Tíðindi

föstudagurinn 1. júlí 2022

Fyrsti fóðurprammi Háafells væntanlegur

Fyrsti fóðurprammi Háafells er væntanlegur til Ísafjarðar í dag. Dráttarskipið Bestla lagði af stað með prammann þann 17. júní frá Tallinn í Eistlandi þar sem hann var smíðaður. Það er norska fyrirtækið Akvagroup sem smíðar prammann en hann tekur 450 tonn af fóðri, er 22 metrar á lengd og 12 metrar á breidd. Um borð er skrifstofa, eldhús, salerni og aðstoða fyrir starfsmenn Háafells.

Pramminn verður staðsettur í Vigurál undan Skarðsströnd á eldisstaðsetningu Háafells. Með tilkomu fóðurprammans er tryggð jöfn og góð fóðrun á staðsetningunni. Fóðurpramminn er útbúinn spenni fyrir landtengingu og hefur Háafell unnið að undirbúningi landtengingarinnar ásamt Eflu og Orkubúi Vestfjarða. Ljósavélar um borð verða því aðeins varaafl og pramminn knúinn grænni orku úr landi.

Háafell býður öllum áhugasömum að koma á að skoða fóðurprammann í innri höfninni á Ísafirði fyrir fram Edinborg mánudaginn 4. júlí á milli klukkan 16 og 18. Léttar veitingar verða í boði.

mánudagurinn 13. júní 2022

Sigurður yfirvélstjóri á Páli Pálssyni hlaut Neistann 2022

Á sjómannadaginn, á hátíðarhöldum sjómannadagsins, undanfarin ár hefur yfirvélstjóra skips verið veitt viðurkenning fyrir fyrirmyndar rekstur vélbúnaðar og umgengni um borð í viðkomandi skipi. Nefnist verðlaunagripurinn Neistinn og kom að þessu sinni í hlut Sigurðar Jóhanns Erlingssonar yfirvélstjóra á Páli Pálssyni ÍS 102. 

Við val á viðtakanda er m.a. lagt til grundvallar ástand skoðunarskylds vélbúnaðar um borð, ástand öryggis- og viðvörunarbúnaðar, rekstur á vélbúnaði skipsins og umgengni í vélarrúmum. 

Leitað er umsagnar skoðunarstofa, flokkunarfélaga og TM, en á milli 80 og 90% af öllum skoðunarskyldum búnaði um borð er á ábyrgðarsviði yfirvélstjórans. Yfirvélstjórinn er einnig sá eini í áhöfninni sem getur fengið heimild flokkunarfélaga til þess að ljúka fullnaðarskoðun á tilgreindum skipsbúnaði án þess að kvaddur sé til fulltrúi frá flokkunarfélagi.

Tilgangur viðurkenningarinnar er að vekja athygli á hversu þýðingarmikið og krefjandi starf yfirvélstjórans er og um leið að veita þeim sem skara fram úr viðurkenninguna á sjómannadegi ár hvert. 

Sigurður hefur verið vélstjóri hjá HG í 16 ár og þar af yfirvélstjóri á Páli síðastliðin 4 ár.  Það er skemmst frá því að segja hversu stolt og þakklát við erum fyrir störf Sigurðar og allrar áhafnarmeðlima. Þess má einnig geta að þetta er í annað sinn sem vélstjóri hjá okkur hlýtur viðurkenninguna en árið 2011 hlaut Hilmar Kristjánsson Lyngmo viðurkenninguna. 

þriðjudagurinn 17. maí 2022

Tímamót í Ísafjarðardjúpi

Fyrstu laxaseiði Háafells voru sett í kvíar í Skötufirði í gær. Seiðin eru flutt með brunnbátnum Papey ÍS frá seiðaeldisstöð Háafells á Nauteyri og ganga flutningar vel. Unnið hefur verið að undirbúningi í rúman áratug en Háafell sótti fyrst um leyfi fyrir laxeldi í Ísafjarðardjúpi árið 2011. Uppbygging á laxeldi í Ísafjarðardjúpi mun auka byggðafestu, fjölga atvinnutækifærum og stuðla að blómlegra mannlífi. Auk seiðaeldis á Nauteyri er Háafell því nú með laxeldi í sjókvíum í Skötufirði og regnbogasilung  við Bæjahlíð.

Einar Valur Kristjánsson, stjórnarformaður Háafells: „Við þessi tímamót verður manni fyrst hugsað til þeirra sem hafa lagt hönd á plóg í þessu umsóknarferli. Þau eiga öll þakkir skildar. Stóra verkefnið fram undan er að gæta að auðlindinni Ísafjarðardjúpi og tryggja gott heilbrigðisástand í Djúpinu. Það verður best gert með því að tryggja fjarlægðarmörk milli eldissvæða, með skýrum reglum, aðgæslu og vel þjálfuðu starfsfólki. Það hafa margir hagsmuna að gæta í Djúpinu og ef vel er á spilum haldið eiga þeir vel að geta farið saman.“

föstudagurinn 14. janúar 2022

Afli og aflaverðmæti togara Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, 2021.

Afli togara Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf, var 15.760 tonn árið 2021 samanborið við 14.558 tonn árið áður.  Aflaverðmæti togaranna nam  4.660 milljónum samanborið við 4.114 milljónum árið áður.

  2021 2020
  Afli (tonn) Verðmæti (milljónir) Afli (tonn) Verðmæti (milljónir)
Júlíus Geirmundsson 5.726 2.162 4.838 1.951
Stefnir 4.388 1.128 3.996 913
Páll Pálsson 5.646 1.370 5.724 1.250
Samtals 15.760 4.660 14.558 4.114
         
fimmtudagurinn 23. desember 2021

Gleðileg jól

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf óskar starfsfólki sínu, fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum svo og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. Með ósk um að nýtt ár verði gæfuríkt og farsælt.