórnina skipuðu  Páll Pálsson formaður, Elías Ingimarsson og Hjörtur Guðmundsson,  meðstjórnendur. Í varastjórn voru . Ingimar Finnbjörnsson, Jóakim Pálsson og Magnús Guðmundsson.   Þar með var Hraðfrystihúsið hf. Hnífsdal formlega stofnað og gat tekið til starfa. .

Um það leyti sem Hnífsdælingar byrja að huga að stofnun hraðfrystihúss birtist grein í Vesturlandi, blaði sjálfstæðismanna á Vestfjörðum, undir heitinu  Vestfjarða-annáll,  Frá Hnífsdælingum.   Þar segir að Hnífsdælingum hafi lengst af verið viðbrugðið fyrir sjósókn og aflasæld og það hafi haldist þrátt fyrir að útvegurinn hafi mikið dregist saman og Hnífsdalur megi nú fremur heita sveitaþorp en verstöð.  Einnig kemur fram að með

tilkomu  bryggjunnar í Skeljavík hafi útgerð Hnífsdælinga færst þangað inneftir og nú hafi Valdimar Þorvarðarson , stærsti fiskkaupmaður og atvinnurekandi í Hnífsdal, látið rífa tvö fiskhús og sótt um að fá þau sett upp á Ísafirði.  Síðan segir orðrétt:

Er því full ástæða til að ætla að vélbátaútgerð frá Ísafirði  fari enn vaxandi vegna aðflutnings báta úr nágrenninu, en Hnífsdalur verði að mestu leyti sveitaþorp.  Hefir þorpsbúum fækkað hægt en stöðugt undanfarin ár og flestir flutt sig til Ísafjarðar.  (Vesturland, 7. desember 1940)

Hnífsdælingar láta þessu ekki ósvarað og í Vesturlandi, sem kemur út sama dag og undirbúningsstofnfundurinn var haldinn birtist  grein eftir Elías Ingimarsson, einn af forvígismönnum stofnunar Hraðfrystihússins hf. og þar segir m.a.

Í greininni segir, að Hnífsdalur megi nú fremur heita sveitaþorp en verstöð.  Frá Hnífsdal eru nú gerðir út 5 landróðrabátar, 12 – 18 tonn, með 9 manna skipshöfn, auk þess hefir verið gerður út þaðan einn 50 tonna vélbátur tvö síðastl. sumur á síld. Þá eru ótaldir trillubátar og áraskektur.  Hygg ég að útgerð þessi standist samanburð við útgerð á Ísafirði, ef tekið er tillit til íbúatölu.  (Vesturland, 3. janúar 1941 bls. 3) 

Byggingaframkvæmdir hefjast

Stjórn félagsins lét hendur standa fram úr ermum og á fyrsta stjórnarfundi, sem haldinn var sama dag og stofnfundurinn, er samþykkt að fela Jóni Jónssyni trésmið frá Flateyri að annast innkaup á vélum og öðru efni, sem þyrfti til fyrirhugaðrar frystihúsabyggingar,.

Einnig var samþykkt  að Elías Ingimarsson sæi um daglegar framkvæmdir. Nokkru síðar  er greint frá því að keypt hafi verið tvö fiskverkunarhús við bryggjuna í Skeljavík af Einari Steindórssyni og Elíasi Ingimarssyni á kr. 10.000.    Farið var í að tengja þessi tvö hús saman og stækka og úr þeim var byggt vélahús, frystigeymsla, sem einangruð var með torfi frá Grunnavík, fiskimóttaka og vinnsluaðstaða.  Frystipressa og tilheyrandi kom frá Vélsmiðjunni Héðni og í september var húsið tilbúið eins og kemur fram í eftirfarandi greinarkorni í Vesturlandi:

Frétt í Vesturlandi 20. september 1941

Fyrsti starfsmaðurinn var ráðinn um mitt ár 1941 og var það Magnús Guðmundsson , sem sinnti vélstjórn  og vann einnig með starfsmönnum Vélsmiðjunnar Héðins við niðursetningu véla í frystihúsið.  Við lok ársins 1941 var  byggingarkostnaður orðinn 149 þúsund krónur og hafði fengist lánafyrirgreiðsla frá  Fiskveiðasjóði, Útvegsbankanum og Fiskimálanefnd til að fjármagna þann hluta, sem umfram var eigið fé félagsins .

Starfsemin fór þó rólega af stað og fyrsta árið er ekki keyptur fiskur, en lítilsháttar af beitu um haustið.   Í ársbyrjun 1942 var gengið frá ráðningu þriggja manna til viðbótar,    Elías Ingimarsson var ráðinn framkvæmdastjóri,   Ingimar Finnbjörnsson vélstjóri og Sigurður Baldvinsson verkstjóri.    

Rúmu ári eftir stofnun félagsins, eða í  febrúar árið 1942, er byrjað að taka á móti fiski til vinnslu og í byrjun apríl er fyrsta sala á frosnum fiski,  871 kassi af fiski og hrognum til

Fiskimálanefndar að verðmæti kr. 72.550.- 

föstudagurinn 8. janúar 2016

Afli og aflaverðmæti skipa Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, 2015.

Á árinu 2015 öfluðu skip Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, 14.054 tonna að verðmæti 4.084 milljóna króna samanborið við 12.277 tonna afla  að verðmæti 3.248 milljónir króna árið 2014. 

Þetta er 14,5% aukning í afla og 26% aukning í aflaverðmæti. Árið 2015 var því bæði metár í afla og aflaverðmæti.

Þessa aukningu í afla og aflaverðmæti má einkum rekja til þess að enginn togara fyrirtækisis fór í slipp á árinu, góðrar kvótastöðu um áramót og lítilsháttar aukningu í kvóta.

Valur og Örn stunduðu rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og öfluðu vel.

Almennt var verðþróun sjávarfangs jákvæð ef undan er skilin mikil lækkun á makríl afurðum. 

Aflabrögð ársins 2015 voru almennt mjög góð sem þakka má skynsamlegri nýtingu auðlindarinnar sem leitt hefur til hagkvæmari sóknar.

Samtals. 14.054 tonn 4.084 mill. 3.248 mill.
Afli skipa
  2015 2015 2014
Júlíus Geirmundsson 4.919 tonn 1.901 mill. 1.435 mill.
Páll Pálsson 5.524 tonn 1.252 mill. 953 mill.
Stefnir 3.396 tonn 844 mill. 737 mill.
Valur og Örn 215 tonn 87 mill. 123 mill.

Togara félagsins héldu til veiða á nýju ári þann 2. janúar kl 14:00.

þriðjudagurinn 22. desember 2015

Vegna fréttatilkynningar Landssambands veiðifélaga þann 21.12.2015

Í fréttatilkynningunni skorar Landssamband veiðifélaga (LV) á Hraðfrystihúsið-Gunnvöru hf. (HG) að hætta við áform um sjókvíaeldi á laxi í Ísafjarðardjúpi.

Allt frá árinu 2010 hefur HG unnið að undirbúningi eldis laxfiska í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Þann 28. desember 2011 sendi HG tilkynningu til Skipulagsstofnunar um fyrirhugaða 7.000 tonna framleiðslu á eldisfiski í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Málið hefur þvælst um í stjórnsýslunni og til að flýta ferlinu var tekin sú ákvörðun að fá fyrst heimild til eldis á regnbogasilungi og síðan vinna að því að fá öll tilskilin leyfi til eldis á laxi. Í framhaldi af því  voru auglýst drög að matsáætlun fyrir 6.800 tonna framleiðslu á laxi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi eins og gert er ráð fyrir í lögum  nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Málið er því í lögformlegu ferli þar sem Landssamband veiðifélaga getur komið sínum athugasemdum á framfæri eins og gert er ráð fyrir í lögunum.    

Í fréttatilkynningu LV kemur fram að þeir muni leitast við eftir fremsta megni að stöðva fyrirhugaða framkvæmd eldis norskra laxa á öllum stigum málsins og leita atbeina dómstóla til að hnekkja útgáfu eldisleyfis ef svo ber undir.  HG vill benda á að í öllu umsóknarferlinu hefur fyrirtækið farið að lögum. 

Fiskeldisstarfsemin er nú öll á vegum Háafells ehf. sem er dótturfyrirtæki HG og  telur LV að með því sé fyrirtækið að skjóta sér undan skaðabótaskyldu. Tekið skal fram að í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi eru gerðar kröfur um eigin fjármögnun eldisaðila og þar gilda sömu reglur um Háafell og HG.

Ef vel er vandað til verka getur fiskeldisstarfsemi skapað verðmæt störf á svæðinu sem verið hefur í varnarbaráttu undanfarin ár. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig endanlega verði staðið að uppbyggingu og öll fiskeldisstarfsemi því verið sameinuð undir eitt félag sem HG hefur verið eignaraðili að í um áratug. 

