Tíðindi

fimmtudagurinn 1. september 2011

Íshúsfélagshúsinu „strokið“

Íshúsfélagshúsið við Eyrargötu hefur ekki bara fengið andlytslyftingu á ytra byrðinu að undanförnu, heldur má segja að innviðirnir hafi einnig gengið í endurnýjun lífdaga. Nýir leigjendur hafa komið sér þar fyrir og ný fisktegund, makríll, var í fyrsta sinn unnin í talsverðum mæli í landvinnslu HG í sumar.

Guðmundur Níelsson málarameistari og félagar hans, þeir Svanbjörn Tryggvason og Gunnar Sigurðsson, hafa undanfarið nýtt góða veðrið á Ísafirði til að mála og fegra húsnæðið að utan.


Fyrr í sumar bættust svo tveir nýir leigjendur í hóp þeirra sem eru með aðstöðu í húsinu. Um að ræða sprotafyrirtækin Kerecis og ArcTrac sem hafa komið sér fyrir á þriðju hæðinni. Við bjóðum þau hjartanlega velkomin í góðan hóp.


Á fjórðu hæðinni í húsinu er fyrir sem kunnugt er Sjúkraþjálfun Vestfjarða með sína starfsemi. Þar er bæjarbúum m.a. boðið upp á tækjasal til líkamsræktar. Á jarðhæðinni er Klofningur ehf. með starfsemi sem felst í frystingu loðdýrafóðurs.


H-G er svo að sjálfsögðu sjálft með öfluga starfsemi í húsinu, þar sem hluti landvinnslu félagsins er staðsettur. Starfsmenn hennar fengu nýtt hráefni til úrvinnslu í sumar en þar voru lausfryst á fimmta hundrað tonn af makríl, sem allur fór til manneldis. Þessa vinnsla skapaði starfsfólki svo og skólafólki umtalsverða vinnu í sumar.

miðvikudagurinn 13. apríl 2011

Góðir gestir í heimsókn

Í morgun komu góðir gestir í heimsókn, Norski sendiherrann Dag Wernö Holter ásamt Birnu Lárusdóttur ræðismanni Norðmanna.

Gestirnir kynntu sér starfsemi og sögu fyrirtækisins, skoðuðu bolfiskvinnsluna í Hnífsdal í og smökkuðu á hluta af þeim afurðum sem fyrirtækið framleiðir.

miðvikudagurinn 16. mars 2011

Stefnir ÍS 28 er 35 ára í dag og ber aldurinn vel

Þess er í dag minnst að 35 ár eru liðin frá því togarinn Stefnir ÍS 28, sem Hraðfrystihúsið - Gunnvör hf. hefur gert út undanfarin 18 ár, kom fyrst til hafnar á Flateyri. Togarinn fékk nafnið Gyllir og var gerður út frá Flateyri. Þetta er 50 metra langt skip, smíðað í Flekkefjord í Noregi.

Talsvert var fjallað um sölu Gyllis til Ísafjarðar í fjölmiðlum á sínum tíma. Stofnað var sérstakt félag um kaupin, Þorfinnur hf. Flateyrarhreppur átti 30% í því fyrirtæki og nýtti sér þannig forkaupsrétt á togaranum. Þorfinnur var síðar sameinaður Íshúsfélagi Ísfirðinga hf. sem svo aftur sameinaðist Hraðfrystihúsinu - Gunnvöru hf. árið 2000.

Einar Oddur Kristjánsson, sem þá var framkvæmdastjóri Hjálms á Flateyri sem gerði Gylli út, sagði þann 7. janúar 1993 í viðtali við Morgunblaðið: „Það ætti enginn Íslendingur að velkjast í vafa um að þessi atvinnugrein á í miklum kröggum og fyrirtækin róa lífróður til að halda sér ofansjávar."

