föstudagurinn 6. desember 2002
Þann 5. desember 1972 kom í fyrsta sinn til hafnar á Ísafirði skuttogarinn Júlíus Geirmundsson. Í dag eru því 30 ár frá skuttogaravæðingu á Vestfjörðum.
Júlíus var fyrstur í röð 6 togara sem samið hafði verið við norska skipasmíðastöð um smíði á. Kaupverðið var 120 milljónir sem gætu verið um 460 til 480 milljónir á verðlagi dagsins í dag. Systurskip Júlíusar eru Framnes ÍS-708 og Stefnir ÍS-28 sem Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf gerir út, Stefnir er að vísu aðeins lengri. Júlíus var 46 metrar á lengd og 9,5 metrar á breidd. Við smíði skipsins var lögð áhersla á hagkvæmni í rekstri og að öll vinna um borð yrði sem léttust. Júlíus var fyrsti togarinn þar sem hægt var að blása ísnum beint í kassa í lestinni. Einnig var í togaranum flottrollsvinda.
Á skipinu var 15 manna áhöfn og skipstjóri var Hermann Skúlason. Júlíus þjónaði ísfirðingum í tæp 7 ár en þá var hann endurnýjaður með stærra skipi.
Næsti skuttogari sem kom til Ísafjarðar var Páll Pálsson en hann kom 21. febrúar 1973. Núverandi Júlíus Geirmundsson er þriðji skuttogarinn með sama nafni en fyrstur til að fá nafnið Júlíus Geirmundsson var 250 tonna bátur smíðaður í Austur-Þýskalandi og kom til Ísafjarðar 2. mars 1967.
Júlíus Geirmundsson sem kom fyrir 30 árum heitir nú Hornsund og er skráður í Murmask en eigendur eru norskir.