Tíðindi

mánudagurinn 2. nóvember 2015

Ómar Ellertsson

Ómar Ellertsson var stýrimaður og mjög farsæll og fiskinn skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 (fjórum skipum í röð með því nafni) samfleytt í 47 ár og hálfu ári betur. Hann útskrifaðist frá Sjómannaskólanum 11. maí 1968, á sjálfan lokadaginn, og var í fyrstu stýrimaður hjá Hermanni Skúlasyni og tók svo við skipstjórninni af honum. Reyndar er sjómannsferill Ómars talsvert lengri en þetta, eða liðlega 54 ár.

Frá þessu spjalli við Ómar er gengið í október 2015 þegar hann er í síðasta túrnum sínum, en hann varð 68 ára fyrr í mánuðinum.

Ómar hefur lifað mikla breytingatíma hvað varðar vinnuaðstöðu á sjónum og aðra aðstöðu um borð, ekki síst frá bátunum til skuttogaranna þegar þeir komu á árunum um og upp úr 1970. „Á bátunum varð að beygja sig eftir hverjum einasta fiski, en þegar komið var á skuttogarana kom fiskurinn í mátulegri hæð til að slægja hann.“ 

Frá upphafi skuttogaraaldar hafa líka orðið miklar breytingar. „Það er mjög vel búið að mannskapnum á þessum nýju skipum og mikill munur frá því sem var. Íþróttatæki um borð, göngubretti og gufubað, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Ómar.

Fjölskylda og fyrstu sjómannsár

Ómar Guðbrandur Ellertsson, eins og hann heitir fullu nafni, fæddist á Ísafirði 12. október 1947. Foreldrar hans voru Ellert Eiríksson matsveinn (Ellert Finnbogi) og Fanney Guðbrandsdóttir (Ísól Fanney). Eiginkona Ómars er Ásgerður Annasdóttir (Ásgerður Hinrikka), Ísfirðingur að uppruna eins og hann. 

„Ég fór fyrst á sjó 1961 þegar ég var fjórtán ára, á handfæri með Agnari Guðmundssyni,“ segir Ómar. „Hann átti lítinn bát sem hét Ver, kallaður Koddaver. Þetta var eitthvað um tólf til fjórtán tonna bátur. Við vorum þrír þrettán-fjórtán ára unglingar með kallinum. Hann var orðinn mjög fullorðinn en gekk mjög vel að veiða. Þá voru nú græjurnar ekki meiri en það, að hann var ekki með dýptarmæli, en kallinn vissi samt alltaf hvað dýpið var.“ 

Í febrúar 1963 fór Ómar á Gylfa ÍS með Sturlu Halldórssyni, síðar hafnarverði á Ísafirði. Sturla átti bátinn ásamt Ólafi bróður sínum. Þetta var upphaflega einn af hinum þekktu Samvinnufélagsbátum á Ísafirði, einn af Björnunum gömlu, eitthvað rúmlega sextíu tonn.

„Við rerum frá Reykjavík og vorum á netum og fiskuðum mjög vel. Síðan fór ég aftur á Gylfa um sumarið á snurvoð frá Reykjavík. Í mars árið eftir fór ég á Pál Pálsson ÍS á þorskanet og var síðan á honum á síld yfir sumarið. Fór svo á Guðrúnu Guðleifsdóttur ÍS þegar báturinn kom hingað nýr 1964, hann var keyptur í staðinn fyrir Pál, og var á honum til 1966 þegar ég fór í Sjómannaskólann. Á milli bekkja fór ég á síld á Guðbjörgu ÍS með Geira Bjartar.“

Þeir segja misjafnlega satt

Mesta óðafiskirí sem Ómar man eftir var á Strandagrunni á flottrolli á fyrri ísfisktogaranum með nafninu Júlíus Geirmundsson, líklega árið 1977. „Fyllti hann í fjórum holum. Það var ógurlegt mok. Eintómur þorskur.“

Þegar Ómar er spurður hvernig ákveðið sé hvert skuli halda til veiða hverju sinni segir hann: „Maður fær fréttir af því hvar flotinn er. Svo verður bara að meta það hvert er álitlegast að fara. Maður hefur alltaf símann. Hafró veit ekki neitt.“

Og þegar Ómar er spurður hvort skipstjórar séu fúsir að láta aðra vita hvar fiskurinn er, þá svarar hann og hlær: „Það hafa menn alltaf gert, en þeir segja misjafnlega satt, maður veit aldrei um það fyrirfram.“ 

Aldrei alvarleg slys

Að sjálfsögðu hefur Ómar oft lent í vondum veðrum á sínum langa ferli, annað hvort væri. „Ég man sérstaklega eftir einum túr, þá var ég með Júlíus Geirmundsson, fyrsta bátinn. Var þá stýrimaður með Hermanni Skúlasyni. Þá höfðum við verið á veiðum austur á Sléttugrunni og vorum á leið heim með fullan bát af fiski. Það var farið inn undir Grímsey um nóttina og legið þar, það spáði illa, og svo var aftur lagt af stað heimleiðis þegar birti. Við fórum mjög djúpt út af Horni til að fá beint lens þegar maður kom út af Vestfjörðum. Það var ógurlegur sjór. Bessinn frá Súðavík var að sigla með okkur, bátur smíðaður hjá Marzellíusi. Það kom brot aftan á hann og eitthvað brotnaði hjá þeim.“

Aðeins einu sinni fékk Ómar á sig brot sem olli skemmdum, en þær voru mjög smávægilegar. „Það brotnaði ein rúða. En ekkert slys, sem betur fer. Þá vorum við bara að lóna og það kom hnútur á hann. Það átti enginn von á þessu.“

Aldrei urðu nein alvarleg slys um borð hjá Ómari. Hann nefnir þó einn manntapa, sem reyndar er ekki hægt að kalla slys í venjulegri merkingu þess orðs. „Við vorum á útleið og svo kom í ljós að það vantaði einn manninn. Hann bara lét sig hverfa á útleiðinni og skildi úlpuna sína eftir. Þetta er það eina sem ég hef lent í.“

– Hvernig er það við leiðarlok sem þessi, að koma í land eftir öll þessi ár á sjónum? Er það söknuður eða er það léttir?

Ómar hugsar sig um og segir svo: „Ætli það sé ekki bara bæði!“

– Hlynur Þór Magnússon færði í letur í október 2015 (útdráttur úr ítarlegra viðtali).

 _________________________ 

Nokkrir menn sem gjörþekkja Ómar Ellertsson eftir langa veru með honum á sjó voru beðnir að lýsa manninum, segja frá kynnum sínum honum og samstarfinu við hann og segja af honum sögur. Brot úr mannlýsingunum fara hér á eftir. 

Við erum allir ríkari eftir samstarfið

Mér hefur alla tíð þótt mjög gott að vinna með Ómari, hann er hreinskilinn maður, traustur, lætur ekki vaða yfir sig, er góður yfirmaður, góður samstarfsmaður og einstaklega geðgóður. Ég tel hann hafa kennt mér og félögum okkar margt sem mun nýtast okkur öllum til framtíðar.

Ómars verður saknað um borð í Júlíusi, en við erum allir ríkari eftir samstarfið.

– Sveinn Geir Arnarsson,

stýrimaður á Júlíusi Geirmundssyni.

Gaman að fá góðan mat 

Ómar er hress og skemmtilegur karakter, hefur gengið vel að fiska og hefur stýrt sínu skipi heilu í höfn alla tíð. Hann var vinur sinna manna um borð og kom mjög vel fram við alla, sama hver störf þeirra voru. Allir voru jafnir í hans augum.

Öllum finnst okkur gaman að fá góðan mat hjá kokkunum. Þar var Ómar Guðbrandur Ellertsson skipstjóri á Júlíusi Geirmundssyni ÍS sannarlega engin undantekning. 

– Þór Ólafur Helgason,

yfirvélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni. 

Góð fyrirmynd sem yfirmaður 

Ég er búinn að vera á Júlíusi í þó nokkur ár, og síðustu ár sem stýrimaður hjá Ómari. Okkur hefur gengið vel saman. Hann er góð fyrirmynd sem yfirmaður, alltaf léttur í lund, yfirleitt þolinmóður og ákveðinn. Ég hef lært margt hjá honum.

Ég veit að hann á eftir að fylgjast vel með okkur, hringja reglulega og fylgjast með okkur í tölvunni heima hjá sér.

– Njáll Flóki Gíslason,

stýrimaður á Júlíusi Geirmundssyni.

Dáðadrengur og frábær vinur

„Hann var sjómaður dáðadrengur.“ Ég var svo heppinn að vera skipsfélagi Ómars á öllum togurunum sem borið hafa nafnið Júlíus Geirmundsson. Það er alveg á hreinu, að Ómar Guðbrandur Ellertsson er dáðadrengur og frábær vinur. Þó að yfirleitt hafi verið létt yfir Ómari gat hann líka verið ákveðinn og fylginn sér.