Frekari upplýsingar veitir Kristján G. Jóakimsson, gsm 8931148.

mánudagurinn 2. nóvember 2015

Ómar Ellertsson

Ómar Ellertsson var stýrimaður og mjög farsæll og fiskinn skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 (fjórum skipum í röð með því nafni) samfleytt í 47 ár og hálfu ári betur. Hann útskrifaðist frá Sjómannaskólanum 11. maí 1968, á sjálfan lokadaginn, og var í fyrstu stýrimaður hjá Hermanni Skúlasyni og tók svo við skipstjórninni af honum. Reyndar er sjómannsferill Ómars talsvert lengri en þetta, eða liðlega 54 ár.

Frá þessu spjalli við Ómar er gengið í október 2015 þegar hann er í síðasta túrnum sínum, en hann varð 68 ára fyrr í mánuðinum.

Ómar hefur lifað mikla breytingatíma hvað varðar vinnuaðstöðu á sjónum og aðra aðstöðu um borð, ekki síst frá bátunum til skuttogaranna þegar þeir komu á árunum um og upp úr 1970. „Á bátunum varð að beygja sig eftir hverjum einasta fiski, en þegar komið var á skuttogarana kom fiskurinn í mátulegri hæð til að slægja hann.“ 

Frá upphafi skuttogaraaldar hafa líka orðið miklar breytingar. „Það er mjög vel búið að mannskapnum á þessum nýju skipum og mikill munur frá því sem var. Íþróttatæki um borð, göngubretti og gufubað, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ómar.

Fjölskylda og fyrstu sjómannsár

Ómar Guðbrandur Ellertsson, eins og hann heitir fullu nafni, fæddist á Ísafirði 12. október 1947. Foreldrar hans voru Ellert Eiríksson matsveinn (Ellert Finnbogi) og Fanney Guðbrandsdóttir (Ísól Fanney). Eiginkona Ómars er Ásgerður Annasdóttir (Ásgerður Hinrikka), Ísfirðingur að uppruna eins og hann. 

„Ég fór fyrst á sjó 1961 þegar ég var fjórtán ára, á handfæri með Agnari Guðmundssyni,“ segir Ómar. „Hann átti lítinn bát sem hét Ver, kallaður Koddaver. Þetta var eitthvað um tólf til fjórtán tonna bátur. Við vorum þrír þrettán-fjórtán ára unglingar með kallinum. Hann var orðinn mjög fullorðinn en gekk mjög vel að veiða. Þá voru nú græjurnar ekki meiri en það, að hann var ekki með dýptarmæli, en kallinn vissi samt alltaf hvað dýpið var.“ 

Í febrúar 1963 fór Ómar á Gylfa ÍS með Sturlu Halldórssyni, síðar hafnarverði á Ísafirði. Sturla átti bátinn ásamt Ólafi bróður sínum. Þetta var upphaflega einn af hinum þekktu Samvinnufélagsbátum á Ísafirði, einn af Björnunum gömlu, eitthvað rúmlega sextíu tonn.

„Við rerum frá Reykjavík og vorum á netum og fiskuðum mjög vel. Síðan fór ég aftur á Gylfa um sumarið á snurvoð frá Reykjavík. Í mars árið eftir fór ég á Pál Pálsson ÍS á þorskanet og var síðan á honum á síld yfir sumarið. Fór svo á Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS þegar báturinn kom hingað nýr 1964, hann var keyptur í staðinn fyrir Pál, og var á honum til 1966 þegar ég fór í Sjómannaskólann. Á milli bekkja fór ég á síld á Guðbjörgu ÍS með Geira Bjartar.“

Þeir segja misjafnlega satt

Mesta óðafiskirí sem Ómar man eftir var á Strandagrunni á flottrolli á fyrri ísfisktogaranum með nafninu Júlíus Geirmundsson, líklega árið 1977. „Fyllti hann í fjórum holum. Það var ógurlegt mok. Eintómur þorskur.“

Þegar Ómar er spurður hvernig ákveðið sé hvert skuli halda til veiða hverju sinni segir hann: „Maður fær fréttir af því hvar flotinn er. Svo verður bara að meta það hvert er álitlegast að fara. Maður hefur alltaf símann. Hafró veit ekki neitt.“

Og þegar Ómar er spurður hvort skipstjórar séu fúsir að láta aðra vita hvar fiskurinn er, þá svarar hann og hlær: „Það hafa menn alltaf gert, en þeir segja misjafnlega satt, maður veit aldrei um það fyrirfram.“ 

