Tíðindi

fimmtudagurinn 27. janúar 2011

Opið hús og hóf í tilefni sjötugsafmælis

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. á afmæli og fagnar að sjálfsögðu áfanganum eins og afmælisbörn á besta aldri gjarnan gera! Eigendur og starfsmenn fyrirtækisins minnast þess að 19. janúar 2011 voru 70 ár liðin frá formlegum stofnfundi Hraðfrystihússins hf. í Hnífsdal, vísi þess öfluga fyrirtækis sem starfar nú á gömlum merg og er ein af kjölfestum byggðar og samfélags á Vestfjörðum.

Við bjóðum Vestfirðingum að gleðjast með okkur í tilefni tímamótanna!

» Edinborgarhúsið á Ísafirði, föstudaginn 28. janúar,
   kl. 17:00-19.00: afmælishóf fyrir starfsfólk HG,
   viðskiptavini félagsins og aðra velunnara.

» Hraðfrystihúsið-Gunnvör við Hnífsdalsbryggju,
   laugardaginn 29. janúar, kl. 12:00-15:00: opið hús!
   Allir hjartanlega velkomnir í heimsókn til að kynna sér
   starfsemina eða einfaldlega til að sýna sig og sjá aðra!

Starfsfólk Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf.
miðvikudagurinn 19. janúar 2011

Kökur með morgunkaffinu í HG í tilefni sjötugsafmælis

„Við gerðum okkur dagamun í morgunkaffitímanum í tilefni tímamótanna en ætlum svo að halda myndarlega upp á afmælið lok næstu viku, 28. og 29. janúar með starfsfólkinu, viðskiptavinum og velunnurum okkar í byggðarlaginu. Það verður kynnt betur eftir helgina," segir Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins-Gunnvarar, í tilefni sjötugsafmælis fyrirtækisins í dag.

Það var einmitt 19. janúar 1941, fyrir nákvæmlega sjö áratugum, sem Hraðfrystihúsið hf. var formlega stofnað á skrifstofu Kaupfélags Hnífsdælinga. Sautján manns voru þar saman komnir til að samþykkja nýja félaginu lög og kusu fyrstu stjórn þess: Pál Pálsson formann og Elías Ingimarsson og Hjört Guðmundsson meðstjórnendur. Þar var lagður grunnurinn að því öfluga fyrirtæki sem HG síðar varð og Einar Valur segir að vissulega fari margt í gegnum hugann á þessum tímamótum.


„Uppbygging og rekstur fyrirtækisins hefur ekki gengið átakalaust og verið barningur á köflum. Þess vegna verður manni auðvitað hugsað til frumkvöðlanna að stofnun þessa félags á styrjaldarárunum, fyrir stofnun lýðveldis á Íslandi. Sjötíu ár eru í sjálfu sér ekki langur tími en það er samt ekki sjálfgefið að fyrirtæki lifi svo lengi. Tilfinningar eru líka blendnar nú þegar horft er til þess hve mikil óvissa ríkir um framtíð sjávarútvegsfyrirtækja og sjávarútvegsins yfirleitt sem atvinnugreinar. Það er stærsta ógnin sem steðjar að okkur sem störfum í greininni. Við báðum ekki um kvótakerfið á sínum tíma en því fyrirkomulagi var komið á og það er staðreynd. Þeir sem með landsstjórnarmálin fara boða nú í síbylju að leysa beri upp fiskveiðistjórnarkerfið með tilheyrandi afleiðingum fyrir sjávarútvegsfyrirtækin og samfélagið allt. Slíkt skapar óvissu sem í sjálfu sér er orðin efnahagsvandamál og það af mannavöldum. Vissulega er gaman í afmælisveislum en óneitanlega er óvissuástandið í rekstrarumhverfinu skarð í gleðina."

föstudagurinn 7. janúar 2011

Ganga í augun á bresku stelpunum í biðröðinni

Strákarnir í áhöfn Júlíusar Geirmundssonar eiga orðið fríðan flokk aðdáenda utan landsteinanna. Myndir af þeim hanga nú uppi á vegg og blasa við viðskiptavinum Fish‘n‘Chicken á einum veitingastað fyrirtækisins í Englandi og þykja mikil prýði. Hermt er að myndir af skipverjum veki óskipta athygli ungra kvenna í biðröðinni eftir „Fish‘n‘chips" skammtinum sínum.

Undanfarin fimmtán ár hefur áhöfnin á Júlíusi Geirmundssyni unnið sérstaklega þorskflök með roði fyrir veitingastaðakeðjuna Fish‘n‘Chicken. Að baki þessarar stærstu keðju sinnar tegundar þar um slóðir stendur fjölskyldufyrirtæki. Veitingastaðir hennar eru orðnir á fjórða tug. Á meðal einkunnarorða þess er „We work hard to bring you great fish" (Við leggjum okkur fram um að færa ykkur fyrirtaks fisk).

Fyrirtækið, sem aðallega selur á fisk- og kjúklingarétti, leggur ofurkapp á gæði alls hráefnis og íslenski fiskurinn er þar enginn undantekning. Samskipti HG og Fish‘n‘Chicken hafa verið með miklum ágætum allt frá upphafi og þar ríkir gagnkvæmt traust á milli kaupanda og seljanda, sem er undirstaða farsælla viðskipta.

Þau eru ekki mörg erlendu fyrirtækin sem auglýsa á íslenskum knattspyrnuvöllum. Það er því gaman að geta þess að merki Fish‘n‘Chicken er við knattspyrnuvöllinn á Torfnesi. Með þeim hætti sýnir þessi enski viðskiptavinur okkar m.a. með látlausum hætti að hann lætur sig samfélagið hér í heimabyggð varða.
mánudagurinn 3. janúar 2011

Gleðilegt ár

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf óskar starfsmönnum sínum til sjós og lands og fjölskyldum þeirra, viðskiptavinum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs með þakklæti fyrir samstarfið á árinu sem er að líða.
föstudagurinn 30. apríl 2010

Landvinnslu HG lokað í fjórar vikur í sumar

Starfsmönnum landvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf. í Hnífsdal og á Ísafirði var tilkynnt á starfsmannafundi í dag, að vegna sumarleyfa og fyrirsjáanlegs hráefnisskorts verði landvinnslu fyrirtækisins lokað í fjórar vikur í sumar, frá 11. júlí til. 8. ágúst. Undanfarin ár hefur vinnslunni yfirleitt verið lokað í eina til tvær vikur og starfsfólk þá nýtt tímann til sumarleyfa.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri H-G, segir skort á aflaheimildum meðal annars vegna tilflutnings á milli skipaflokka, meginorsök þess að sumarlokunin sé svo löng að þessu sinni. Af henni leiðir m.a. að fyrirtækið hefur lítið svigrúm til að ráða skólafólk í sumarvinnu í ár.


„Það er ömurlegt að standa frammi fyrir starfsfólkinu og reyna að útskýra fyrir því að það sé í raun verið að flytja atvinnu þess yfir til annarra. Það jákvæða í stöðunni hjá okkur er þó að vinnsla á rúmlega 1.000 tonnum af eldisþorski í vetur kemur í veg fyrir að við þyrftum e.t.v. að horfa til 10-12 vikna lokunar vinnslunnar í sumar," segir Einar Valur.