Velkominn í land, vinur og bróðir, og njóttu efri áranna.

– Þorlákur Kjartansson (Láki),

fyrrum yfirvélstjóri á Júlíusi Geirmundssyni.

fimmtudagurinn 22. október 2015

Á vaktinni í 50 ár

Sveinn Guðbjartsson rafvirkjameistari starfaði hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal í liðlega 49 ár eða frá 15. mars 1966 til 1. júní 2015, þegar hann var rétt að verða 76 ára. Lengst af var hann verkstjóri en gekk annars í störf af nánast öllu tagi eftir þörfum hverju sinni. „Þetta er búið að vera heilt ævintýri, þessa hálfu öld hefur orðið svo mikil bylting í öllu,“ segir hann, og bætir við, að vinnuaðstaða í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal hafi alltaf verið afskaplega góð og einstök snyrtimennska að sama skapi.

 

„Það sem hefur einkennt þetta fyrirtæki alla tíð og haldið því á floti er hvað það hafa verið einstaklega góðir menn við stjórnvölinn, reglusamir og traustir menn,“ segir hann. „Strax í upphafi litu forsvarsmenn þessa fyrirtækis svo á, að það væri byggðin hér sem ætti að njóta góðs af því og hafa þar atvinnu. En það er nú eins og gengur, það eru fáir eftir sem vilja orðið vinna við þetta.“

 

Sveinn Guðbjartsson (Sveinn Árni) fæddist á Ísafirði 15. september 1939. Foreldrar hans voru Guðbjartur Jónsson (1911-1991), sjómaður, verkstjóri og skipstjóri á Ísafirði, og Sigríður Ólöf Jónsdóttir (1911-1998), saumakona á Ísafirði. „Ég er alinn upp í fjörunni í þessu góða útgerðarplássi og fylgdist með mönnum eins og Ásgeiri Guðbjartssyni og öðrum þegar þeir voru að byrja. Pabbi var líka skipstjóri á þeim árum þegar ég er að alast upp,“ segir hann.

 

Lengst af starfstímanum hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal var Sveinn verkstjóri. „Mest var ég útiverkstjóri en svo leysti ég inniverkstjórann af þegar hann fór í frí eða var fjarverandi einhverra hluta vegna. Ég held að ég sé búinn að vera þar í nánast öllum störfum, fyrir utan að vera á skrifstofunni. Það má segja að ég hafi verið hingað og þangað og alls staðar.“

 

Eftirminnilegir samstarfsmenn

 

„Hverjir eru mér sérstaklega eftirminnilegir? Það eru náttúrlega þessir höfðingjar sem ég byrjaði að vinna með. Þar er fyrst að nefna Jóakim Pálsson stjórnarformann, sem bað mig að koma og gekk á eftir mér að koma. Þá var Einar Steindórsson vinur minn framkvæmdastjóri fyrirtækisins og var það lengi eftir það, mikill höfðingi og duglegur. Heiðarlegur fram í fingurgóma og góður náungi, einstaklega vinnusamur og gaman að vinna með honum.

 

Einar var heimagangur hjá mér. Hann var framkvæmdastjóri á mjög erfiðum tíma og með honum var Ingimar Finnbjörnsson. Hjörtur Guðmundsson var vélstjóri þegar ég kom til starfa. Ég vann ekki lengi með honum, hann lifði nú ekki árið eftir að ég kom, en það myndaðist líka hjá okkur mjög traust og góð vinátta. Hjörtur var afskaplega duglegur og ósérhlífinn, heiðarlegur og raungóður maður, að mér fannst.

 

Þegar ég kem er Halldór Pálsson verkstjóri í salnum, geysilega mikið snyrtimenni, og húsið hefur alla tíð búið að því, bæði hvað varðar hreinlæti og snyrtimennsku. Ekki dró úr því þegar Kristján G. Jóakimsson kom þarna inn, hann er afskaplega harður á allri umgengni og snyrtimennsku.

 

Síðan koma þeir í land af sjónum, Jóakimarnir. Ég þekkti þá nú fyrir. Þegar ég var í Neista, þá kynntist maður öllum sjómönnum, en þó aðallega skipstjórum og vélstjórum. Maður þurfti að vinna í bátunum og þá voru þeir yfirleitt með manni.

