Tíðindi

miðvikudagurinn 4. janúar 2006

Enn ein gæðaverðlaunin

Á árlegum markaðsfundi Icelandic Group þann 28. desember síðastliðnum afhenti Magni Þór Geirsson framkvæmdastjóri Icelandic UK áhöfn Júlíusar Geirmundssonar ÍS 270 sérstakan viðurkenningarskjöld fyrir framúrskarandi vöruvöndun við framleiðsluna árið 2005. Áhöfn Júlíusar var sú eina sem fékk viðurkenningu þetta árið frá Icelandic UK, en valið var byggt á gæðaskoðunum SH-þjónustu á afurðum skipsins, auk þess er einnig tekið tillit til umsagnar kaupenda á markaðnum og hlutfall framleiðslu fyrir Bretland. Icelandic UK er sölu- og markaðsfyrirtæki SH í Bretlandi sem sér meðal annars um sölu sjófrystra afurða þar í landi. Bretland er einn mikilvægasti markaður fyrir sjófrystar þorsk- og ýsuafurðir frá Íslandi og því mikil hvatning fyrir áhöfn og útgerð Júlíusar sem byggir mikið á þeim tegundum. Með verðlaununum fylgdi ferð fyrir tvo áhafnarmeðlimi á leik í Ensku deildinni, en það eru margir frábærir tipparar í hópi áhafnarmeðlima. Þess má einnig geta að áhöfnin fékk samskonar verlaun árið 2003.
miðvikudagurinn 4. janúar 2006

Aflinn árið 2005

Skip
Magn í tonnum
Verðmæti í milljónum
Andey ÍS-440
558
53 mill
Framnes ÍS-708
113
10 mill
Stefnir ÍS-28
3.003
286 mill
Páll Pálsson ÍS-102
4.559
406 mill
Júlíus Geirmundsson ÍS-270
4.480
744 mill
FOB
Alls.
12.713
1.500 mill

Ef afurðir af Júlíusi hefðu verið seldar Cif má áætla aflaverðmætið um 807 milljónir.
miðvikudagurinn 12. október 2005

50 ár frá stofnun Gunnvarar hf

Síðastliðinn föstudag þann 7. október voru 50. ár liðin frá stofnun Gunnvarar hf á Ísafirði. Stofnendur félagsins voru þau Jóhann Júlíusson, Margrét Leós, Þórður Júlíusson, Bára Hjaltadóttir, Jón B. Jónsson og Helga Engilbertsdóttir.

Í tilefni dagsins var opnuð sýning í Safnahúsinu á Ísafirði, á sýningunni er greint frá sögu Gunnvarar hf auk þess sem sögu sjávarútvegs á Ísafirði á þessum tíma eru gerð góð skil. Einnig er starfsemi Hraðfrystihússins-Gunnvarar í nútímanum gerð góð skil.

Í tilefni þessara tímamóta ákvað stjórn Hraðfrystihússins-Gunnvarar hf að veita styrki til mikilvægra mála í samfélaginu alls að upphæð kr. 3.000.000,- sem skiptist þannig: Söfnun til kaupa á sneiðmyndatæki sem staðsett verður á sjúkrahúsinu á Ísafirði kr. 1.500.000,- Björgunarfélag Ísafjarðar til tækjakaupa kr. 500.000,- Tónlistafélag Ísafjarðar, flygilssjóður kr. 250.000,- Ísafjarðarkirkja, Altaristafla kr. 250.000,- Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar kr. 250.000,- Safnahúsið á Ísafirði til tækjakaupa kr. 250.000,-

Sýningin verður opin almenningi næstu vikur á opnunartíma safnsins, veg og vanda af uppsetningu sýningarinnar höfðu sagnfræðingarnir Guðfinna Hreiðarsdóttir og Jóna Símonía Bjarnadóttir.
miðvikudagurinn 31. ágúst 2005

Rækjuvinnslu hætt um sinn, en starfsfólki boðin störf við þorskeldi og bolfiskvinnslu.

Stjórn Frosta hf. Súðavík hefur ákveðið að hætta um sinn rækjuvinnslu í verksmiðju félagsins í Súðavík. Samhliða þessu neyðist fyrirtækið til þess að segja upp hluta af því starfsfólki sem starfar við verksmiðjuna, alls 18 manns í um 15 stöðugildum. Í frystigeymslum Frosta hf. er hráefni sem auk afla rækjuskipsins Andeyjar er áætlað að dugi til vinnslu næstu tvo mánuði, en þegar vinnslu þess er lokið verður rækjuvinnslu hætt.

Vegna þeirra alvarlegu aðstæðna sem skapast í atvinnulífi Súðvíkinga við þessar óhjákvæmilegu aðgerðir hefur Hraðfrystihúsið – Gunnvör h.f., annar eigandi Frosta hf., ákveðið að bjóða starfsfólkinu störf við bolfisksvinnslu HG í Hnífsdal og við störf sem skapast hafa vegna aukinna umsvifa á sviði þorskeldis HG í Súðavík. HG mun í samvinnu við Súðavíkurhrepp skoða möguleika á að taka þátt í kostnaði við akstur starfsfólksins á milli Súðavíkur og Hnífsdals.

Ástæða þessara aðgerða er mikill taprekstur rækjuvinnslu Frosta,. hf það sem af er ári og væri ábyrgðarlaust að halda áfram á sömu braut, enda gæti það leitt til þess að félagið færi í þrot. Helstu ástæður taprekstursins eru m.a. afar hátt gengi íslensku krónunnar ásamt lækkandi afurðaverði rækju. Einnig hefur veiði verið slök ásamt því að útgerðarkostnaður, s.s. olíukostnaður og innlendir kostnaðarliðir hafa hækkað mikið undanfarin misseri.

Hér er því að stærstum hluta um að ræða afleiðingar ytri aðstæðna bæði hér innanlands og utan, sem þessi atvinnugrein sem og aðrar útflutningsgreinar búa við um þessar mundir.

Fréttatilkynning frá Frosta,. hf., Súðavík
þriðjudagurinn 30. ágúst 2005

Páll Pálsson hirti ýsumetið af Þórunni Sveinsdóttur VE

Páll Pálsson ÍS, ísfisktogari Hraðfrystihússins-Gunnvarar í Hnífsdal, var lang aflahæsta fiskiskipið í ýsu á því fiskveiðiári sem nú er að ljúka og sló þar með met sem Þórunn Sveinsdóttir VE setti á síðasta fiskveiðiári.

Páll Pálsson veiddi alls 2.371 tonn af ýsu á þessu ári, en gamla metið átti Þórunn Sveinsdóttir, 2.043 tonn, en það var sett í fyrra.

Það var ekki fyrr en á síðasta fiskveiðiári að það gerðist að skip veiddu meira en 1.500 tonn af ýsu á einu ári. Slíkt hafði ekki þekkst áður. Þá veiddu þrjú skip meira en 1.500 tonn, en í ár eru þau fimm. Rétt er þó að hafa í huga að fiskveiðiárinu er ekki enn lokið og talsverður ýsuafli gæti enn verið óskráður á vinnsluskipin á árinu, en þó er talið ómögulegt að nokkurt þeirra geti skákað Páli Pálssyni að þessu sinni.