Tíðindi

miðvikudagurinn 28. júní 2017

Farsæl 44 ár hjá Páli Pálssyni ÍS 102.

Skuttogarinn Páll Pálsson ÍS 102 landaði í morgun í síðasta sinn afla til vinnslu hjá Hraðfrystihússinu – Gunnvöru hf. í Hnífsdal, en eins og kunnugt er hefur skipið verið selt til Vinnslusvöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum.  Í nær fjörutíu og fimm ár hefur Páll verið gerður út frá Hnífsdal og verið burðarás í landvinnslu fyrirtækisins.  Í haust tekur síðan nýr Páll Pálsson ÍS 102, við keflinu en unnið er að lokafrágangi hans Kína.

Páll var einn af fyrstu skuttogurum Íslendinga þegar hann kom nýr til landsins í febrúar 1973 frá Japan þar sem hann var smíðaður.  Ýmsar nýjungar fylgdu komu skuttogaranna, t.d. gjörbreyttist öll aðstaða fyrir áhöfn og byrjað var að ísa aflann í plastkassa um borð. Síðar komu fiskkerin og öflugri og betri kæling til sögunnar en skipið fór í endurbætur og lengingu árið 1988 í Póllandi.  Aflasæld hefur fylgt skipinu alla tíð og hefur það borið að landi um 220 þúsund tonn af fiski sé miðað óslægðan afla uppúr sjó.  Aflaverðmætið þessi fjörutíu og fimm ár á núverandi verðlagi er um 45 milljarðar króna.   

Slíkum árangri er ekki hægt að ná nema með góðu skipi og vel mannaðri áhöfn. Mannabreytingar hafa verið mjög litlar í áranna rás, sem sést best á meðalstarfsaldur áhafnar áhafnarinnar er yfir 20 ár. Meðal þeirra sem nú eru í áhöfn hefur Guðmundur Sigurvinsson vélstjóri verið lengst eða í 36 ár samfleytt Páli en hann hefur ákveðið að nú sé komið gott og fer í land.  Aðeins þrír skipstjórar hafa verið á skipinu, Guðjón Arnar Kristjánsson sótti Pál til japan og var skipstjóri í 19 ár, Kristján Jóakimson var skipstjóri í 4 ár,  en lengst hefur Páll Halldórsson verið skipstjóri en hann hefur verið við stjórnvölinn síðastliðin 22 ár. Nú styttist í að Páll haldi til Kína til þess að sækja nýjan og glæsilegan Pál Pálsson.

Við þessi tímamót vilja stjórnendur Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf,  þakka núverandi og fyrrverandi skipverjum Páls Pálssonar samstarfið og óska þeim velfarnaðar.

miðvikudagurinn 21. júní 2017

Niðurstaðan vonbrigði

Í gær, þann 20. júní, ógilti úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála starfsleyfi Háafells fyrir eldi á 6.800 tonna framleiðslu á regnbogasilungi og 200 tonna framleiðslu á þorski.  Úrskurðarnefndin telur að málsmeðferð Umhverfisstofnunar við útgáfu starsleyfisins hafi ekki verið fullnægjandi.

Kristján G. Jóakimsson verkefnastjóri Háafells segir niðurstöðuna vonbrigði: „Fyrirtækið hóf umsóknarferli vegna eldis fyrir sex árum og mikil áhersla hefur verið lögð á að vanda vel til verka og uppfylla ítrustu kröfur sem gerðar eru lögum samkvæmt og koma til móts við ólík sjónarmið. Það eru því vonbrigði að niðurstaðan skuli vera þessi en rétt að hafa í huga að athugasemdir úrskurðarnefndarinnar snúa að tæknilegum atriðum innan stjórnsýslunnar, en ekki Háafelli.“

Kristján segir að úrskurðurinn ætti ekki að setja fyrirætlanir Háafells í uppnám, tiltölulega auðvelt ætti að vera fyrir stjórnsýsluna að laga þá annmarka sem úrskurðarnefndin bendir á:

„Úrskurðurinn veitir væntanlega færi á því að Umhverfisstofnun fari vel yfir sína ferla og bæti úr þeim annmörkum sem úrskurðarnefndin bendir á. Ég sé ekki hvernig Háafell hefði átt að standa öðruvísi að sínum hlut. Við höfum fylgt eftir bókstaf laganna í einu og öllu. Við erum nú á lokametrunum með umhverfismat vegna laxeldis í Ísafjarðardjúpi, við höfum lagt mikla vinnu í allt ferlið og því ættum við, gangi allt eftir, að geta haldið áfram markvissri uppbyggingu á eldi í Ísafjarðardjúpi í haust eða strax á nýju ári.“ 

fimmtudagurinn 25. maí 2017

Heilsufarsskoðun starfsmanna.

Heilsubankinn í samstarfi við SÍBS komu í vinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. í dag og bauð þeim starfsmönnum sem vildu upp á heilsufarsskoðun. Í heilsufarsskoðuninni var meðal annars mældur blóðþrýstingur, blóðfita, blóðsykur og súrefnismettun auk þess sem starfsfólki var boðið að taka þátt í könnun um lífsstíl og heilsufar. Mikil ánægja var meðal starfsmanna með verkefnið og tóku allir starfsmenn í vinnslunni í Hnífsdal þátt, auk sjómanna af ísfisksskipum félagsins.

Hraðfrystihúsið – Gunnvör hf. þakkar Heilsubankanum og SÍBS kærlega fyrir komuna.

fimmtudagurinn 20. apríl 2017

Gleðilegt sumar!

Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. óskar starfsfólki sínu gleðilegs sumars.

Áralöng hefð er fyrir því að unnið sé á sumardaginn fyrsta í bolfiskvinnslu félagsins í Hnífsdal og sumardagsfríið tekið út daginn eftir. Með því nær starfsfólkið lengra helgarfríi. Það eru félagar í  Kvenfélaginu Hvöt í Hnífsdal sem sjá um veglegt bakkelsi með sumardagskaffinu og ágóðinn rennur síðan til góðra málefna í nærsamfélaginu. Sumar og vetur frusu saman en þegar slíkt gerist segir íslensk þjóðtrú að það boði gott sumar.

föstudagurinn 3. mars 2017

Skipsnafnið Júlíus Geirmundsson ÍS 270 í hálfa öld

Skipsnafnið Júlíus Geirmundsson ÍS 270 hefur nú verið samfleytt í hálfa öld og fjögur skip borið það hingað til. Fyrsta skipið með þessu nafni kom til heimahafnar á Ísafirði þann 2. mars 1967 eða fyrir sléttum fimmtíu árum. Lauslega áætlað hafa þessi fjögur skip borið að landi rúmlega 200 þúsund tonn af fiski.

Nánar má lesa um sögu nafnsins hér.