 

Enginn hefur unnið lengur hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal en Pétur Þorvaldsson. Hann byrjaði á bátunum og var mjög lengi á sjónum, og þegar hann kom í land vann hann í frystihúsinu á meðan hann hafði starfsorku til. Einstaklega traustur maður. Hann var fyrst hjá Jóakim Hjartarsyni og meðeigandi, og þegar hann hætti um tíma, þá fór Pétur yfir til Jóakims Pálssonar og var með honum þangað til hann hætti. Eftir það var hann áfram eitt ár á Guðrúnu Guðleifsdóttur og kom svo í land. Ætli við Pétur höfum ekki verið starfsfélagar í þrjátíu ár.

 

Það var svipað með Kristján Kristjánsson, son Kristjáns skólastjóra. Ætli hann hafi ekki verið hér nálægt fjörutíu árum. Reglumaður mikill í alla staði og áreiðanlegur.

 

Það var mikið slys þegar þeir misstu bát, Svaninn RE, á Þorláksmessu 1966. Um svipað leyti hætti Karl Sigurðsson skipstjóri með Mími og hann kom í land og gerðist vélstjóri í frystihúsinu. Þá voru alltaf tveir vélstjórar í húsinu. Hann var með mér í nokkuð mörg ár, traustur og góður kall. Það einkenndi þessa menn alla hvað þeir voru traustir.“

 

Skrifstofufólk og skipstjórar

 

„Það var alltaf einstaklega góð samvinna milli mín og skrifstofufólksins. Helga Jóakimsdóttir er búin að vera mjög lengi á skrifstofunni, geysilega traustur samstarfsmaður og óskaplega elskuleg og tilbúin að hjálpa mér og gera allt fyrir mig hvenær sem er. Ég var hlaupandi í allt og alls staðar og leysti menn af nánast hvar sem var, og þá var alltaf gott að hafa hana við hliðina á sér, og náttúrlega líka fleira fólk á skrifstofunni.

 

Hansína Einarsdóttir var lengi á skrifstofunni. Það var undravert út af hennar veikindum hvað hún var lengi. Það var óskaplega gott að vinna með henni. Slíkt hefur reyndar alltaf fylgt þessu húsi og fram á þennan dag, alveg sama hvaða störf það voru sem fólk gegndi.

 

Þeir hafa líka verið heppnir með skipstjóra og sjómenn, afskaplega heppnir. Lengst af á þessu tímabili voru Addi Kitta Gau og Bernharð Överby skipstjórar, öðlingar báðir tveir. Það gat nú stundum heyrst í Adda, þó að hann væri ljúfmenni, en hann hafði þann stóra kost, að þó að fyki í hann eitt augnablik, þá var það undir eins úr honum og hann gat hlegið og tekið utan um þig eftir augnablik. En hann gat djöflast ef svo bar undir, og eins Bernharð. Óskaplega traustur maður, Bernharð Överby. Og sterkur. Þar meina ég sterkur á svo margan hátt. Menn þurfa ekki endilega að vera sterkir í puttunum til að vera sterkir. Menn geta verið andlega sterkir líka.“

 

Aldrei neinar afætur

 

„Á þeim tíma þegar Konráð Jakobsson var framkvæmdastjóri var Jóakim Pálsson stjórnarformaður og kominn í land og var toppurinn í fyrirtækinu með Jóakim Hjartarson með sér. Það var á þeim tíma eins og endranær hjá Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, að það voru virkilega traustir og góðir menn við stjórnina.

 

Ég hef orðað það þannig, að það hefur alltaf frá upphafi verið einhvers konar þríeyki í þessu og er enn. Og það hefur líka fylgt þessu fyrirtæki, að það hafa ekki verið neinar afætur. Það hafa verið margar afætur á ansi mörgum fyrirtækjum hér og leikið þau illa, því miður. Þarna hefur aldrei verið neitt slíkt.“

 

Feit og mögur ár

 

„Þetta snerist nú svona áfram í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal. Þar komu bæði feit og mögur ár, eins og hjá öllum fyrirtækjum. Það voru erfið ár 1966 til 1968, bæði að missa skip og líka svo margt annað. Síldin var að hverfa, algert fiskleysi þar. Þá kynntist maður kannski annarri hlið á þessum mönnum. Einar Steindórsson, þessi samviskusami framkvæmdastjóri og oddviti hérna, hann var hér allt í öllu, hann átti þá örugglega erfið ár, mjög erfið. En hann var nú alltaf eins, alltaf hress og léttur í viðmóti.

 

Já, þeir komu í land, Jóakimarnir, og fóru að vera meira í þessu í frystihúsinu. Jóakim Hjartarson var reyndar stundum á sjónum eftir það. Til dæmis þegar Svanurinn fórst, þá voru þeir búnir að kaupa bát frá Eskifirði sem hét Guðrún Þorkelsdóttir. Honum var gefið nafnið Ásgeir Kristján eftir skipstjóranum á Svaninum og Jóakim Hjartarson fer skipstjóri á hann og var með hann um veturinn eftir áramótin og fram á vor.“

 

Aldrei byggt bara til að byggja

 

„Með tímanum þegar ný skip komu, þá var þetta hús ekki lengur með þeim flottustu á landinu. Þetta var lítið hús. Þegar ég kom var engin vél. Það var rétt eftir að ég byrjaði, eða í september 1966, sem fyrsta flökunarvélin kom í húsið. Það er mér dálítið minnisstætt, því að þá sprakk í mér botnlanginn. Það var afmælisgjöfin mín, og þá var fyrsta flökunarvélin að koma.

 

Frá þeim tíma hefur verið mjög hröð og skemmtileg uppbygging í húsinu og alveg fram á þennan dag. Ég hef trú á því að þetta sé með allra fullkomnustu húsum í dag. Árið 1966 byrja menn að byggja upp, og það hefur tekist afskaplega vel. Ég held að það sé ekki einn einasti fersentimetri í þessu húsi sem ekki er nýttur. Það hefur aldrei verið byggt bara til að byggja. Það hafa aldrei verið einhverjir steinsteypukofar einhvers staðar sem ekki hafa verið nýttir. Áður en ég kom byggðu þeir beinaverksmiðju og voru sjálfum sér nógir á flestöllum sviðum, enda voru samgöngur ekki eins öruggar og tíðar og góðar og þær eru í dag og vegirnir ekki eins góðir.

 

Það urðu geysileg umskipti hér þegar Páll Pálsson kom í febrúar 1973, í upphafi skuttogaraaldar. Maður er oft að hugsa um það núna hvernig hlutirnir voru áður. Ég veit ekki hvað það voru mörg ár sem var unnið hvern einasta laugardag. Þó nokkrir menn sem voru þarna í viðhaldi og öðru unnu líka alla sunnudaga. Ég vona að sú tilhögun sem þá var í þessu komi ekki aftur. Það var aldrei friður og ekki farið vel með hráefnið, alls ekki farið vel með hráefnið. Síðan hefur orðið bylting í því efni eins og öðru.“

 

– Hlynur Þór Magnússon færði í letur í október 2015 (útdráttur úr miklu ítarlegra viðtali).

 

fimmtudagurinn 18. júní 2015

100 ár frá fæðingu Jóakims Pálssonar

Laugardaginn 20. júní eru 100 ár liðin frá fæðingu Jóakims Pálssonar.  Í bókinni Með háfjöll á aðra hönd og ólgandi haf á hina, 70 ára sögu Hraðfrystihússins í Hnífsdal 1941-2011,  segir m.a.:

Jóakim er síðastur frumherjanna í Hnífsdal er fellur frá.  Hann var einn af  þeirri kynslóð er tók við arfi feðranna, sem börðu sjóinn með árinni við upphaf vélbátaútgerðar á Íslandi á árdögum þeirrar aldar, sem nú er senn til enda runnin.

Hann fékk ungur það veganesti, sem dugði honum til átaka í lífsbaráttunni, hann var “athafnaskáld” svo sem mælt hefur verið um marga hans líka.  (Morgunblaðið, 14. september 1996, bls. 34)

Jóakim Pálsson fæddist í Hnífsdal,  20. júní 1915.   Fjórtán ára gamall hóf hann að stunda sjó með föður sínum, en 24 ára gamall stofnar hann ásamt nokkrum félögum sínum, útgerðarfélagið Hauk hf. og festi það kaup á 15 tonn bát, sem smíðaður var hjá Marsellíusi Bernharðssyni á Ísafirði.     Jóakim var skipstjóri á fjórum bátum, sem báru nafn föður hans, Páll Pálsson, á árunum 1939 til 1964 en síðustu fjögur ár skipstjóraferils síns á Guðrúnu Guðleifsdóttur, sem bar nafn móður hans. 

Jóakim var í varastjórn Hraðfrystihússins hf. frá stofnun til ársins 1947, síðan í aðalstjórn og formaður stjórnar frá árinu 1951 til aðalfundar árið 1994.  Hann var um árabil framkvæmdastjóri Mjölvinnslunnar hf og Miðfells hf.

Um hann segir Guðmundur Guðmundsson útgerðarmaður í minningargrein:

Eiginkona Jóakims var Gabríella Jóhannesdóttir og eignuðust þau sex börn.   Sambýliskona Jóakims síðustu árin var Sigríður Sigurgeirsdóttir. 

föstudagurinn 5. júní 2015

Saga Rauða hússins

Hraðfrystihúsið Gunnvör stóð nýlega fyrir því að útbúa og setja upp upplýsingaskilti á Rauða húsið svokallaða við höfnina á Ísafirði þar sem tilurð og saga þess er tíunduð. Hús þetta er allmerkilegt, enda var það byggt á Hesteyri upp úr aldamótunum 1900 þar sem það var notað sem íbúðarhúsnæði í tengslum við veiðar og vinnslu á hval og síðar síld, allt fram til ársins 1940. Fiskiðjan flutti húsið svo í pörtum til Ísafjarðar árið 1956 þar sem það var endurreist og var lengi vinnsluhús.

Í dag er húsið nýtt sem geymsluhúsnæði fyrir útgerð Gunnvarar, en ítarlegra söguágrip hússins má finna á vef fyrirtækisins.

Nánari upplýsingar hér.

fimmtudagurinn 23. apríl 2015

Smíði á nýjum Páli Pálssyni ÍS-102 formlega hafin

Smíði á nýju skipi Hraðfrystihússins-Gunnvarar hófst formlega á dögunum, en hinn 18. apríl kl. 10:38 hófst stálskurðurinn í skipasmíðastöðinni í Kína. Tímasetningin er engin tilviljun því að Kínverjar telja að tölunni 8 fylgi gæfa. Við þetta tækifæri voru einnig sprengdir margir Kínverjar eins og alsiða er þar í landi.

Skipið mun hljóta nafnið Páll Pálsson ÍS-102, en undirbúningurinn að smíðinni hefur tekið um ár, sem er nokkru lengri tími en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Nú þegar hafa allir stærri hluti sem munu fara í skipið verið valdir, ss. vélar, framdrifsbúnaður og allur spilbúnaður.

Aðalvél skipsins var prufukeyrð á plani í samsetningarverksmiðjum MAN turbo & diesel í Aurangabad í Indlandi þann 6. apríl síðastliðinn. Prófanirnar aðalvélarinnar komu að öllu leyti vel út.

Finnur Kristinsson hefur verið ráðinn eftirlitsmaður með smíði Páls Pálssonar og Breka VE, sem er smíðaður í sömu skipasmíðastöð. Finnur, sem var yfirvélstjóri á Arnari HU frá Skagaströnd til fjölda ára, verður staðsettur í skipasmíðastöðinni, en honum til aðstoðar hefur verið ráðinn kínverskur tæknifræðingur.

Þegar lengra líður á verkið er gert ráð fyrir að vélstjórar frá útgerðunum verði einnig við eftirlit auk þess sem aðrir starfsmenn fyrirtækjanna koma að verkinu.

Hér er listi yfir helsta búnað skipanna:

  • Aðalvél: MAN Diesel & Turbo type 6L27/38 1790 Kw
  • Gír: Reintjes  gírhlutfall 9,2:1
  • Skrúfubúnaður: MAN ,skrúfa 3 blöð, þvermál 4,7 m.
  • Ásrafall: AEM 40 – 50 Hz 1500 KVA
  • Ljósavélar: Caterpillar C18 400 Kw og C9 142 Kw
  • Vindur: Naust Marine / Ibercisa, allar vindur rafdrifnar.
  • Stýrisvél: Scan Steering
  • Skilvindur: Alfa Laval
  • Loftþjöppur: Sperre
  • Léttabátur: Norsave
  • Dekkkrani: Palfinger
  • Löndunargálgi: Shanghai Goodway Marine Engineering Co.
  • Dælur: Ascue
  • Krapaísvél: North Star / Bitzer
  • Aðaltafla: SAM electronics
  • Siglingar og fiskileitartæki: Furuno, Simrad
  • Útihurðir: Libra

Fylgist með á Fésbókar síðu nýsmíðarinnar.