Þegar gengið var frá kaupunum, nokkrum árum fyrir sameiningu sveitarfélaga á svæðinu , sagði þáverandi stjórnarformaður Íshúsfélags Ísfirðinga hf., Þorleifur Pálsson, sem nú er bæjarritari í Ísafjarðarbæ, m.a. í viðtali við DV þann 13. janúar 1993:
„Menn verða að taka höndum saman á þessu svæði hér og sjá til þess að skip og kvótar fari ekki í burtu. Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Ísafjarðardjúp, þetta er allt að tengjast í eitt atvinnusvæði. Við áttum fyrir helming í togara á Þingeyri á móti heimamönnum þannig að þetta fyrirkomulag er ekki nýtt hjá okkur." Á sömu tímamótum er einnig haft eftir Þorleifi í Tímanum að á árinu 1992 hafi atvinnuleysisdagar hjá Íshúsfélaginu verið 40 talsins vegna hráefnisskorts.

Eins og títt er sagt um afmælisbörn á besta aldri ber Stefnir ÍS 28 aldurinn vel. Hann sækir mikið í steinbít og skilaði 700 milljónir króna aflaverðmæti á síðasta ári. Skipstjórinn, Pétur Birgisson og áhöfn hans eru þekkt fyrir gæðafisk og fyrirtaks frágang á afla.
mánudagurinn 31. janúar 2011

Fjölmenni í afmælishófi og opnu húsi

Fjöldi fólks mætti í afmælishóf H-G í Edinborgarhúsinu á föstudaginn var, 28. janúar, og átti þar notalega stund. Samkomuhaldið heppnaðist í alla staði vel og opna húsið daginn eftir ekki síður.

Átta starfsmenn H-G voru heiðraðir á föstudaginn fyrir langan og farsælan starfsferil hjá fyrirtækinu. Sá sem lengstan starfsaldur á að baki í þeim hópi hóf störf árið 1964 eða fyrir 47 árum.
Á laugardaginn mætti vel á annað hundrað gesta í opið hús í H-G í Hnífsdal. Verður að segjast að það kom okkur þægilega á óvart hve margir lögðu leið sína hingað til að kynna sér fyrirtækið. Menn höfðu gjarnan orð á því að starfsemin væri mun umfangsmeiri og fjölbreyttari en þeir hefðu gert sér grein fyrir og þeir færu því öllu fróðari af vettvangi. Þar með var tilgangnum líka náð með opna húsinu.

 

Við þökkum gestum okkar í Edinborgarhúsi og í Hnífsdal kærlega fyrir komuna og starfsfólki H-G fyrir þátt sinn í að gera tímamótin í sögu fyrirtækisins bæði afar ánægjuleg og eftirminnileg.

fimmtudagurinn 27. janúar 2011

Opið hús og hóf í tilefni sjötugsafmælis

Hraðfrystihúsið-Gunnvör hf. á afmæli og fagnar að sjálfsögðu áfanganum eins og afmælisbörn á besta aldri gjarnan gera! Eigendur og starfsmenn fyrirtækisins minnast þess að 19. janúar 2011 voru 70 ár liðin frá formlegum stofnfundi Hraðfrystihússins hf. í Hnífsdal, vísi þess öfluga fyrirtækis sem starfar nú á gömlum merg og er ein af kjölfestum byggðar og samfélags á Vestfjörðum.

Við bjóðum Vestfirðingum að gleðjast með okkur í tilefni tímamótanna!

» Edinborgarhúsið á Ísafirði, föstudaginn 28. janúar,
   kl. 17:00-19.00: afmælishóf fyrir starfsfólk HG,
   viðskiptavini félagsins og aðra velunnara.

» Hraðfrystihúsið-Gunnvör við Hnífsdalsbryggju,
   laugardaginn 29. janúar, kl. 12:00-15:00: opið hús!
   Allir hjartanlega velkomnir í heimsókn til að kynna sér
   starfsemina eða einfaldlega til að sýna sig og sjá aðra!

Starfsfólk Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf.