Tíðindi

miðvikudagurinn 27. desember 2000

Met aflaverðmæti

Frystiskip Hraðfrystihússins-Gunnvarar h.f. , Júlíus Geirmundsson kom til hafnar fyrir hádegi á Þorláksmessu úr síðustu veiðiferð ársins.

Aflaverðmæti skipsins í veiðiferðinni var rúmar 90 milljónir króna og er heildaraflaverðmæti ársins því 943 milljónir króna og hefur aldrei verið meira. Hásetahlutur er um 10 milljónir fyrir árið.

Júlíus heldur til veiða í fyrstu veiðiferð næsta árs þann 2. janúar nk.
þriðjudagurinn 12. desember 2000

Hluthafafundur

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. auglýsir hluthafafund sem haldinn verður fimmtudaginn 14. desember n.k kl. 16.

Fundurinn verður haldinn í kaffisal félagsins í Hnífsdal.

Dagskrá:
1. Tillaga stjórnar um nýja málsgrein við samþykktir félagsins, verður hún 4. mgr., 4. gr. í samþykktum félagsins.
Greinin kveður á um heimild til stjórnar um hækkun á hlutafé félagins um kr. 24.600.000 og að núverandi hluthafar falli frá forkaupsrétti.
2. Önnur mál.

Stjórn Hraðfrystihússins - Gunnvarar hf.

Einar Valur Kristjánsson.
mánudagurinn 11. desember 2000

Breytingar á starfsmannahaldi.

Konráð Jakobsson og Ingimar Halldórsson láta af störfum.

Ingimar Halldórsson lét af störfum hjá H-G hf. þann 8. desember sl. Hann var framkvæmdastjóri Frosta hf. í Súðavík árin 1986 til 1997, eða þar til Hraðfrystihúsið hf. og Frosti hf. sameinuðust árið 1997 og eftir það starfsmaður H-G hf. Ingimar hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga.

Konráð Jakobsson, lætur af störfum hjá H-G þann 15. desember n.k. Konráð hóf störf sem bókari hjá félaginu árið 1965 og var ráðinn framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins h.f. 1.janúar 1977 og gengdi því starfi fram í nóvember 1999.

Þeim Ingimar og Konráð eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra störf í þágu fyrirtækisins og um leið óskað velfarnaðar í framtíðinni.
þriðjudagurinn 31. október 2000

Nýtt skip

Stjórn Hraðfrystihúsins-Gunnvarar hf. hefur komist að samkomulagi við eigendur Trausta ehf. á Hauganesi um kaup Hraðfrystihúsins-Gunnvarar hf. á öllum hlutabréfum í Trausta ehf. Kaupverð hlutabréfanna er um 175. milljónir króna og verður greitt fyrir þau að stærstum hluta með hlutabréfum í Hraðfrystihúsinu-Gunnvör h.f. Eignir Trausta ehf eru Víðir Trausti EA-517 ásamt veiðiheimildum sem eru um 275 þorskígildistonn. Skipið verður afhent um næstkomandi helgi.