Aldrei alvarleg slys

Að sjálfsögðu hefur Ómar oft lent í vondum veðrum á sínum langa ferli, annað hvort væri. „Ég man sérstaklega eftir einum túr, þá var ég með Júlíus Geirmundsson, fyrsta bátinn. Var þá stýrimaður með Hermanni Skúlasyni. Þá höfðum við verið á veiðum austur á Sléttugrunni og vorum á leið heim með fullan bát af fiski. Það var farið inn undir Grímsey um nóttina og legið þar, það spáði illa, og svo var aftur lagt af stað heimleiðis þegar birti. Við fórum mjög djúpt út af Horni til að fá beint lens þegar maður kom út af Vestfjörðum. Það var ógurlegur sjór. Bessinn frá Súðavík var að sigla með okkur, bátur smíðaður hjá Marzellíusi. Það kom brot aftan á hann og eitthvað brotnaði hjá þeim.“

Aðeins einu sinni fékk Ómar á sig brot sem olli skemmdum, en þær voru mjög smávægilegar. „Það brotnaði ein rúða. En ekkert slys, sem betur fer. Þá vorum við bara að lóna og það kom hnútur á hann. Það átti enginn von á þessu.“

Aldrei urðu nein alvarleg slys um borð hjá Ómari. Hann nefnir þó einn manntapa, sem reyndar er ekki hægt að kalla slys í venjulegri merkingu þess orðs. „Við vorum á útleið og svo kom í ljós að það vantaði einn manninn. Hann bara lét sig hverfa á útleiðinni og skildi úlpuna sína eftir. Þetta er það eina sem ég hef lent í.“

– Hvernig er það við leiðarlok sem þessi, að koma í land eftir öll þessi ár á sjónum? Er það söknuður eða er það léttir?

Ómar hugsar sig um og segir svo: „Ætli það sé ekki bara bæði!“

– Hlynur Þór Magnússon færði í letur í október 2015 (útdráttur úr ítarlegra viðtali).

 _________________________ 

Nokkrir menn sem gjörþekkja Ómar Ellertsson eftir langa veru með honum á sjó voru beðnir að lýsa manninum, segja frá kynnum sínum honum og samstarfinu við hann og segja af honum sögur. Brot úr mannlýsingunum fara hér á eftir. 

Við erum allir ríkari eftir samstarfið

Mér hefur alla tíð þótt mjög gott að vinna með Ómari, hann er hreinskilinn maður, traustur, lætur ekki vaða yfir sig, er góður yfirmaður, góður samstarfsmaður og einstaklega geðgóður. Ég tel hann hafa kennt mér og félögum okkar margt sem mun nýtast okkur öllum til framtíðar.

Ómars verður saknað um borð í Júlíusi, en við erum allir ríkari eftir samstarfið.

– Sveinn Geir Arnarsson,

stýrimaður á Júlíusi Geirmundssyni.

Gaman að fá góðan mat 

Ómar er hress og skemmtilegur karakter, hefur gengið vel að fiska og hefur stýrt sínu skipi heilu í höfn alla tíð. Hann var vinur sinna manna um borð og kom mjög vel fram við alla, sama hver störf þeirra voru. Allir voru jafnir í hans augum.

Öllum finnst okkur gaman að fá góðan mat hjá kokkunum. Þar var Ómar Guðbrandur Ellertsson skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS sannarlega engin undantekning. 

– Þór Ólafur Helgason,

yfirvélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni. 

Góð fyrirmynd sem yfirmaður 

Ég er búinn að vera á Júlíusi í þó nokkur ár, og síðustu ár sem stýrimaður hjá Ómari. Okkur hefur gengið vel saman. Hann er góð fyrirmynd sem yfirmaður, alltaf léttur í lund, yfirleitt þolinmóður og ákveðinn. Ég hef lært margt hjá honum.

Ég veit að hann á eftir að fylgjast vel með okkur, hringja reglulega og fylgjast með okkur í tölvunni heima hjá sér.

– Njáll Flóki Gíslason,

stýrimaður á Júlíusi Geirmundssyni.

Dáðadrengur og frábær vinur

„Hann var sjómaður dáðadrengur.“ Ég var svo heppinn að vera skipsfélagi Ómars á öllum togurunum sem borið hafa nafnið Júlíus Geirmundsson. Það er alveg á hreinu, að Ómar Guðbrandur Ellertsson er dáðadrengur og frábær vinur. Þó að yfirleitt hafi verið létt yfir Ómari gat hann líka verið ákveðinn og fylginn sér.

Velkominn í land, vinur og bróðir, og njóttu efri áranna.

– Þorlákur Kjartansson (Láki),

fyrrum yfirvélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni.