Tíðindi

þriðjudagurinn 9. nóvember 2021

Háafell festir kaup á sínum fyrsta fóðurpramma

Háafell ehf, dótturfyrirtæki Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf., hefur fest kaup á sínum fyrsta fóðurpramma en um er að ræða pramma af gerðinni AC450Comfort frá AKVA group. Pramminn verður tekin í notkun næsta sumar í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi en þar verður fyrsti árgangur af laxi frá Háafelli.

-Við höfum 20 ára reynslu af eldi á þorski og regnbogasilungi og erum nú loksins að byrja með langþráð laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Með nýju leyfi fyrir 6.800 tonna lífmassa af laxi, og fjárfestingu í fyrsta fóðurpramma félagsins höfum við tekið mikilvæg skref í að byggja upp fyrirtækið. Við erum mjög ánægð með að hafa náð samkomulagi um afhendingu á vel útbúnum fóðurpramma innan takmarkaðs tímaramma, en við teljum AKVA group traustan og samkeppnishæfan birgja, segir Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells.

Fóðurpramminn verður með landtengingu og þannig knúinn af endurnýjanlegri orku.

-Það er mjög ánægjulegt að Háafell velur AKVA group sem birgja. Við höfum fylgst með þessu fyrirtæki í langan tíma og ég er mjög ánægður með að þeir séu nú að hefja nýjan kafla í fiskeldi sínu. Með AC450Comfort fóðurpramma fær Háafell mjög góða lausn með allri þeirri aðstöðu og búnaði sem þarf til að ná góðum rekstri, segir Roar Ognedal, sölustjóri Akvagroup

Nýi pramminn verður sá ellefti í röðinni frá AKVA group á Íslandi.

föstudagurinn 27. ágúst 2021

Niðurstöður hraðprófa staðfestar

Jákvæðar niðurstöður tveggja starfsmanna HG úr hraðprófum hafa verið staðfestar af sóttvarnaryfirvöldum með PCR prófi. Frekari úrvinnsla málsins er því nú í höndum sóttvarnaryfirvalda. Þessi reynsla af hraðprófum hjá HG virðist styðja að þau geta verið eitt af verkfærunum í því að hægt sé að finna smit og bregðast þannig fyrr við með markvissum aðgerðum og sporna gegn útbreiðslu veirunnar.

Starfsmenn HG verða upplýstir frekar um gang mála eftir því sem málinu vindur fram.

fimmtudagurinn 26. ágúst 2021

Áhöfn Páls Pálssonar ÍS í sóttkví

 

Með hraðprófi fyrir Covid-19 sýkingu greindist skipverji á Páli Pálssyni ÍS jákvæður í dag. Beðið er niðurstöðu úr PCR prófi sem væntanleg er á morgun, föstudag. Þar til niðurstaða liggur fyrir er áhöfnin í sóttkví. Á sama hátt hefur annar starfsmaður í landi einnig verið greindur jákvæður með hraðprófi og hluti starfsfólks farið í sóttkví þar til niðurstaða liggur fyrir úr PCR greiningu á morgun. Af þeim sökum verður skrifstofa fyrirtækisins í Hnífsdal lokuð á morgun.

föstudagurinn 25. júní 2021

Langþráð laxeldisleyfi

 

Matvælastofnun og Umhverfisstofnun gáfu í dag út starfs- og rekstrarleyfi fyrir 6.800 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi á vegum Háafells ehf. Um er að ræða tímamót í sögu Háafells, og móðurfélags þess, Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf., en félögin lögðu fyrst inn tilkynningu um 7.000 tonna laxeldi í nóvember 2011. Ferlið hefur því allt í allt tekið hátt í 10 ár. Háafell er 100% í eigu Hraðfrystihússins- Gunnvarar hf. og er eignarhaldið því alfarið íslenskt.

Undirbúningur fyrir laxeldið sjálft er nú í fullum gangi. Í seiðaeldisstöð fyrirtækisins á Nauteyri eru laxaseiði sem verða klár til útsetningar í utanverðum Skötufirði vorið 2022. Með leyfisveitingunni hafa svo myndast forsendur til áframhaldandi fjárfestinga.

Gauti Geirsson, framkvæmdastjóri Háafells: „Þetta er risastór áfangi, ekki bara fyrir okkur heldur líka íbúa við Ísafjarðardjúp og svæðið allt. Nú hefst uppbyggingartímabil en á sama tíma er mikilvægt að vanda sig, Ísafjarðardjúp er verðmæt auðlind sem þarf að nálgast og nýta af virðingu og varfærni. Háafell hefur frá upphafi unnið að því að haga eldinu með þeim hætti að það hafi sem minnst neikvæð áhrif á náttúru eða aðra nýtingu. Með réttum aðferðum geta ólíkir hagsmunir farið vel saman. Sömuleiðis er mikilvægt fyrir okkur að nærsamfélögin eflist og styrkist með uppbyggingunni. Þessum leiðarstefum ætlum við að fylgja og við hlökkum til að hefjast handa.“

föstudagurinn 18. júní 2021

Gauti Geirsson nýr framkvæmdastjóri Háafells

Háafell ehf., fiskeldisfyrirtæki í eigu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf., hefur ráðið Gauta Geirsson sjávarútvegsfræðing sem framkvæmdastjóra félagsins. Framundan er mikil uppbygging á vegum Háafells en félagið hefur stundað fiskeldi í Ísafjarðardjúpi frá árinu 2001. Háafell hefur leyfi fyrir 800 tonna eldi á laxi og regnbogasilungi í seiðaeldisstöð sinni á Nauteyri ásamt 7.000 tonna leyfi í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi fyrir eldi á regnbogasilungi. Nú er eldi á regnbogasilungi á vegum félagsins á tveimur stöðum í Ísafjarðardjúpi, í Álftafirði og undir Bæjahlíð innan við Æðey. Auglýst hefur verið 6.800 tonna laxeldisleyfi Háafells í Ísafjarðardjúpi og stefnt er að útsetningu fyrstu laxaseiða í Ísafjarðardjúp snemma næsta vor.

Gauti er 28 ára Ísfirðingur og er með B.Sc. próf í sjávarútvegsfræðum frá háskólanum í Tromsø og vinnur nú að meistaraverkefni í sömu fræðum sem hann líkur næsta vor. Gauti hefur unnið fyrir Háafell frá árinu 2017 sem verkefnastjóri og þekkir því vel til reksturs og starfsemi Háafells.Gauti er í sambúð með Elenu Dís Víðisdóttur verkfræðinema og eiga þau von á sínu fyrsta barni í sumar.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins- Gunnvarar: „Það er mikill fengur fyrir félagið að tryggja okkur starfskrafta Gauta til þess að takast á við áskoranir í ört vaxandi fyrirtæki. Og einstaklega ánægjulegt að vel menntað fólk fái starf við hæfi í heimbyggð. Hraðfrystihúsið-Gunnvör hefur verið með starfsemi hér við Djúp í rúm 80 ár og hyggst gera það áfram. Því er mikilvægt að tryggja okkur gott fólk til starfa að þeim spennandi verkefnum sem fram undan eru í fiskeldi á Íslandi.“

Gauti Geirsson: „Það er heiður að fá að taka þátt í þessari uppbyggingu á vegum Háafells. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa undanfarin 20 ár öðlast mikla reynslu af fiskeldi í Ísafjarðardjúpi og vandvirkni þeirra og sýn hafa heillað mig. Ég hlakka til að takast á við þessa áskorun með góðum samstarfsmönnum og er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt.“