Tíðindi

föstudagurinn 22. desember 2006

Aflaverðmæti Júlíusar Geirmundssonar

Júlíus Geirmundsson ÍS-270 frystiskip Hraðfrystihússins-Gunnvarar kom úr síðustu veiðiferð ársins í gærkvöldi. Aflinn í veiðiferðinni var 470 tonn upp úr sjó, aðallega þorskur, karfi og grálúða, að verðmæti um 100 milljónir króna. Skipstjóri í þessari veiðiferð var Gunnar Arnórsson.

Árið hefur verið hagstætt fyrir áhöfn og útgerð og nemur heildaraflaverðmæti Júlíusar Geirmundssonar á þessu ári rúmun 900 milljónum króna.
föstudagurinn 22. desember 2006

Nýr vinnslubúnaður í Hnífsdal

Í vikunni var tekin í notkun í landvinnslu Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Hnífsdal ný flæðilína frá Marel ásamt ýmsum öðrum búnaði sem er að hluta til smíðuð af Ísfirskum fyrirtækjum og sett upp af starfsmönnum Marel á Ísafirði. Flæðilínan mun gera landvinnsluna samkeppnishæfari í hinni hörðu samkeppni sem ríkir í greininni. Afkoma fiskvinnslunnar hefur farið batnandi að undanförnu í takt við jákvæða þróun gengis krónunnar að undanförnu.
miðvikudagurinn 4. janúar 2006

Enn ein gæðaverðlaunin

Á árlegum markaðsfundi Icelandic Group þann 28. desember síðastliðnum afhenti Magni Þór Geirsson framkvæmdastjóri Icelandic UK áhöfn Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 sérstakan viðurkenningarskjöld fyrir framúrskarandi vöruvöndun við framleiðsluna árið 2005. Áhöfn Júlíusar var sú eina sem fékk viðurkenningu þetta árið frá Icelandic UK, en valið var byggt á gæðaskoðunum SH-þjónustu á afurðum skipsins, auk þess er einnig tekið tillit til umsagnar kaupenda á markaðnum og hlutfall framleiðslu fyrir Bretland. Icelandic UK er sölu- og markaðsfyrirtæki SH í Bretlandi sem sér meðal annars um sölu sjófrystra afurða þar í landi. Bretland er einn mikilvægasti markaður fyrir sjófrystar þorsk- og ýsuafurðir frá Íslandi og því mikil hvatning fyrir áhöfn og útgerð Júlíusar sem byggir mikið á þeim tegundum. Með verðlaununum fylgdi ferð fyrir tvo áhafnarmeðlimi á leik í Ensku deildinni, en það eru margir frábærir tipparar í hópi áhafnarmeðlima. Þess má einnig geta að áhöfnin fékk samskonar verlaun árið 2003.
miðvikudagurinn 4. janúar 2006

Aflinn árið 2005

Skip
Magn í tonnum
Verðmæti í milljónum
Andey ÍS-440
558
53 mill
Framnes ÍS-708
113
10 mill
Stefnir ÍS-28
3.003
286 mill
Páll Pálsson ÍS-102
4.559
406 mill
Júlíus Geirmundsson ÍS-270
4.480
744 mill
FOB
Alls.
12.713
1.500 mill

Ef afurðir af Júlíusi hefðu verið seldar Cif má áætla aflaverðmætið um 807 milljónir.
miðvikudagurinn 12. október 2005

50 ár frá stofnun Gunnvarar hf

Síðastliðinn föstudag þann 7. október voru 50. ár liðin frá stofnun Gunnvarar hf á Ísafirði. Stofnendur félagsins voru þau Jóhann Júlíusson, Margrét Leós, Þórður Júlíusson, Bára Hjaltadóttir, Jón B. Jónsson og Helga Engilbertsdóttir.

Í tilefni dagsins var opnuð sýning í Safnahúsinu á Ísafirði, á sýningunni er greint frá sögu Gunnvarar hf auk þess sem sögu sjávarútvegs á Ísafirði á þessum tíma eru gerð góð skil. Einnig er starfsemi Hraðfrystihússins-Gunnvarar í nútímanum gerð góð skil.

Í tilefni þessara tímamóta ákvað stjórn Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf að veita styrki til mikilvægra mála í samfélaginu alls að upphæð kr. 3.000.000,- sem skiptist þannig: Söfnun til kaupa á sneiðmyndatæki sem staðsett verður á sjúkrahúsinu á Ísafirði kr. 1.500.000,- Björgunarfélag Ísafjarðar til tækjakaupa kr. 500.000,- Tónlistafélag Ísafjarðar, flygilssjóður kr. 250.000,- Ísafjarðarkirkja, Altaristafla kr. 250.000,- Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar kr. 250.000,- Safnahúsið á Ísafirði til tækjakaupa kr. 250.000,-

Sýningin verður opin almenningi næstu vikur á opnunartíma safnsins, veg og vanda af uppsetningu sýningarinnar höfðu sagnfræðingarnir Guðfinna Hreiðarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir.